Hvað er að vera Íslendingur?

Allar smáþjóðir í heiminum eiga um þessar mundir í vök að verjast. Hvarvetna er sótt að menningu þeirra og efnahagslegu sjálfstæði. Tilhneigingin er að þær hverfi ein af annarri ofaní myrka súpu efnahagsbandalaga og fjölþjóða-samfélaga þar sem fjölbreytileikinn kostar of mikið til að valdhafar, sem meta allt út frá peningum, þar á meðal menningarverðmæti, sjái sér hag í að viðhalda honum.

Sjálfstæði Íslands hlýtur því, þegar allt kemur til alls, að velta á tilfinningu okkar sem landið byggja, fyrir því hvað það er að vera þjóð.

Á meðan að sjálfstæðisbaráttan fór fram, var lögð rækt við þjóðlega arfleifð okkar þar sem tungumálið og sagnahefðin skiptu mestu máli. Allt miðaði að því að sannfæra okkur sjálf um að við værum þjóð og að sem slík gætum staðið á eigin fótum. 

Um leið og við trúðum þessu sjálf, hófst sú ósvinna að sannfæra aðra í heiminum um það líka. Einhverstaðar þar varð okkur á í messunni.

Til þess virtist ekkert minna duga en nokkur ár af mikilmennskubrjálæði á því stigi að aðrar þjóðir prísuðu sig sæla að við vorum fámenn þjóð og herlaus.

Viðleitnin til að skapa okkur sérstöðu á meðal annarra þjóða hefur einkennt þjóðarvitundina frekar en nokkuð annað, upp á síðkastið. Ísland átti; fegurstu konurnar, sterkustu karlana, klárustu viðskiptajöfrana, falllegasta landið, hreinustu náttúruna, næst besta handboltaliðið og  frumlegasta tónlistarfólkið.  Skoðanakannanir sýndu að við voru bjartsýnastir, hamingjusamastir og ríkastir allra, hér var spillingin meðal stjórnmálamanna og stjórnsýslu minnst í heiminum og draumurinn um að vinna júróvisjón var ávalt lifandi á meðal vor.

Allt þetta mótaði þjóðarvitundundina í nokkra áratugi, sameinaði  þjóðina og gerði okkur að Íslendingum. Þetta var Gamla Ísland.

Nú árar hins vegar illa.

Það er ár og öld síðan íslensk kona vann alþjóðlega fegurðarsamkeppni, eða karl kraftakeppni, viðskiptajöfrarnir reyndust mest prettarar og bankaræningjar, stórir hlutar landsins eru komnir undir virkjanalón og borholur, loftmengun nálægt hættumörkum er algeng í Reykjavík, einn bankaræninginn er líka búinn að ræna "strákunum okkar" svo þjóðin getur ekki lengur sameinast um þá, við erum orðin svartsýnust allra og í 23. sæti yfir þá hamingjusömu, minnstu líkur á hagvexti mælast á Íslandi,  Björk er hætt að seljast og allir eru löngu búnir að gefa upp vonina að við vinnum nokkru sinni júróvisjón.

Fólk spyr sig hvort allt sjálfstraustið hafi aðeins verið hrævareldar og tálsýn og hvað sé til ráða til að bæta ástandið.

Einhverjir vonuðu að eftir allsherjarhrunið mikla mundi gefast tækifæri til að byggja Nýtt Ísland. Í ljós hefur komið að fólk hefur ekki hugmynd um úr hvaða efni það Ísland eigi að vera. Í reynd logar Ísland enn því Það sem hingað til hefur verið reynt að gera er meira í ætt við illa skipulagt slökkvistarf en uppbyggingu.

Kannski er mál að spyrja hvað það í raun og veru er sem fær okkur til að vilja að vera áfram Íslendingar.

Er það raunverulega aðeins það sem við lögðum upp með í sjálfstæðisbaráttuna forðum, í viðbót við þær fáu auðlindir sem landið ræður enn yfir, sem gerir okkur að Íslendingum, sem sagt tungumálið, sagan, fiskur, jarðhiti og rafmagn?

Fróðlegt væri að heyra álit einhverra þeirra fáu sem þetta blogg lesa, um hvað það er að vera Íslendingur og hvort það skipti þá enn einhverju máli. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Svanur það skiptir auðvitað öllu máli að vera Íslendingur fyrir Íslendinga.

Smæðin, stórfjölskyldusamhyggðin, umburðarlyndið og væntumþykjan er klárlega sterkt element.  

Auk þess tölum við og skrifum tungumál, sem mjööööög fáir skilja.

Veikleikinn birtist í andstæðunum við smæðina.

Sjúkleg minnimáttarkennd birtist í andstæðu sinni sem hættuleg meirimáttarkennd, og hana þarf að uppræta.

Þegar á bjátar og allt kemur til alls er það fjölskyldan og vinirnir sem skipta máli, þannig er það líka að vera Íslendingur.

Vinsemd

Jenný Stefanía Jensdóttir, 14.1.2011 kl. 03:50

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég veit ekki hvaðan Jenný fær þær hugmyndir að íslendingar séu umburðarlyndir ;)

Fyrir mig skiptir þetta ekki nokkru máli lengur, ég get þess vegna skipt um ríkisfang til noregs..

Óskar Þorkelsson, 14.1.2011 kl. 09:14

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

1000 ára einangrun á eyju út í miðju hafi hefur gert það að verkum að menningarlega erum við öðruvísi (hvorki betri né verri) en þjóðirnar í kring um okkur.

Annars er skilgreiningin á hvað er þjóð mjög loðin.  Víðasta skilgreiningin er hópur fólks sem af einhverjum ástæðum kýs að búa og vinna saman, en landfræðilegar og menningarlegar aðstæður hafa líka mikil áhrif þar á.

Það að vera Íslendingur er ekkert merkilegra eða mikilvægara en hvað annað, en það er eðli mannskepnunar að vilja geta skilgreint sig sem eitthvað og menning, tunga og saga hefur þar mikil áhrif.  Skilgreiningarnar breytast svo með tíð og tíma líkt og gerðist með þýsku þjóðirnar.  Sama þróun á sér stað á meginlandi Evrópu þótt hægt gangi, í þá veru að fólk skilgreini sig frekar sem Evrópubúa fremur en t.d. Austurríkismenn eða Grikki.

En öll erum við samt fólk.

Axel Þór Kolbeinsson, 14.1.2011 kl. 10:42

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Við erum bara venjuleg þjóð og eins og allar viljum við halda okkur útaf fyrir sig. Við höfum alltaf boðið gestum og gangandi velkomin en svo komu þessir ég tel þessar fjölmenninga kellur og vildu opna land fyrir öllum. Þá hófst ógæfan það fylgdu lög sem við skildum ekki sem gestgjafar svo kom EES pakkinn ofan á allt og engin skildi neitt og ekki einusinni þeir sem áttu að dreif þeim sð skipun stjórnvalds þið öll vitið restina.

Valdimar Samúelsson, 14.1.2011 kl. 14:32

5 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Óskar, sú staðreynd að meintir hrunkvöðlar allir nema einn, (þegar þetta er skrifað) skuli sperra sig um götur og torg, með forstjóratitla og meira, rífandi kjaft, án þess að vera lamdir niður, sýnir fádæma umburðarlyndi sem þekktist hvergi á byggðu bóli nema Íslandi.

Það þyrfti ekki mikla meðvirkni til að setja þagga niður í þeim í viðskiptalegu tilliti.  

Það er það sem ég á við með umburðarlyndi

Jenný Stefanía Jensdóttir, 14.1.2011 kl. 15:54

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Jenný.Fjölskylda mín er að mestu íslensk, en líka norsk og líka bandarísk. Ég finn aðallega fyrir ættjarðarástinni þegar ég hugsa um ráðaleysið og sundrunguna sem á landinu ríkir. Hver höndin upp á móti annarri´hjá þessari litlu þjóð sem vel gæti rúmast í einni blokk í New York. - Ég er ekki viss um þetta með umburðarlyndið. Jú vissulega þurfti þjóðin að tileinka sér umburðarlyndi gagnvart náunga sínum, þar sem allir eru undan öllum. En í tilviki "hrunkvöðalana" er þetta hreint ráðaleysi og kannski bland af veiklyndi.

Svanur Gísli Þorkelsson, 14.1.2011 kl. 19:45

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll félagi Óskar. Ertu í alvörunni að pæla í að gerast norsari?

Svanur Gísli Þorkelsson, 14.1.2011 kl. 19:45

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Axel. ég tek undir allt það sem þú segir, og sérstaklega þetta með þörf allra til að tilheyra, fjölskyldu, samfélagi eða þjóð.

Svanur Gísli Þorkelsson, 14.1.2011 kl. 19:48

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Valdmar, við viljum vera "út af fyrir okkur" en á sama tíma hafa aðgang að öllum öðrum. Íslenska þ´joðin hefur eins og þú segir ætíð státað sig af því að vera gestrisin, sérstaklega ef hægt var að hafa gagn af gestinum á einhvern hátt. Ég tek undir með þér þegar þú segir "og engin skildi neitt". Skilningur okkar er ætíð í samræmi við þekkinguna sem við höfum. Kannski þurfum við einmitt að þekkja okkur sjálf betur til að geta skilið náunga okkar.

Svanur Gísli Þorkelsson, 14.1.2011 kl. 19:53

10 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég hef velt því alvarlega fyrir mér Svanur síðan 2006 að ég álpaðist til kambodíu og ætlaði yfir landamærin.. lenti í 30 mínutna stappi við menn sem trúðu því ekki að til væri land sem heitir island.. því island þýðir jú bara eyja á ensku :) passin gat ekkiverið annaðen falsaður og það var fyrir snarráð thailensks landamæravarðar að ég lenti ekki í hremmingum vegna þessa.. hann dró mig yfir til thailands aftur og með passann.. síðan þá hef ég komist á þá skoðun að íslenskt ríkisfang er ekkert spes :) allavega ekki mikið öryggi í því ef maður er að þvælast á einhverjum dularfullum stöðum heimskringlunnar..

Ég þarf bara að mæta til UD skrifa undir tilbúið skjal sem þar liggur frammi og ég verð norskur á einni viku.

Óskar Þorkelsson, 14.1.2011 kl. 20:33

11 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

hef lent í því sama og Óskar með passann.. og deili skoðun hans með að íslenskt ríkisfang er ekkert spes. og ég bý líka í Noregi, hef búið í nokkrum löndum reyndar. Er kominn af leysingjum sem komust hvergi og bjuggu við ömurleg kjör í 1000 ár, hefðu sennilega aftur orðið þrælar - ef landið hefði legið nær öðrum þjóðum.

mikið ofsalega væri gott ef íslendingar tileinkuðu sér orð bóka eins og Konungsskuggsjár - "ungir menn eiga að fara út og læra af öðrum þjóðum, svo geta þeir komið heim og farið á eftirlaun." fornmennirnir þekktu nefninlega örlög einangraðra bændaþjóða, sú leið liggur niður á við.

Í Gerplu tekur Halldór góðan snúning á þessu. Að vera íslenskur þýðir fyrir mér blaut lopapeysa og neftóbak.

Baldvin Kristjánsson, 18.1.2011 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband