1.10.2010 | 16:36
Eggjahræra og eldar við Austurvöll
Vonleysið í augum mótmælenda við Austurvöll í dag var augljóst. Reiðin líka. En hvað gagnar að mótmæla þegar engar lausnir eru í sjónmáli?
Allar klisjurnar eru orðnar svo þreyttar að það er vafasamt að hægt sé að segja eitthvað um "ástandið" sem ekki hefur verið sagt margoft áður. Róbert Marshall er samt ekkert smeykur við að hafa þær yfir, aftur og aftur. Fyrir fáeinum mánuðum voru allir búnir að fá leið á þessu "hvelvítis fokking fokki" eins og það var orðað. Eða var það bara þreyta? Er fólk virkilega reiðubúið að hoppa aftur á hringekjuna?
Forsetinn reyndi við þingsetninguna að telja kjark í þingmenn. Hann sagði að Ísland væri á góðri leið. Orð hans í þingsal hljómuðu ósannfærandi því fyrir utan hrópuðu 2000 raddir "Út með ruslið!" -
Gott og vel, mokum ruslinu út. En hvað á að koma í staðinn?
Hverjar eru lausnirnar og hverjir eru lausnararnir sem eiga að frelsa Ísland frá sjálfu sér? -
Allir vita að rótin að vandanum sem Íslendingar glíma við er harðkóðaður í það stjórnkerfi sem við búum við. Það er ekki hægt að stjórna landinu í gegnum stjórnmálaflokka án þess að beita einhverja þegna þess misrétti. Þeir sem ekki sjá þetta eru hluti af vandmálinu, ekki lausninni.
Stjórnmálaflokkar eru valdaklíkur sem hafa það eitt að markmiði að viðhalda völdum sínum eða komast til valda. Forsprakkar þeirra vita að þeir þurfa að slá um sig með lýðskrumi til að almenningur kjósi þá. Og almenningur fellur fyrir þessu, aftur og aftur. -
Af hverju? Af hverju trúir almenningur því að þessi úrelta stjórnskipan sé það besta sem lýðræðið hefur upp á að bjóða?
Nú t.d. sér stjórnarandstaðan sér leik á borði og vill að kosið sé aftur. Þeir vonast til að komast aftur til valda.
Ef að fólk vill raunverulegar breytingar ætti það að sameinast um þá kröfu að stjórnmálaflokkar fái ekki að bjóða fram til kosninga. Persónukjör er það eina sem getur komið í veg fyrir endalausa flokkapólitík sem er orsök þess að nauðsynleg sátt um aðgerðir, ekki hvað síst á þessum tímum, næst aldrei á alþingi.
PS.
Hugmynd mín var að blogga ekki aftur fyrr en ég hefði lokið við framhaldsgrein mína um "heimsfræðina". Henni er enn ekki lokið, en það styttist í hana og ég stóst ekki mátið:)
Ekki til farsælda ef reiðin ræður för | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 17:38 | Facebook
Athugasemdir
Nákvæmlega.
Heimir Tómasson, 1.10.2010 kl. 16:42
"Hverjir eru lausnirnar og lausnararnir sem eiga að frelsa Ísland frá sjálfu sér?"
Samtök Fullveldissinna ?
Guðmundur Ásgeirsson, 1.10.2010 kl. 17:25
Takk Svanur fyrir góða grein. Nú þegar að öll spjót standa á þingmönum, að ekki sé talað um efnamikla umsvifamenn í þjóðfélaginu, yrði það ekki slæmur leikur hjá þessu fólki, í ljósi umræðu undanfarinna daga að þeir sýndu samhug og gæfu "tíund" (þetta mætti vera minna eða meira) til fólks er virkilega þarf á peningum að halda.
Ég segi fyrir mig, að ætti ég pening aflögu gæfi ég þá með glöðu geði, ekki síst ættu þingmenn sem virkilega taka ástandið í þjóðfélaginu alvarlega að sýna lit með þvi að gefa til minnimáttar!
Ég trúi ekki öðru en að þeir sýni nú lit með því að gera eitthvað í málinu, t.d, gæti hver þeirra sem aflögu er fær tekið að sér að styrkja ákveðin einstakling, þeir gætu haft samráð um það í samstarfi við félagsmálayfirvöld t.d. ?
En satt að segja á ég alls ekki von á því að þetta gerist, en kraftaverk gerast en, ekki satt ?
Guðmundur Júlíusson, 1.10.2010 kl. 19:55
Algjörlega sammála þér Svanur og ég hef til dæmis aldrei skilið af hverju fólk megi ekki bjóða sig fram á alþingi sem einstaklingur en ekki hluti af einhverjum flokki.
skækill (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 22:59
Kosning til Stjórnlagaþings, verður athyglisverð "general prufa" á persónukjör.
Ég skynja, (þó ég sé í annarri heimsálfu) ákveðna feimni, fuður og jafnvel fáleik gagnvart þessu kjöri, sem á að eiga sér stað innan fárra vikna.
Púkinn á öxlinni, sem þykist hafa verið fluga á vegg inní steinnökkvanum, hvíslar því að mér að þeir sem eru þar innan dyra (mínus nokkrir) hafa enga trú á svona asnalegu persónukjöri. Slíkt sé alveg stórhættulegt og gæti stuðlað að því að hættulegir bloggarar í leðurjökkum með tattú og slíkt fólk gæti komist að! Glæpsamlegir góðborgarar götunnar og annað hyski, sem kann ekki að haga sér eins vel og þau sjálf!
Ég var næstum búin að rota púkann á öxlinni, þegar ég fattaði að hann var að segja mér það sem hann hafði heyrt, ekki það sem hann hélt, svo ég klappaði honum á kollinn og sagð; fagur fagur fiskur í sjó!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 2.10.2010 kl. 05:13
Sæl öll.
Ég hef aldrei heyrt sannfærandi rök fyrir því að hversvegna persónukjör geti verið hættulegt. - Þeir sem standa í vegi fyrir því eru atvinnupólitíkusar sem hafa sótt allt sitt til flokkanna. - Þeir eru eins og hákarlarnir sem ekki hafa breyst í milljónir ára, glefsa í allt sem á vegi þeirra verður og mega aldrei stoppa eina stund til að skoða málin, því þá kafna þeir.
Guðmundur Á. bendir á Samtök Fullveldissinna sem hafa fyrirframmótaða afstöðu til ESB. Það eitt kemur í veg fyrir að þeir verði nokkurn tímann nothæf samtök til eins eða neins. Þeir eru jafn mikið hluti af vandamálinu og pólitísku flokkarnir þótt vissulega hafi þeir t.d. persónukjör á stefnuskránni.
Persónukjör felur ekki í sér að viðkomandi þurfi að hafa fyrirfram gefnar niðurstöður í öllum málum, heldur þarf hann viljann til að vinna landi og þjóð gagn og leita í því efni sannleikans, frekar en kreddukenninga.
Kreddukenningar um að ganga í bandalagið og vera fyrir utan það eru jafn margar. -
Svanur Gísli Þorkelsson, 2.10.2010 kl. 11:27
Svanur, persónukjör er vænlegur kostur, en ef persónan sem býður sig fram hefur enga mótaða afstöðu til mikilvægra mála getum við alveg eins valið eftir útdrætti úr þjóðskrá.
Sem stendur sé ég enga aðra framboðslausn en grasrótarsamtök sem þeir sem hafa áhuga geta boðið fram krafta sína eftir ákveðnum meginlínum. Þannig gæti kjósandinn fyrst valið sér áherslur og síðan kosið fulltrúa (persónukjör) í galopnu prófkjöri.
Kolbrún Hilmars, 2.10.2010 kl. 12:31
Persónukjör myndi halda skoðanakúgun í skefjum.
Skoðanalaus manneskja í mikilvægum málum myndi varla ná kjöri, nema vegna yfirgnæfandi annarra mannkosta
Ein ástæðan fyrir því að hugnast persónukjör, er augljós andstæða ríkjandi valdstétta gagnvart fyrirkomulaginu. Þar að auki ætti hámarkslengd sama einstaklings í valdastöðu að vera skilgreind átta ár, ekki degi lengur!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 2.10.2010 kl. 13:09
Svanur. Ég mætti á Austurvöll vegna þeirra sem ekki hafa mat né heimili til að komast af á Íslandi núna árið 2010! Oft eldriborgarar, atvinnulaust barnafólk og sjúklingar sem enga möguleika hafa til að berjast gegn óréttlætinu! það er ólíðandi með öllu! það veður að bjarga fólki frá sárustu neyðinni fyrst. Í staðinn horfir maður uppá að björgunin byrjaði ofan frá hjá þeim sem ekki líða neina neyð og hafa komið undan ránsfeng í skjóli embættis-mafíu?
Í þessu liggur stærsti vandi Íslands og fleiri landa í dag!
það verður aldrei kosið aftur eftir flokkum á Íslandi, vegna þess að í skjóli flokka hefur spillingin þrifist í góðu vari klíkuflokkanna allra! Er innilega sammála þér að persónukjör er eina leiðin ef á að kjósa. Og þá yrðu frambjóðendur að vera heiðarlegt hugsjónafólk sem skilur hvað orðin "réttlátt samfélag fyrir alla" þýðir!
Ef það frýs ekki blóðið í æðum kúlu-vafninga-svikaranna á alþingi núna, þá eru þeir svo alvarlega sjúkir afbrotamenn að ég veit ekki hvað á að gera við þá! En það verður fundin einhver leið til að taka á því máli, því það er allt að vinna og engu að tapa lengur. Lögin virðast ekki gilda á sama hátt fyrir alla á Íslandi og það býður heim gríðarlegri hættu fyrir alla?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 2.10.2010 kl. 13:30
Kolbrún; Persónuframboð getur vel sprottið í grasrótarstarfi, en það á ekki að leyfa listaframboð af neinu tagi. Þau eru sundrungaröfl í samfélaginu.
Anna Sigríður.
Þetta er mergurinn málsins.
Svanur Gísli Þorkelsson, 2.10.2010 kl. 16:50
Svanur, þú ert ljósárum á undan mér í bjartsýninni
Eins og ég les í samtímann þá skipta málefnin máli - þ.e. kjósandann - og hvernig hin kjörna persóna meðhöndlar málefnið. Það yrði ekki fyrr en málefnin hætta að verða ágreiningsefni að við getum einblínt á persónuna. Sá tími er enn fjarlæg hugsjón.
Kolbrún Hilmars, 2.10.2010 kl. 17:58
P.S. sé að síðasta innlegg var ekki nógu skilmerkilegt. Alltaf að flýta mér :) Vil því bæta við að sjálf kýs ég ekki persónur til þess að mynda mér skoðun, heldur til þess að koma minni skoðun á framfæri. Vil engan lobbýisma eftirá.
Kolbrún Hilmars, 2.10.2010 kl. 18:22
Með persónukjöri þá er kjósandanum sá kostur búinn að ef að e-h frambjóðandinn er ekki með skýra afstöðu þá er einfalt að kjósa einhvern annann. Þetta er ekki hægt í flokkakerfi.
Heimir Tómasson, 3.10.2010 kl. 19:36
Svanur. Takk fyrir stuðninginn
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 3.10.2010 kl. 21:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.