1.11.2011 | 16:57
Santa versus Stekkjastaur
Amerísk menning og þjóðhættir eiga greiðan aðgang að Íslandi og Íslendingar upp til hópa virðast afar ginkeyptir fyrir henni. Í hönd fara nú þeir mánuðir þegar mest ber á því hversu andsvaralítið íslenskir siðir og þjóðhættir hafa smá saman látið í minni pokann, eða upplitast af þeim amerísku og tínt sérkennum sínum.
Þótt reynt hafi verið t.d. að halda við, og endurvekja, íslensku jólasveinana, sjást þeir yfirleitt á ferli rauðklæddir og í búningi að hætti Coca Cola-sveinsins og haga sér svo til eins og hann, -
Aðeins nöfn hinna rammíslensku tröllasona hafa nokkurn veginn haldið sér. Grýla, Leppalúði og jólakötturinn eru yfirleitt hvergi sjánleg nema á Þjóðmynjasafninu.
Valentínusardagurinn er smá saman að ýta alveg út hinum íslenska konudegi sem þýðir að bóndadagurinn og það jafnræði sem þessir tveir dagar báru með sér, er ekki lengur í heiðri haft eða minnst á þeim dögum.
Í stað þess að árétta og þakka hinni góðu búkonu störf hennar og lofa hagsýni hennar, er tilhugalífið með tilheyrandi rósrauðri rómantík, blómum og súkkulaði orðið að aðalatriðum.
Þá skal ekki rugla bónda og konudegi saman við mæðra og feðradagana sem einnig eru amerísk uppfinning og blómasalar og konfekt framleiðendur hafa gert sér mat úr hér á landi allt frá árinu 1934.
Nýafstaðin er Hrekkjavakan (Halloween) sem er smá saman að færa sig upp á skaftið hér á landi, þrátt fyrir að Íslendingar hafi haft talvert fyrir því á sínum tíma að koma sér upp þjóðlegum hátíðahöldum í svipuðum dúr og sem haldin voru upphaflega á gamlárskvöld.
Form þeirra hátíðahalda hefur reyndar sumsstaðar færst yfir á þrettándann. Í stað álfa, huldufólks og trölla, koma uppvakningar, blóðsugur og raðmorðingar í bland við amerísk ofurmenni ættuð úr þarlendum hasarblöðum og kvikmyndum.
Að sama skapi og þessir amerísku þjóðhættir riðja sér hér til rúms, viðspyrnulítið, verður hlutur þeirra íslensku minni og máttlausari.
Sprengidagur og öskudagur koma og fara án þess að elduð sé baunasúpa á heimilum landsins eða saumaðir öskupokar.
Bolludegi er reyndar enn haldið uppi af bökurum en vendirnir eru horfnir ásamt tilheyrandi flengingum.
Að mörgu leiti hefur okkur íslendingum mistekist að heimfæra menningararf bændasamfélagsins yfir á bæja og borgarsamfélagið. Jónsmessan er aflögð, sumardagurinn fyrsti á útleið eins og fyrsti vetrardagur. Það eru helst matarvenjurnar sem lifa. Skata er víða elduð á þorláksmessu og þorrablót lifa ágætu lífi með sínu súrmeti og hangiketi.
Ferðamenn (túristar) hafa oft orð á því að þeim finnist íslensk menning vera mjög amerísk. Það sem dregur þá til landsins er sérstæði íslenskrar náttúru og þeir búast einhvern veginn við því að menning okkar sé jafn sérstök og landið. Til að upplifa ameríska menningu mundu þeir fara til Ameríku, er viðkvæðið.
Kannski er það gamla eylands-minnimáttarkenndin sem þarna birtist enn á ný, og aftur að ástæðulausu. Hún felst í því að halda að allt hljóti að vera merkilegra og betra meðal annarra þjóða. Oft er reynt að fela hana með innistæðulausum þjóðarrembingi og mikilmennsku-stælum eins og við þekkjum svo vel úr sögu síðustu ára.
Íslenskir þjóðhættir eru hins vegar menningararfur sem vert er að halda í. Þeir skilgreina okkur betur sem þjóð og gerir landið og íbúa þess mun áhugaverðari um leið.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Dægurmál, Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.