Saltkjöt og baunir, túkall.

Á uppvaxtarárum mínum sungu krakkarnir; Saltkjöt og baunir, túkall, platan er búin, ég vann.

Þetta þótti sniðugt og enginn spurði nokkru sinni um hvaðan þessi samsuða væri komin. Líklega gerðu allir ráð fyrir að þetta hefði lifað lengi með þjóðinni.

Snemma á síðasta ári leitaði Karen Kjartansdóttir á fréttastofu Vísis að uppruna lagsins "Saltkjöt og baunir, túkall" og er fyrirsögn greinarinnar "Uppruni lagstúfsins fundinn". Reyndar kemur Karen ekkert inn á uppruna laglínunnar en fer nálægt því að skýra frá uppruna textans.

Karen Kjartansdóttir skrifar:

Fréttastofa leitaði í gær að uppruna lagstúfsins "saltkjöt og baunir túkall." Þjóðháttafræðingar og starfsmenn þjóðminjasafnsins hvorki skýringar á aldri þessa orðasambands né á því hvernig túkallinn komst inn í borðhaldið. Ómar Ragnarsson elsta hljóðritaða dæmið vera frá miðri öld. Karen Kjartansdóttir reyndi að leysa gátuna.

Fjöldi góðra ábendinga bárust fréttastofu í gær eftir að óskað var eftir skýringum á uppruna lagstúfsins góða sem menn söngla oft á sprengidegi.

Góður áhorfandi benti á að áður fyrr var oft soðbrauð haft með saltkjöti og baunum. Brauð þetta var soðið í kjötinu í hátt í klukkutíma og var það í laginu eins og kleinuhringur, rétt eins og danski túkallinn gamli sem lagið vísar í. Lagið vísi því í máltíð samansetta af salkjöti, baunasúpu og soðbrauði.

Annar áhorfandi hringdi og benti á að Baldur Georgs sjónhverfingamaður og búktalari sem þekktur var fyrir að skemmta með brúðunni Konna á árunum 1946 til 1964, hafi líklega fyrstur manna endað skemmtiatriði með þessum orðum.

Við bárum þessar skýringar undir Ómar Ragnarsson sem kominn er af bökurum auk þess sem hann hefur endað mörg atriði sín með þessum orðum í rúmlega hálfa öld.

Hann taldi sennilegt að elsta hljóðritaða dæmi af þessum söng sé af plötu með Baldri frá árinu 1954.

Þá benti hjálpsamur starfsmaður Þjóðminjasafnsins á að fyrir tveimur árum hafi verið spurt um orðatiltækið í þættinum Íslenskt mál hjá Ríkisútvarpinu. Þá hafði samband kona sem benti á að lagið væri þekkt frá rakarakvartettum í Bandaríkjunum sem á árum áður sungu Shave and a haircut 10 cents. Ekki fékkst þó skýring á því hvernig þetta var svo yfirfært á túkallinn og saltkjöt og baunir.

Ómar segir auk þess að þótt ekki sé vitað hve lengi Íslendingar hafi sönglað þetta hafi verið alþekkt að ljúka atriðum á þennan hátt þegar hann var átján ára gamall að stíga sín fyrstu skref á sviði um miðbik síðustu aldar.

Barnabarn Baldurs, Ágúst Freyr Ingason, staðfesti í samtali við fréttastofu að þetta mætti allt rekja til Baldurs. Afi hans hafi sagt honum frá því að þetta væri frá sér komið.

 Í fyrirspurn um málið til  Vísindavefsins mánuði seinna svarar Guðrún Kvaran prófessor á þessa leið; 

Ekki er gott að segja hvers vegna túkall fylgir sönglinu um saltkjöt og baunir. Samkvæmt Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans eru elst dæmi um túkall frá miðri 20. öld en átt er við tveggja krónu pening eða –seðil rétt eins og nú er talað um fimmkall, tíkall, hundrað kall og þúsund kall. Orðið túkaller fengið að láni úr dönsku (to = tveir) og reyndar einhver hinna líka. Þar í landi þekkist að talað sé um femkarl, tikarl.

Lengi hefur þekkst að sjóða saman saltkjöt og baunir en elsta dæmi á vefnum Tímarit.is þar sem túkallinn fylgir er frá 1979. Eitthvað mun þetta þó vera eldra, hugsanlega frá því um miðja 20. öld. Hvergi hafa enn sem komið er fundist heimildir um að hægt hafi verið að kaupa saltkjöt og baunir fyrir tvær krónur. Þó má vel hugsa sér að einhver matstaður hafi boðið upp á réttinn fyrir miðja öldina þegar tvær krónur voru einhvers virði og auglýst svo.

Í Bretlandi er laglínan þekkt sem snöggur endir á mörgum barnagælum þar sem m.a. einhverskonar matur kemur fyrir í textanum eins og;"Tripe and bananas, fried fish".

Laglínan er þekktust þar undir nafninu "hi-tiddy-i-ti, brown bread" en í Bandaríkjunum undir heitinu Shave and a Haircut.

Laglínan kom fyrst fram svo vitað sé árið 1899 í lagi eftir Charles Hale se heitir "At a Darktown Cakewalk."

Þar næst heyrist hún árið 1911 úr "Hot Scotch Rag"með H.A. Fischler og textinn við  hana; "om-tiddly-om-pom, pom pom".

Eins og fram kemur í grein Karenar er laglínan þekkt frá rakarakvartettum í Bandaríkjunum sem á árum áður sungu "Shave and a haircut 10 cents".

Í breskum söngsölum um 1940 varð til "Shave and a haircut, five bob/ two bits" Þannig komst myntin inn í texta laglínunnar.

Með því að blanda þessum tveimur þekktustu viðfangefnum í laglínunni frá Bretlandi; mat sem ekki var sérlega vinsæll meðal barna og myntinni úr rakaraauglýsingunni,  staðfæra þau svo við íslenskar aðstæður,  bjó trúlega Baldur Georgsson til íslensku útgáfuna, Saltkjöt og baunir, túkall. 

En hversvegna einhver vann þegar platan var búin, hef ég ekki hugmynd um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

það eru greinilega fá takmörk fyrir því í hverju þú pælir Svanur :)

Óskar Þorkelsson, 8.1.2011 kl. 22:57

2 identicon

Þetta er áhugavert, en vissir þú Svanur, að þegar heilinn nemur tónlist þá titrar hann með agnarsmáum sveiflum í sömu tíðni og tónlistin sem spiluð er?

Nema hvað.

Það voru einhverjir náungar sem vissu þetta og gerðu einhverra hluta vegna tilraun á turnuglu (ekki spyrja mig af hverju þeir völdu uglu). Þeir settu rafskaut á höfuðkúpu hennar til að skrá hvernig heili uglunnar myndi bregðast við tónlist, sem þeir spiluðu fyrir hana.  Í ljós kom að heili uglunnar titraði.

Þessu næst tóku þeir fáeina takta úr tónsmíðinni þannig að það mynduðust stuttar þagnir. Þá bar svo við að heili uglunnar bætti upp þennan skort með því að titra með tíðni sem nam grunntón tónsmíðarinnar.

Go figure...

Jóhann (IP-tala skráð) 9.1.2011 kl. 01:19

3 identicon

Alltaf að leita að hinu fullkomna tónverki  

Gugga (IP-tala skráð) 9.1.2011 kl. 03:35

4 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Til þess að kveða upp eignarrétt á róló í gamla daga, náði maður í stein eða sandhrauk, setti á rólusætið og kallaði; "heilarandi" í rólunni einn tveir og þrír,  hljóp svo inn til að drekka, pissa eða borða, kom svo út aftur að rólunni ósnertri.

Á þessum stað og þessum tíma  var borin virðing fyrir skýlausum eignarrétti.

Mörgum árum seinna, (of seint) uppgötvaði maður að "heilarandi" var stitting á heilagur andi. 

Jenný Stefanía Jensdóttir, 9.1.2011 kl. 04:55

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Það verður svo margt á vegi manns félagi Óskar :)

Takk fyrir það Jóhann.Jú, það er greinilega jafn margt skrýtið i ugluhausnum og kýrhausnum. Ég hafði ekki heyrt um þessa tilraun, en veit að meðal Búddista er það gamall átrúnaður að tónar láti heilann víbra. Sumar möntrur þeirra eru sérstaklega til þess gerðar.

Auðvitað Gugga mín :)

Takk fyrir þetta Jenný. Á róló giltu mjög strangar reglur í gamla daga, enda engir umsjónarmenn á staðnum til að skikka krakka. Það voru heldur engir umsjónarmenn á skólagöngunum eða úti við í frímínútunum en samt fór allt nokkuð skikkanlega fram, enda sveif "heilarandi" yfir vötnunum :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 9.1.2011 kl. 06:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband