Rapa Nui var stolið

101203-rapanui-hmed-5p_grid-6x2Sjálfstæðibarátta þjóða fer fram með ýmsum hætti. Smáþjóðir víða um heim eiga í vök að verjast og eru margar vonlitlar um að þær verði nokkru sinni að fullu sjálfráða og fullvalda. Sem betur fer er sú barrátta að baki hjá okkur Íslendingum þótt marga uggi enn um framtíðina.

Á Rapa Nui, eyjunni afskektu í suðvestur Kyrrahafi,  sem kunnari er undir gamla heiti sínu Páskaey, heygja frumbyggjar  friðsama baráttu fyrir sjálfstæði sínu frá herraþjóðinni,-Suður Ameríkuríkinu Síle. 

Síle sölsaði Rapa Nui undir sig árið 1888 með umdeildum samningi við Atamu Tekena "konung" eyjarinnar, sem ríkisstjórn Síle hafði sjálf útnefnt eftir dauða helsta höfðingja eyjarinnar sem staðið hafði gegn valdayfirtöku Síle í mörg ár.

Rapa Nui dans 2Eftir yfirtöku eyjarinnar, var land hennar að mestu afhent aðfluttum fjárbændum sem unnu fyrir Williamson-Balfour fyrirtækið en frumbyggjunum gert að flytjast til stærsta bæjar hennar Hanga Toro. Eyjan var undir stjórn Sjóhers Síle þar til 1966 en það ár var frumbyggjum loks gefinn ríkisborgararéttur í Síle.

Með stjóraskrárbreytingum í Síle árið 2007 fékk Rapa Nui Sér-héraðsrétt og við það efldist að nokkru frelsisbarátta hinna fámennu þjóðar sem lítinn sem engan yfirráðrétt hafa yfir auðlindum eyjunnar né hafa þeir hlutdeild í síauknum ferðamannaiðnaði hennar.

Eins og fréttin segir, settust nokkrir frumbyggjar að í húsum sem áður tilheyrðu þeim áður en ríkistjórn herraþjóðarinnar yfirtók þær. Lögreglan beitti hörku og það kom til blóðsúthellinga.

Einn af hinum ungu sjálfstæðissinnum Rapa Nui skrifaði eftirfarandi bréf til stjórnvalda Sile.

Ki he te roa o te Tire i ruŋa o te mātou kaiŋa? Me’e ra’e. Ho’e tautini va’u hanere va’u ahuru ma va’u i toke ai e te Tire i te kuhane o te Rapa Nui tā’atoa. Ko rohirohi ‘ana te taŋata tā’atoa o te hau nei o Pito o Te Henua i te reoreo o te hau nei he Tire. Toke te mana’u; toke te mana o te tupuna ata ki aŋarina. Etahi nō mana’u o te taure’are’a, o te korohu’a, o te ru’au, o te ŋa vi’e peinei e. Ka e’a te Tire mai ruŋa i te rāua motu. Ka hakare te rāua kaiŋa ki te mana’u. Peinei e. ‘Ina ‘a katahi me’e tano i va’ai mai e te Tire ki te henua nei. Ka ho’e hanere piti ahuru matahiti ki aŋarina, ina ‘a he me’e nehenehe ra’e i hakatikea mai e te hau nei he Tire. He tu’u mai, he toke tahi i te henua o te Rapa Nui. Ka e’a koe, tu’u taŋata, tu’u rakerake, tu’u reva. Ka hoki ki tu’u kaiŋa ko Tire.


Rapa Nui frumbyggjar dansaHversu lengi hefur Síle dvalið í landi okkar. Það er hið fyrsta. Síðan 1888 hefur andi Rapa Nui verið hertekinn af Síle. Allt fólkið í ríkisstjórn Rapa Nui er orðið uppgefið á lygum ríkisstjórnar Síle. Hugum okkar hefur verið rænt. Hinum andlega mætti forfeðra okkar hefur verið rænt og ekki skilað til þessa dags. Það er aðeins ein hugsun í hugum ungdómsins, karlmannanna, öldunganna og kvennanna; Síle, yfirgefið land okkar. Á rúmlega hundrað og tuttugu árum hefur ríkisstjórn Síle ekki sýnt okkur nokkuð sem fagurt þykir. Þeir komu hérna, stálu öllu landi Rapa Nui. Farið! Þið fólk, þið hinir illu, takið fána ykkar og snúið aftur til ykkar lands; Síle. 


mbl.is Blóðug átök á Páskaeyju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rapa Nui er nýlenda eins og ég býst við að þær hafi verið 19. öld. Það ótrúlegt að heimamenn þurfi að standa í að berjast fyrir jafn sjálfsögðum hlut og yfirráði yfir landinu sínu núna á 21. öldinni. Það er líka ótrúlegt að bera saman muninn á lifnaðarhætti fólksins á Rapa Nui og á meiginlandinu. En þarna er miklu meiri fátækt heldur en í "ríku" borgum Síle. Jafnvel ef maður ber sama bæji eins og Punta Arena syðst í Patagóníu sem er álíka einangrað, þá er ástandið ekki nærri því jafn slæmt þar. Ástæðan fyrir þessu er sennilega sú að í Punta Arena býr hvítt fólk en á Rapa Nui frumbyggjar. En íbúar Rapa Nui eru ekki einu frumbyggjarnir sem þurfa að líða fyrir kynþáttamismunun síleskra stjórnvalda. Mapuche indjánar suður af Santiago hafa lengi staðið í réttindabaráttu og vilja margir þeirra aðskilnað frá Síle. En þetta virðist vera gegnumgangandi þema þegar heimamenn heyra undir stjórnvöld af öðrum kynþætti (t.d.Tíbet og Xinjiang af Kína; Chaipas af Mexíkó; Filipseyjar og Puertó Ríkó af Bandaríkjunum; Palestína af Ísrael; Kúrdar af Íran og Tyrklandi). Og í þessu samhengi er sérstaklega athugavert að skoða dönsku nýlendurnar, Grænland og Færeyjar. En á Færeyjum búa norrænir hvítingar á meðan á Grænlandi búa hörundsdekkri Inúítar og fátæktin töluvert meiri.

Þannig að svo virðist vera að íbúar Rapa Nui séu fornarlömb sama skaðvaldsins og annarsstaðar, það er stjórnvalda sem þjást af grófri kynþáttahyggju.

Rúnar (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 22:42

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þakka frábæra athugasemd og fræðandi viðbót við færsluna Rúnar.

Svanur Gísli Þorkelsson, 4.12.2010 kl. 23:17

3 identicon

Upplýsingarnar hjá Rúnari standast að mestu leyti, en málið er nú svolítið flóknara samt. Vissulega er lengi búin að vera gríðarleg mismunun í gangi gagnvart Rapa Nui (það mætti líka telja Juan Fernandez með og hugsanlega Mapuche fólkið í Arucania og Bío-Bío). Þetta lagaðist samt mikið þegar að mið-sósíalistastjórnin tók við eftir 1990, herforingjastjórnin var ekki eins umburðarlynd.

Vandamál Rapa Nui hefur verið þetta með auðlindirnar: þær eru mjög takmarkaðar. Sagan segir frá reglulegum hungursneyðum, fiskerí er mjög stopult og jarðnæði takmarkað. Chilestjórn fannst á sínum tíma hún vera að gera góðverk með því að "taka að sér" stjórnina, það var meira að segja talað um að flytja alla íbúana upp á meginlandið (Jótlandsheiðar hvað). Löngum hefur bókstaflega öll samfélagsleg starfsemi þarna verið niðurgreidd af stjórnvöldum í Santíagó.

Hvað varðar ferðamannabissness, þá er held ég eyjan á heimsminjaskrá UNESCO og mjög eftirsótt af ferðaskipuleggjendum - en það er kvóti á fjölda ferðamanna og ýmsar takmarkanir á búsetu og atvinnu, sumpart vegna þessarar sérstöðu.

Þannig að menn ættu að taka með fyrirvara allt tal um að hér sé eingöngu verið að ræða um réttindabaráttu frumbyggja, á bakvið er verið að ásælast skerf af ferðamannakökunni; nýjar byggingalóðir undir hótel og fleira í þeim dúr.

Annars er Chile að skora ansi hátt á Gini stuðli hvað varðar mikla misskiptingu auðs, þar var allt "einka(vina)vætt" sem hægt var undir herforingjastjórninni, með dyggri ráðgjöf Chicago-menntaðra hagspekinga (núverandi forseti er einn af þeim, hann náði ríkisflugfélaginu LAN). Sósíalistar-miðflokkarnir gerðu eitt og annað til að laga ástandið, því hlutir eins og járnbrautir, hlutar úr vegakerfi, vatnsveitur, þjóðgarðar ofl. sem hafði verið "selt" höfðu drabbast niður undir einkarekstrinum (arður ekki viðhald).

Þannig að það er undirliggjandi ólga vegna misskiptingari, ekki bara á Páskaeyju; kannski er hún að brjótast út núna vegna afstöðu nýrrar (hægri)stjórnar í höfuðborginni, veit ekki...

PS: Punta Arenas er eiginlega bresk borg, skoskir ullarkaupmenn og enskir niðursuðubarónar réðu þarna því sem þeir vildu. Þar voru ansi fáir innfæddir eftir, Patagóníu-indíanarnir dóu nokkurn vegin alveg út af völdum farsótta og harðræðis eftir að hvítir menn komu á svæðið.

Sveinn í Felli (IP-tala skráð) 8.12.2010 kl. 08:43

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Það er staðreynd að Rapa Nui þjóðinni hefur verið haldið með skipulögðum hætti fyrir utan aðgang að takmörkuðum auðlindum eyjarinnar, en ferðamennskan er þeirra mikilvægust. Megin reglan um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, smárra sem stórra, ætti að hafa í heiðri þarna sem annarsstaðar.

Þakka annars viðbótina Sveinn.

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.12.2010 kl. 08:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband