20.2.2011 | 04:57
Sjöundi dagur í paradís
Eins og svo margir aðrir hreifst ég mjög af mynd Guðmundar Thorsteinssonar, Sjöundi dagur í paradís, í fyrsta sinn sem ég sá hana.
Bíldudalsprinsinn Muggur vann þessa klippimynd úr glitpappír árið 1920 í Danmörku þar sem hann bjó og óhætt er að fullyrða að hún sé ásamt altaristöflunni í Bessastaðakirkju hans þekktasta verk.
Myndefnið er afar sérkennilegt og ekki endilega auðlesið. Heiti myndarinnar bendir okkur strax í rétta átt.
Bæði í Kristni og Íslam er orðið paradís notað yfir aldingarðinn Eden og himnaríki. Orðið er komið úr forn-persnesku og þýðir garður alsnægta. Úr persnesku ratar það inn í bæði grísku (parádeisos) og Hebresku (pardes).
Myndin sýnir alskeggjaðan karlmann í kjól eða kirtli á göngu niður að árbakka eða stöðuvatni. Á eftir honum koma tvær kirtilklæddar og afar fíngerðar en kynlausar verur. Öll þrjú bera geislabauga.
Í vatninu vappa háfættir vaðfuglar, hugsanlega trönur og handan lagarins sést kengúra með afkvæmi sitt í pokanum. Tré og annar gróður er forsögulegur í útliti.
Mér finnst því langlíklegast að sögusvið mundarinnar sé aldingarðurinn Eden og vatnið sé fljótið sem rann frá Eden til að vökva aldingarðinn, og kvíslaðist þaðan og varð að fjórum stórám, eins og því er lýst í sköpunarsögunni.
Eins og sagan er sögð í fyrstu Mósebók voru Adam og Eva ekki lengi í Paradís. Þau áttuðu sig á að það var mikill munur á réttu og röngu eftir að þau átu af skilningstrénu, og gátu því ekki lengur hagað sér eins og dýr merkurinnar.
Þess vegna urðu þau að yfirgefa Paradís og fara að yrkja jörðina.
Guð kærði sig ekki um að þau eða einhver annar kæmist aftur inn í garðinn og setti því "kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré."
Kerúbar eru einskonar varðenglar og í skýringaritum Gyðinga við Tóruna segir að þessir englar hafi verið tveir og heitið Jophiel og Metatron.
Eftir að Guð hafði skapað alheiminn og rekið Adam og frú úr Paradís, var hann vitaskuld þreyttur og ákvað að hvíla sig. Hann vissi að Pardísargarðurinn var einmitt eini staðurinn sem hann mundi hafa frið. Deginum eftir að hann lauk sköpuninni ákvað hann að eyða í gönguferð um Paradís. Jophiel og Metatron sem gættu líka Guðs þegar hann var í hásætinu og slógust því í för með honum.
Og þetta held ég að hafi verið í huga Muggs þegar hann límdi saman listaverkið Sjöundi dagur í Paradís.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Dægurmál, Trúmál, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:52 | Facebook
Athugasemdir
Þessa mynd komst ég fyrst í kynni við í Barnamúsíkskólanum, á efstu hæðinni í Iðnskólanum í Reykjavík. Þar hékk frekar léleg og snjáð eftirprentun af meistaraverki Muggs. Ég hafði litlar músíkgáfur, nema af fingrum fram, en myndlist var ég hugfanginn af. Ég man að ég stóð á hnjánum á stól í biðsalnum í Barnamúsíkskólanum og skoðaði þessa eftirprentun mjög gaumgæfilega. Eftir músíktímana með leiðinlegum Cherny æfingum og ömurlegum verkum eftir Zoltan Kodaly, var ég oft samferða snillingnum Þorsteini Gauta niður á Hverfisgötu, þar sem við tókum strætó. Hann númer 5 og ég númer 3. Á leiðinni höfðum við fyrir vana að gera fólki bylt við, þar sem það sat við vinnu sína í húsgagnabólstrun á Vitastígnum. Við bönkuðum á rúðu og hrópuðum "buh", og svo hlupum við allt hvað við gátum hlæjandi eins og vitleysingar, þegar reiður kall kom æfur út á eftir okkur. Ungviðið kunni að skemmta sér í þá daga.
Ég fór aldrei í listanám þótt Gunnlaugur Arnlaugsson ætlaði mér það þegar hann nefndi nokkur orð um dúxana úr árganginum á dimmisjóninni jólin 1979 í MH. Fornleifafræðin hafði heillað síðan ég var smástrákur og myndlistin hefur verið lögð að mestu á hilluna síðan 1980.
Þegar maður sér myndina hans Muggs, langar mann að iðka myndlist í minnst sjö daga. Atvinnuleysiskerfið í velferðarparadísinni ESB-Danmörku leyfir það hins vegar ekki. Ég skil ekki Íslendinga sem vilja verða þrælar í ESB.
Svanur, þakka þér fyrir að skrifa um þetta meistarastykki úr íslenska listheiminum. Það kallar fram minningar úr paradís æskunnar, þegar "buh" á Vitastígnum var hættulegasti leikur sem maður kunni.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 20.2.2011 kl. 06:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.