17.5.2011 | 00:04
Fyrst góða löggan, svo slæma löggan
Bandaríkin sjá sér færi á að tukta stjórnvöld í Pakistan dálítið til. Pakistanar hafa ekki verið að standa sig sem skildi að mati USA og þess vegna er John Kerry, fyrrverandi forsetaframbjóðandi sendur með þau skilaboð að Bandaríkin vilji fá eitthvað meira fyrir sinn snúð. -
Nú þegar búið er að koma Osam bin Laden fyrir fiskanef, þarf að fá á hreint hversu margir vissu um dvöl hans í Pakistan og hversu langt sú þekking náði inn í raðir ríkistjórnarmeðlima þar í landi.
Bandaríkin hafa ausið miklu fé í lán og styrki til Pakistan og keypt með því fé fylgisspekt Pakistönsku stjórnarinnar. Þess vegna skilja þeir ekkert í þessum látalátum Pakistana að meina þeim um að yfirheyra fólkið sem þeir tóku til fanga í húsi Osama bin Ladens, eftir að sela-sérsveitin hafði klúðrað brottflutningi þess með því að brotlenda þyrlunni á húsveggnum, sem átti að flytja fólkið burtu í.
Pakistanar eru líka eitthvað að malda í móinn og tuða um að þeir séu ásakaðir fyrir að vera ekki treystandi en þurfa samt fram að þessu að vera aðal þolandinn í hefndarverkunum fyrir aftökuna á Osama bin Laden.
En Pakistan er land þar sem vinstri höndin hefur ekki hugmynd um hvað sú hægri gerir né virðist stjórn landsins kunna fótum sínum forráð. Það er í sjálfu sér ágæt aðferð við að reka land þar sem stjórnvöld verða stöðugt að geta falið verk sín fyrir íbúum landsins eða sagt þau hafa allt annan tilgang en þau raunverulega hafa. Við það bætist að mikill hluti almennings er ólæs og óskrifandi og veit aðeins það sem klerkurinn í þorpsmoskunni segir þeim. - Þess vegna veit enginn hvað er satt og hvað ósatt af því sem Pakistanar segja. Þetta vita Bandaríkjamenn og þess vegna nota þeir kunnugleg löggubrögð til að komast að sannleikanum.
En Pakistan ræður yfir kjarnorkuvopnum og það setur þjóðina í hóp þeirra þjóða sem þarf að hafa góðar með einhverjum ráðum. Peningar, fullt af þeim, er ráðið eins og staðan er í dag. Þessir peningar koma að mestu frá USA eins og fyrr segir og verið að mestu afskrifaðir sem stríðskosnaður´.
Herra John Kerry er sendur til Pakistan í sama tilgangi og samúðarfulla löggan er send fyrst inn í yfirheyrslu herbergið. Ef þið leysið ekki frá skjóðunni kemur vonda löggan strax á eftir og þá fáiði sko að kenna á því. Hillary Clinton er á leiðinni. Ríkisstjórnin í Pakistan þolir fátt verra en frú Clinton. Þeir þola illa konur sem hafa skoðanir og alls ekki að konu sem getur sagt þeim til verka. -
Áður en varir mun fjölskylda Osama bin Ladens verða afhent Bandaríkjamönnum til yfirheyrslu, einhverjir lágt settir leyniþjónustumenn verða skotnir og Bandaríska þingið samþykkir enn eina efnahagsaðstoðar-greiðsluna til Pakistan.
Biðjast ekki afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 00:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.