Skynsöm afstaða til umdeilds máls

Mikið hefur verið rætt og skrifað um tillögur Mannréttindaráðs og menntaráðs Reykjavíkurborgar um bann við trúarstarfi innan grunn- og leikskóla borgarinnar. Hér að neðan er að finna bréf sem mér finnst sýna skynsama afstöðu til þessa umdeilda máls.

ANDLEGT ÞJÓÐARRÁÐ BAHÁ’ÍA Á ÍSLANDI

THE NATIONAL SPIRITUAL ASSEMBLY OF THE BAHÁ’ÍS OF ICELAND

Öldugata 2 – P.O. Box 536 – 121 Reykjavík

Sími/Telephone: + 354 - 567-0344 – Netfang/E-mail: nsa@bahai.is

Mannréttindaráð og Menntaráð

Ráðhús Reykjavíkur

Tjarnargötu 11

101 Reykjavík

Sent í tölvupósti á formenn nefndanna

margret.kristjana.sverrisdottir@reykjavik.is og

oddny.sturludottir@reykjavik.is

Einnig sent til valinna fjölmiðla

27. október 2010

Efni: Fræðum börnin en tryggjum sjálfstæði skólastarfsins

Nýlegar tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur um að banna trúarstarf innan grunn- og leikskóla borgarinnar hafa vakið sterk viðbrögð og heitar umræður. Andlegt þjóðarráð bahá’ía á Íslandi vill af því tilefni koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri fyrir hönd íslenska bahá’í samfélagsins:

Sjálfstæði skólastarfs í landinu verður að tryggja með öllum ráðum. Það getur engan veginn talist eðlilegt að aðilar utan skólanna eigi sérstaka kröfu á að starfa innan þeirra.

Á hinn bóginn er mikilvægt að skólar njóti óskoraðs frelsis til að styðja við menntun og upplýsingu nemenda sinna, þar á meðal með almennri fræðslu um helstu trúarbrögð og trúarhugmyndir mannkyns.

Í slíkri fræðslu gæti til dæmis falist að bjóða talsmönnum trúar- og lífsskoðunarhópa að kynna trú sína og skoðanir auk vettvangsferða nemenda til þess að kynnast starfi þeirra. Slík fræðsla víkkar ekki aðeins sjóndeildarhring barnanna heldur getur einnig komið í veg fyrir þá fordóma sem fáfræði um fjölbreytilegan andlegan arf mannkynsins elur af sér.

Mikilvægt er að börnum líði vel í skóla og í ýmsum tilvikum getur það orðið til að auka gagnkvæman skilning og umburðarlyndi að nemendurnir fái tækifæri til að kynnast sérstökum aðstæðum einstakra skólafélaga sinna, hvort heldur þær lúta að trú þeirra, þjóðerni eða fötlun, svo dæmi séu tekin. Kynning, heimsóknir eða vettvangsferðir ættu að vera sjálfsagður liður í þeirri viðleitni skólans.

Þekking á trúarbrögðum mannkyns flokkast ótvírætt undir almenna grunnþekkingu á menningarsögu heimsins. Sé vel staðið að kennslu um trúarbrögð, heimspeki og lífsskoðanir almennt ætti hún einnig að vinna gegn fordómum og stuðla að skilningi á ólíkum leiðum til að vinna með lífssýn og þroska. Börn og unglingar ættu að fá að kynnast sem flestum hliðum trúar- og lífsskoðana en skólayfirvöld verða sjálf að setja rammann utan um þá kynningu og eiga frumkvæði að henni.

Með kveðju,

______________________________

Róbert Badí Baldursson

ritari Andlegs þjóðarráðs bahá’ía á Íslandi


mbl.is Sjálfstæði skólastarfs verði tryggt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það verður fróðlegt að sjá viðbrögð vantrúaðra við þessari tillögu.

Hörður Sigurjónsson (IP-tala skráð) 30.10.2010 kl. 00:14

2 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Vantrúaðra? Ég er nokkuð viss um að tillögur mannréttindaráð tengjast ekki heimsóknum fulltrúa trúarbraðga eða vettvangsferðir sem hluti af trúarbragðafræðslunni. Það sem er verið að reyna að koma í veg fyrir eru kirkjuferðir og heimsóknir þar sem trúariðkun fer fram.

Ég myndi alveg treysta bahæjum til að semja fínar tillögur, því ég held að þeir sem minnihlutahópur vilji líka losna við ágang Þjóðkirkjunnar í opinbera skóla.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 30.10.2010 kl. 02:54

3 Smámynd: Heimir Tómasson

Ég kom með þetta svar hjá Guðrúnu Sæmundardóttur. Þó að byrjunina vanti þá segir þetta mitt álit á þessu.

Þetta er ekki spurning um að hvort e-h sé vönduð þýðing eða ekki. Víst er ríkistrú a-la Marteinn Mosdal (og meikar álíka mikinn sens) en stjórnarskráin tekur skýrt fram að trúfrelsi ríki. Samkvæmt því á alls ekki að gera einum trúarbrögðum hærra undir höfði en öðrum. Ef að trúarbragðafræðsla á yfirhöfuð að fara fram í skólum þá eiga fulltrúar allra trúarbragða að eiga jafnan rétt á að koma þar fram, jafnvel satanistar, svo merkilega sem það hljómar.

En ég tek það alls ekki í mál að trúarbrögðum sé troðið upp á börnin mín. Ef ég sé "Kristinfræði" á stundaskrá barnanna minna þá byrja ég á að spyrja þau hvort þau vilji kynna sér þetta, og ef ekki þá kippi ég þeim úr tíma meðan þau ósköp standa yfir. Ef þau vilja sitja tímana þá hvet ég þau til að kynna sér önnur trúrbrögð líka, af nógu er að taka á alnetinu svo ekki er skorti á fræðsluefni fyrir að fara.

Móðir mín heitin hvatti okkur öll börnin til að hætta aldrei að spyrja spurninga um trúarbrögð - en eins og alþekkt er þá er ekkert eins mikið eitur í beinum kirkjunnar eins og gagnrýn hugsun.

Ég minnist fyrst og fremst á kirkjuna. En ég á við skipulögð trúarbrögð. Ef það er eitthvað sem að fær mig til að sjá rautt þá er það þegar ég sé einhvern á launum frá ríkinu - mér - predika það að hann einn og hans stofnun geti komið einhverju skikki á sálu mína.

Trú þín er samtal þitt við guð þinn. Kirkjan sem stofnun á þar hvergi að koma nærri. Hvort sem þú dressar svo Guð upp sem Múhammeð, Jésú eða Buddah, það er undir þér sjálfum komið. En ekki stofna fyrirtæki í kringum það.

Svo ef að það á að gefa krökkum frí í tvo daga til að fara í Vaglaskóg á vegum kirkjunnar, gefið þá einnig frí í tvo daga til að Múslimar geti tekið þau í Vaglaskóg, tvo daga til að Gyðingar fari með þau í Vaglaskóg, tvo daga til að Bahaiar, búddistar, hvítasunnumenn.... það yrði lítill tími  eftir fyrir menntun. Sem að er einmitt markmið trúarbragða. Fátt ógnar skipulögðum trúarbrögðum og gagnrýnin hugsun eins og ég hef sagt áður.

Science flies you to the moon. Organized religion flies you into buildings. Faith flies you to the heavens.

Heimir Tómasson, 30.10.2010 kl. 07:41

4 identicon

Ég setti þessa athugasemd inn annars staðar en langar að birta hana hér líka í von um svör:

Ég á fimm börn, fædd '90, '92, '94, '95 og 98.

Ég spurði þau öll í dag:

Hafið þið orðið vör við að prestar hafi komið í skólann eða inn í kennslustofu til að predika eða tala um kristna trú?

Nei, svöruðu þau öll.

En hafið þið orðið vör við prest eða presta í skólanum yfirleitt?

Sama svar: Nei.

Sjálfur minnist ég þess ekki að prestur hafi nokkurn tíma heimsótt bekkina sem ég var í og því síður man ég eftir trúboði.

Fleiri hef ég spurt, en engan hef ég fundið sem hefur getað bent mér á skóla þar sem trúboð er stundað í kennslutímum/skólatíma.

Því spyr ég:

Í hvaða skólum/leikskólum fer þetta meinta trúboð eiginlega fram?

Ég hef nefnilega grun um að allt þetta upphlaup vegna trúboðs í skólum landsins sé stormur í vatnsglasi, runnin undan rifjum örfárra athyglissjúkra einstaklinga sem hatast út í kristni og vilja freista þess að koma sínum eigin trúarskoðunum á framfærií skólum og leikskólum.

Ég vil taka það fram að bæði ég og móðir barnanna erum trúlaus og höfum afar takmarkaðan áhuga á trúmálum þótt við séum bæði í þjóðkirkjunni. Svo er einnig um börn okkar og þessi staða truflar okkur nákvæmlega ekki neitt.

Faðir (IP-tala skráð) 30.10.2010 kl. 09:31

5 identicon

Faðir; Þegar ég var ungur drengur þá var ég tekin og settur til prests, farið með mig til kirkju, og bío um Sússa, færð biblía.

Ég á 2 börn, bæði voru tekin fyrir og sett í það sama, þetta var gert algerlega gegn mínum vilja

Með mig og mín börn þá voru þetta 3 mismunandi skólar.

Það sem slær mest er að þú Faðir, þú segir ykkur vera trúlaus EN þið eruð samt í þjóðkirkju... hlægilegt, enn hlægilegra er að það truflar ykkur ekki neitt.

doctore (IP-tala skráð) 30.10.2010 kl. 13:24

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Doctore, það dylst engum að þú hefur stórskaðast af þessari trúarmisnotkun af hálfu forráðamanna þinna.

En hvað áttu við þegar þú segir að börnin þín hafi verið "tekin fyrir og sett í það sama" - að auki gegn þínum vilja?

Varla nærðu fram neinu réttlæti í þeim málum með því að hlæja að þeim sem hafa aðrar skoðanir en þú?

Kolbrún Hilmars, 30.10.2010 kl. 14:27

7 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

í GEGNUM ALDIR HAFA SVARTIR OG HVÍTIR- RÍKIR OG FÁTÆKIR HAFT TRÚ.

 Trúin gefur orku.

Hver segir að trúlaus maður sem trúir á dauðann se hamingjusamur ?

Hver eru hans endalok ?

Erla Magna Alexandersdóttir, 30.10.2010 kl. 17:47

8 identicon

Erla, trúir þú ekki á dauðann? Og hvað með það að fólk hafi haft trú í gengum aldinnar? Það hefur í gengum aldirnar verið fólk sem trúir ekki...... sannar ekkert. Þetta er kannski shock fyrir þig en ég er trúlaus og hamingjusamur, en hey, gaurinn sem er alltaf drukkinn mundi segja þér að hann væri hamingjusamur, líka fólkið sem fer á sýningar hjá Benny Hinn og Peter Popoff (dæmdur svikari) og það virkar alveg rosalega hamingjusamt að láta þessa glæpamenn féflétta sig þökk því að þetta fólk trúir.

Ég trúði sjálfur, svo las ég kaflann í biblíunni þar sem guð lætur nauðga tveim konum og drap barn, bara að því að einn maður gerði eitthvað gegn guði. Erla, ertu hamingjusöm að trú á þetta?

Sverrir (IP-tala skráð) 30.10.2010 kl. 18:38

9 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sverrir beinir ekki spurningu til mín, svo nú ætla ég að slettirekast svolítið :)

Sverrir, þú hefur greinilega kíkt aðeins í Gamla Testamentið og minnir mig þar með á menn sem hafa fullyrt að Íslendingasögurnar séu helberar klámsögur. Við nánari eftirgrennslan höfðu þeir þó ekki lesið neitt annað í þeim bókmenntum en Herrauðssögu - þeim hafði nefnilega verið sagt að sagan sú væri "juicy"...

Kolbrún Hilmars, 30.10.2010 kl. 19:19

10 identicon

Doktor E ... hvaða þrír skólar eru þetta sem þú talar um? Varla erþað leyndarmál.

Og af hverju er það "hlægilegt" að vera í þjóðkirkjunni og láta það ekki trufla sig?

Ég held að það sé miklu betra að hafa allt þetta trúardót á einum stað í stað þess að splitta þessu upp í fjölda deilda og safnaða sem fara síðan að keppa um sálirnar.

Þá fyrst hefst nefnilega alvöru trúboð og upp spreta margfallt fleiri og enn ruglaðri trúarsöfnuðir en nú eru til staðar. Sjáðu bara Bandaríkin. Þar er allt morandi í allskonar trúarsöfnuðum, miklu fleiri en hér. Viltu skapa þannig ástand á Íslandi?

Hugsa stragetískt Doktor ...stragetískt!

Faðir (IP-tala skráð) 30.10.2010 kl. 21:15

11 identicon

Kólbrún, er þetta ekki sami guðinn sem er í GT og NT?

Sverrir (IP-tala skráð) 30.10.2010 kl. 23:24

12 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sverrir, vissulega sami guðinn en af mismunandi mönnum/viðhorfum túlkaður á mismunandi vegu. 

Mín skoðun er að í eingyðistrúarbrögðunum  sé í raun aðeins einn og sami guðinn -  hvort sem hann kallast Jahve, Allah, Guð eða eitthvað annað.

Kolbrún Hilmars, 31.10.2010 kl. 11:29

13 identicon

Og hvernig túlkar þú þetta?

11Svo segir Drottinn: Sjá, ég læt ólán koma yfir þig frá húsi þínu og tek konur þínar fyrir augunum á þér og gef þær öðrum manni, svo að hann hvíli hjá konum þínum að sólinni ásjáandi.

    12Þú hefir gjört þetta með launung, en ég mun framkvæma þetta í augsýn alls Ísraels og í augsýn sólarinnar."

    13Þá sagði Davíð við Natan: "Ég hefi syndgað móti Drottni." Natan sagði við Davíð: "Drottinn hefir og fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja.

    14En sakir þess, að þú hefir smánað Drottin með athæfi þínu, þá skal sá sonur, sem þér er fæddur, vissulega deyja."

    15Síðan fór Natan heim til sín. Drottinn sló barnið, sem kona Úría hafði fætt Davíð, svo að það varð sjúkt.

Guð refsar Davíð með því að láta nauðga báðar konunnar hans og drepa barnið hans, og það var eftir að guð fyrirgaf honum!

Svo er náttúrlega í nýja testamentinu þetta skemmtilega regla sem ég var að spá hvort þú sért sammála?

1Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni.

    12Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát.

    13Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva.

    14Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg.

    15En hún mun hólpin verða, sakir barnburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti.

Sverrir (IP-tala skráð) 31.10.2010 kl. 12:56

14 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sverrir, hvernig á ég að geta túlkað túlkun annarra á vilja Jahve eða Guðs? Ég get fátt öðru svarað en því að áreiðanlega hafa mennirnir meint þetta í fyllstu alvöru!

Kolbrún Hilmars, 31.10.2010 kl. 13:26

15 identicon

Uuuu, það stendur "Svo segir Drottinn" og "Drottinn sló barnið", eiginlega ekki hægt að túlka þetta á neinn annan hátt en guð/Jahve lét nauðga tveim konum og drap barn sem var vilji hans..... ekki segja mér að þú lest biblíuna þannig að þegar þú lest eitthvað gott þá er það gott og ekkert mál að skilja það en þegar það er greinilega vont, þá þarf að skilja það og túlka og blablabla, ég gat það ekki, ég er bara of heiðalegur.

Það var logið að mér í mörg ár að guð væri algóður, það á ekki að leyfa þessu að halda áfram, það á ekki að leyfa trúboð í skólum.

Sverrir (IP-tala skráð) 31.10.2010 kl. 19:16

16 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sverrir, þú þarft að fá einhvern góðan gyðing til þess að kryfja með þér Gamla Testamentið

Kolbrún Hilmars, 1.11.2010 kl. 14:59

17 Smámynd: Egill Óskarsson

Faðir, ef það er ekkert svona í gangi í skólum í Reykjavík þá geta þessar tillögur varla skaðað er það? Þá breyta þær einfaldlega engu.

Egill Óskarsson, 5.11.2010 kl. 00:37

18 identicon

Nákvæmlega Egill! Til hvers þá að vera að bera þær fram? Til hvers að banna eitthvað sem á sér ekki stað hvort sem er? Ég veit ekki betur en að allir séu sammála um að trúboð eigi ekki að fara fram í skólum. Það þarf ekkert að banna það neitt frekar.

Þetta er stormur í vatnsglasi og óþarfa pex frá a til ö.

Faðir (IP-tala skráð) 5.11.2010 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband