Þegar Poppgoðin deyja

michael-jackson-Þau eru menn og konur sem við hefjum í huga okkar og hjarta upp á ímyndaða festinguna vegna hæfileika þeirra til að hrífa okkur í burt frá þessum heimi um stund.

Við tilbiðjum þau líka með ýmsu móti, fórnum þeim verðmætum okkar, tíma og peningum, gerum af þeim líkön og myndir og prýðum með þeim vistarverur okkar og tilbeiðslumusterin öll; leik, kvikmynda, tónlistar og öldurhús borga og bæja.

Í nútíma samfélagi gegna þau sama hlutverki fyrir sálarlíf okkar og íbúar Ólympíu fjalls og Ásheima gerðu forðum. 

Á hverjum degi tínum við upp í okkur af mikilli græðgi alla fréttamolana sem umbar og spunameistararnir stjarnanna hafa matreitt sérstaklega ofaní okkur.

Við köllum þau stjörnur og sess þeirra er á himni, ekki satt?

En þegar stjörnurnar hverfa úr þessum heimi, ungar og í blóma lífsins og neyða okkur til að horfast í augu við forgengileika okkar sjálfra, hefst goðsagnagerðin fyrir alvöru. Besti efniviðurinn í hana á vorri upplýsingaöld, er fenginn úr samsæriskenningingum. Og þær bestu snúast aðallega um spurninguna; "hver drap hann/hana?"

Goð deyja nefnilega ekki á venjulegan hátt eins og ég og þú. Örlög þeirra og endalok verða að vera vafin einhverri dul og sveipuð leyndardómi. - Einungis þannig geta þau haldið áfram að vera aðgreind frá okkur hinum mennsku og ljóminn af hrævareldum lífs þeirra eins og hann birtist okkur í hinum margvíslegu fjölmiðlum, haldið áfram að veita okkur þá andlegu og trúarlegu fróun sem kakafónía margra og fjölbreyttra goða, ein getur áorkað.

Að vera tekin í  guðatölu á við margar kvikmynda, rokk og poppstjörnur sem látist hafa langt um aldur fram, en ekki allar. Útlitið þarf líka að vera guðdómlegt.

marilyn_monroe_Til dæmis voru þeir John Bonham og Keith Moon báðir of feitir og miklir nautnabelgir til að það kæmust af stað einhverjar sögusagnir um að orsök dauða þeirra hafi verið einhverjar aðrar en svall og svínarí. 

Brian Jones og Janis Joplin sem tilheyra reyndar hinum fræga 27 ára að eilífu félagsskap, dóu einnig undir afar grunsamlegum kringumstæðum, eða svona eins rokkstjörnum sæmir, uppstoppuð af dópi.

En að sjálfsögðu getur konungur poppsins, sjálfur Michael Jackson, ekki hafa látist nema fyrir sök einhvers annars en sjálfs sín. Auðvitað er það Conrad Murray  læknir sem ber sökina, eða til vara, einhver annar sem hann var að vinna fyrir. Hið fullkomna nútíma átrúnaðargoð getur ekki dáið nema að einhver hafi drepið það.

Eða trúir því einhver að Marilyn Monroe hafi ekki verið drepin af CIA vegna þess að hún hélt við tvo Kennedy bræður samtímis,  og var orðin of illa farin af drykkju og dópi til að vera treystandi til að halda því leyndu mikið lengur.

Og var ekki Elvis Presley grandað af CIA þegar hann brá sér á klósettið til að kúka,  eitt kvöldið?

Svo vita allir að breski krúnuerfinginn Charles lét drepa konu sína Diönu, prinssessu fólksins, til að geta giftast hinni ægifögru Camillu Parker, áskonu sinni til margra ára.

Eða hverju var raunverulega blandað í dópið sem Jimi Hendrix, Jim Morrison og Sid Vicious tóku inn, allt saman alvanir menn þegar kom að blöndun eiturlyfja, dælum og nálum?

Elvis PresleyÞá er alveg ljóst að krabbameinið sem Bob Marley dó af  var tilkomið vegna þess hann var látinn eta geislavirk efni.  Og var ekki haglabyssuskotið sem Kurt Cobain dó af grunsamlegt, jafnvel þótt hann hafi skrifað sjálfsvígs-bréf og hleypt því af  sjálfur?

John Lennon var drepinn af einhverjum lúða sem gerður var út af einhverjum af þeim fjölmörgu sem óttuðust áhrif hans og eins fór fyrir Tubac Shakr og Biggie Smalls,  jafnvel þótt þeir hafi verið í einhverjum glæpagengjum sem virða mannslífin á borð við mexíkanska eiturlyfjaprangara.

Og hvað munum við þurfa að bíða lengi þangað til að sögusagnirnar fara á kreik um orsakir dauða Amy Winehouse. - Enn er verið að bíða eftir formlegum niðurstöðum úr krufningu hennar. Það tekur tíma að koma saman sögu sem passar við allar þessa dóptegundir sem í líkama hennar fundust.

Þörfin til að "trúa" er líklega rótin af öllum þessum samsæriskenningum um dauða átrúnaðargoða okkar. Goðsagnirnar og trúin sem var og er  hluti af sameiginlegu vitundarlífi okkar verður æ snauðara af því yfirnáttúrlega og dularfulla. Eitthvað í sálarlífinu krefst hinsvegar að slíkt sé til staðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vissi ekki að Michael Jackson væri svo veikur að hann þyrfti að sprauta sig með svefnlyfi. Hefur verið langt leiddur karlanginn.Læknirinn er saklaus í versta falli meðvirkur ,fær kannski vítur fyrir það .

poppi (IP-tala skráð) 30.9.2011 kl. 17:55

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll poppi.Jackson var greinilega mjög veikur. Hann notaði lyfjakokteil sem hefði leitt fólk sem ekki hafði þróað með sér þol fyrir lyfjunum, til dauða. Þessi réttarhöld eru sýndarmennskan ein. Er það tilviljun að þau hefjast einmitt um það leiti sem fjölskylda Jackson skipuleggur "minningartónleka" þar sem fram á að koma fólk sem nákvæmlega ekkert hafa eða höfðu með Mickael að gera. - Eða kannski er þetta bara ein samsæriskenningin enn :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.9.2011 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband