1.11.2011 | 23:47
Má skapa jafnræði kynjanna?
"Mest jafnrétti á Íslandi"! - Það fer oftast um mann aulahrollur þegar efsta stig orða er notað í samhengi við Ísland, ekki hvað síst í fyrirsögnum fjölmiðla. Að eitthvað sé mest, best eða stærst á Íslandi er eitthvað svo 2007. Engu líkara er en að fyrirsaganasmiðirnir á Mbl.is séu dálítið fastir í hugarfarinu sem þá ríkti. Að auki er augljóst að á meðan misrétti ríkir er jafnrétti ekki til. Fyrirsögn þessarar fréttar er því villandi. En þá að megin efninu.
Alþjóðaefnahagsráðið heldur því fram að á vissum sviðum sé misréttið sem konur eru beittar í heiminum, minnst hér á landi. Í efnahagslegu tilliti, gagnvart konum, standi Íslendingar sig ágætlega því "fæðingarorlof, rausnarlegar fæðingarorlofsgreiðslur sem almannatryggingar og atvinnurekendur standi undir og skattaívilnanir" stuðli að minna misrétti en annarsstaðar viðgengst í heiminum. Þá er til þess tekið að hvað varðar menntun og heilbrigði standi konu hér á landi "nærri jafnfætis" körlum.
Það er ánægjulegt að jafn réttur kynjanna á grundvelli laga sé tryggður á Íslandi, en það merkir ekki að á meðal þeirra ríki jafnræði, hvað þá alger jöfnuður.
Jafnræði er ástand sem lagaumhverfi hjálpar til að móta, en grundvallast fyrst og fremst á afstöðu einstaklinga til lífsins og þeirra gilda sem þeir hafa tileinkað sér. - Nauðsynlegt er að þau gildi feli sér þann skilning að líffræðilegur munur kynjanna hafi ekkert með stöðu þeirra, rétt og skyldur að gera. Hin svokölluðu kynlægu sjónarmið eru áhersluatriði, ekki algild grundvallarsannindi.
Þá ber þess að gæta að samráð nauðsynleg forsenda jafnræðis á öllum stigum samfélagsins. Án þess verður jafnræði aldrei að veruleika og jafnréttinu sjálfu er stöðugt ógnað. -
Fæstir átta sig á hversu áhrifamikið þetta tiltölulega einfalda hjálpartæki er í mannlegum samskiptum. - Margir misskilja orðið einnig og halda að samráð sé eingöngu fólgið í að upplýsa aðra um ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar. - Svo er ekki.
Samráð er ferill sem bæði fjölskyldur, fyrirtæki, stofnanir og félög geta nýtt sér við ákvarðanatöku og felur í sér eftirtalin atriði:
Upplýsingum um viðfangsefnið skal safna eins víða og framast er unnt og leita eftir ólíkum sjónarmiðum. Þetta getur falið í sér að leita álits sérfræðinga - svo sem lögfræðinga, lækna eða vísindamanna. En líka getur þetta þýtt að leitað sé upplýsinga utan hefðbundinna sérgreina, eða að reynt sé að gaumgæfa skoðanir einstaklinga í samfélaginu sem eiga sér ólíkan bakgrunn. Mikilvægt er að málsaðilar samþykki að allar fáanlegar upplýsingar liggi fyrir áður en lengra er haldið.
Meðan á umræðum stendur, verða þátttakendur að leitast við að vera eins opinskáir og hreinskilnir og mögulegt er, en sýna samtímis fullan áhuga á skoðunum annarra. Persónulegar árásir, úrslitakostir eða fordómafullar staðhæfingar skal forðast.
Þegar hugmynd er fram komin,verður hún með það sama eign hópsins. Þó að þessi staðhæfing virðist einföld, þá er þetta þó ef til vill djúptækasta regla samráðs, því að með þessari reglu hætta allar hugmyndir að vera eign einstaklings, hóps eða stuðningsflokks. Þegar þessari reglu er fylgt, eru þær hugmyndir, sem fram koma, af einlægri löngun til að þjóna í mótsögn við hugmyndir sem fram eru bornar af persónulegri metorðagirnd eða flokkadráttum.
Hópurinn leitar eftir samhljóða samþykki, en hægt er að taka meiri hluta ákvörðun til þess að fá fram niðurstöðu og taka ákvörðun. Mikilvægt viðhorf til þessarar grunnreglu er sá skilningur að þegar ákvörðun hefur verið tekin, þá er öllum í hópnum skylt að standa í einingu um þá ákvörðun - án tillits til hverjir studdu hana.
Mest jafnrétti á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Mannréttindi | Facebook
Athugasemdir
Stofnunin Bertelsmann Stiftung hefur gert mikla könnun á ýmsum þáttum þjóðfélgagsins, sem varða félagslegt réttlæti í öllum 31 OECD löndunum. Þar lendir Ísland á toppnum og Tyrkland á botninum, eða númer 31.
Ýmsir þættir eru kannaðir s.s. fátækt, menntun, heilsufar, atvinnuhorfur, jafnrétti o.fl. Mér finnst athyglisvert að í jafnréttismálum erum við í 10. sæti í þessari könnun.
Rímar ekki alveg við þessa könun hjá Alþjóðaefnahagsráðinu (World Economic Forum)
Gunnar Th. Gunnarsson, 2.11.2011 kl. 03:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.