Írska flökkufólkið

Í Bretlandi er flökkufólk (Travellers) af ýmsu tagi  talið vera 300.000 talsins.  Þar sem annarstaðar í Evrópu er Róma fólkið fjölmennast. Næst fjölmennastir eru svo kallaðir írskir flakkarar. Erfitt að segja til með vissu um fjölda þeirra en þeir eru taldir vera ekki færri en 30.000.

An Lucht Siúil , Fólkið gangandi.

Írskt farandfólkÍrska farandfólkið er eins og nafnið bendir til upprunalega frá Írlandi. Það hefur eigin siði og hefðir og að mörgu leiti sjálfstæða menningu. Það er að finna einkum á Írlandi, á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum. 

Upp á enska tungu kallar það sig stundum  Minceir eða Pavees  en á Shelta, sem er þeirra móðurmál,  kalla þeir sig an Lucht Siúil sem merkir bókstaflega "Fólkið gangandi". Shelta málið sem er talið vara frá átjándu öld, skiptist í tvær mállýskur; Gammon og Cant.

Margir trúa enn að tungumálið hafi verið þróað meðal flökkufólksins til að aðrir gætu ekki skilið það þegar það reyndi að svíkja og pretta almenning. Svo er þó ekki því tungumálið er raunverulegt tungumál.

Mjög er deilt um uppruna írska farandfólksins. Vandamálið er að þeir sjálfir hafa ekki haldið til haga sögu sinni og ákaflega lítið er um það að finna í heimildum frá Írlandi sem þó verður að teljast mikil söguþjóð.  

írskir flakkararLengi hefur því verið haldið fram að "fólkið gangandi" væri afkomendur landeigenda og vinnufólks þess sem Oliwer Cromwell flæmdi burt af írskum býlum á árunum 1649–53. Aldur tungumáls þeirra styður þá kenningu.

Aðrir segja að þeir séu afkomendur þeirra sem neyddust á vergang í sultarkreppunni miklu upp úr 1840.  En aðrir segja að ýmislegt bendi til að það sé komið af hirðingjum sem bjuggu á Írlandi á fimmtu öld og sem á tólftu öld voru kunnir undir nöfnunum "Tynkler" og "Tynker" (Tinnari). Slík nöfn þykja írska farandfólkinu niðrandi í dag.

Ljóst er að sumar fjölskyldur írska farandfólksins rekja ættir sínar tiltölulega stutt aftur í tímann en aðrar nokkrar aldir. Á Bretlandi er talið að þær telji allt að 30.000 manns.

Það safnar gjarnan brotamálmi á ferðum sínum um landið og sérhæfir sig í hundarækt og ræktun og sölu hesta.

BrúðurÞá kemur það árlega saman á stórum mótum bæði í Ballinasloe á Írlandi og í Appleby á Bretlandi til að eiga viðskipti við hvort annað og finna maka fyrir börn sín. Algengt er að stúlkur trúlofist nokkuð eldri drengjum þegar þær eru 14 ára og gifti sig þegar þær verða 16 ára.

Fyrrum ferðuðust írskir flakkarar um á hestvögnum. Í dag hafa margir þeirra sest að í hjólhýsahverfum. þeir sem enn eru á ferðinni,  ferðast um í stórum hjólhýsum.

Upp til hópa eru írsku flakkararnir fátækir og ómenntaðir. Lífslíkur á meðal þeirra eru undir meðaltali og barnadauði hærri en gengur og gerist annarstaðar í breskum samfélögum.

Almenningur er haldin miklum fordómum gagnvart þessu fólki og telur það vera þjófótta lygara og glæpamenn upp til hópa. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Alltaf sér maður eitthvað nýtt! Takk fyrir þetta Svanur.

Ólafur Eiríksson, 18.10.2010 kl. 02:37

2 identicon

Fræðandi eins og svo oft áður. Þar tekst þér best upp.

Takk.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 18.10.2010 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband