7.3.2011 | 00:47
Tími Jóhönnu senn liðinn
Jóhanna forsætisráðherra minnir mig stundum á fjallamann sem lagt hefur mikið á sig við að klífa bergið til þess eins að njóta sólarupprisunnar en finnur þá hæsta tindi er náð að útsýnið er hulið þoku. Vonbrigði hennar með árangur starfs síns, þegar hennar tími loks kom, skína nú út úr hverri hrukku.
Samt lætur hún á engu bera og lýsir því yfir að útsýnið hafi verið dýrðlegt.
Og fólkið sem kaus hana og samfylkinguna af því að það fylgdi hinni gildu reglu um að best væri að kjósa þá sem lofuðu minnstu og minka þannig líkurnar á að verða fyrir vonbrigðum, andvarpar nú í hreinni uppgjöf.
Öllum hugmyndunum búsáhaldabyltingarinnar sem Jóhanna í kænsku sinni sem pólitíkus daðraði við í kosningarbaráttunni, hugmyndum með frómum nöfnum eins og nýtt Ísland, kosningu stjórnlagaþings og upptöku persónukjörs, hefur hún varpað fyrir róða. Fólk spyr sig meira að segja að því hvort þær hafi nokkru sinni í raun og veru verið um borð. - Á Jóhönnu er að skilja að þessi mál séu ekki lengur mikilvæg. Samflokksfólki hennar er ljóst að Jóhanna mundi þess vegna aldrei geta unnið aðrar kosningar.
Seigla Jóhönnu er öllum kunn. Seiglan sem kom henni að lokum æðsta valdastól landsins virtist á þeim tíma gagnast þjóðinni. Í dag sýnir hún sömu seigluna en í þetta sinn er ljóst að hún gerir lítið annað enn að skaða hana.
Hugmyndir Jóhönnu um hvernig skuli stjórna landinu eru nefnilega, þegar allt kemur til alls, afar gamaldags. - Þær byggjast á sömu grundvallarreglu og laxveiðimaðurinn notar til að landa stórum fiski. Þannig var um Icesave málið og þannig beitir hún sér í ESB málunum. Hún þykist hafa nógan tíma og notar hann til að þreyta andstæðinga sína, þar til þeir ganga loks fnæsandi og bölvandi á dyr.
Jóhanna hefur með þessari hegðun smá saman einangrast og nú er svo komið að fáir treysta sér til að vinna með henni. Aðeins þeir sem eru tilbúnir að vinna fyrir hana sjá til þess að hún er enn við völd. -
Það liggur fyrir að uppstokkun er í vændum á stjórnarheimilinu. Steingrímur bíður þess óþolinmóður að taka við forsætisráðherrastólnum eins og honum var lofað að yrði þegar kæmi fram yfir mitt kjörtímabil. Þá verður orðið ólífvænlegt fyrir Jóhönnu að halda áfram í stjórninni. Því mun hún fljótlega hverfa úr henni og hætta í pólitík. Hennar tími er liðinn.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 00:51 | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll Svanur
Það er gaman að velta fyrir sér loforðum og slagorðum frá því fyrir kosningar, eitt af því sem oft heyrðist var orðið "fagráðherra" Ég eins og sjálfsagt flestir skildi það þannig að ráðherrarnir ættu að hafa vit á sínum málaflokkum, en hverjar eru efndirnar: Jóhanna Sig er flugfreyja, Steingrímur J. er jarðfræðingur, Svandís Svavars er íslenskufræðingur, Össur er líffræðingur, Jón Bjarna er reyndar búfræðingur og getur þarafleiðandi talist hálfur fagráðherra og svona mætti lengi telja.
Ekki furða þó þetta fólk þurfi herskara af aðstoðarmönnum sem ráðnir eru ekki endilega faglega heldur með hliðsjón af trúnaði við flokksklíkur með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið.
Róbert Tómasson, 7.3.2011 kl. 15:06
Sæll Róbert og þakka þér athugasemdina. Gylfi og Ragnheiður voru "fagfólk" ekki rétt, en aðrir ráðherrar ekki. Fólk sem ekkert veit en segist vita allt endar oftast uppi í pólitík.
Svanur Gísli Þorkelsson, 7.3.2011 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.