20.9.2010 | 16:03
Er nauðsyn að eitthvað sé til frekar en ekkert?
Lykilspurningin í heimsfræðinni er; "Hvers vegna er eitthvað til frekar en ekkert?".
Hafi alheimurinn orðið til eins og við vitum best, þ.e. með "mikla hvelli", gerðist hann ekki á sama hátt og aðrir atburðir gerast í alheiminum. Sá atburður gerðist ekki í tíma eða rúmi því hvoru tveggja varð til með alheiminum. Ekkert sem við þekkjum getur gerst nema það gerist í tíma og rúmi og lúti lögmálum þessa alheims, hvort sem við þekkjum þau eða ekki. Hvað gerðist fyrir 20,000,000,000 árum, þegar að alheimurinn er aðeins 13,000,000,000 ára er því mótsagnarkennd og merkingarlaus spurning.
En gæti alheimurinn hafa orðið til úr öðrum alheimi? Er mögulegt að til séu óendanlega margir alheimar og að engin þeirra hafi átt sér frumorsök? Óendanleiki er og getur ekki verið ákveðin tala. Það er ekki hægt að draga frá óendanleika eða bæta við hann. 1 plús óendanleiki er sama sem óendanleiki. Hvernig getur þá okkar alheimur verið viðbót við eitthvað sem er óendanlegt?
Ef við blöndum heimspekinni inn í þessar spurningar, kemur eftirfarandi "mótsögn" í ljós.
Ef við segjum að Guð sé óskapaður en sé sjálfur skapari, er hann óumflýjanlega frumorsök alls. En skapari getur ekki verið til án þess að hafa skapað eitthvað sem hefur sjálfstæða tilvist fyrir utan hann. Hafi skaparinn alltaf verið til, erum við um leið að segja að sköpunin hafi alltaf verið til.
Til að hægt sé að tala um "sjálfstæða tilvist" á merkingarfullan hátt þarf að gera ráð fyrir vitsmunum sem eru nægilega miklir til að mynda bæði hlutlæg og óhlutlæg hugtök. Þess vegna gerum við ráð fyrir Guði sem hefur a.m.k. slíka vitsmuni. Þess vegna getum við einnig gert ráð fyrir að sköpun Guðs hljóti að hafa verið ferli frá hinu óhlutlæga til hins hlutlæga. Hugmynd er fyrra stig sköpunarinnar, hluturinn sjálfur í hlutlægu formi annað stig.
Af þessum sökum er líklegt að sá alheimur sem við þekkjum sé hluti af óendanlegri keðju alheima og hann eins og aðrir alheimar hafi ætíð verið til.
"Stórihvellur" getur því aðeins markað upphaf alheimsins sem hlutlægs veruleika. Sem hugmynd hlýtur hann alltaf hafa verið til sem og aðrir alheimar Guðs.
En megin spurning heimsfræðinnar er "hvers vegna er eitthvað til frekar en ekkert?" en ekki hvernig varð eitthvað til. Spurningin hvers vegna; gefur til kynna tilgang.
Fram til þessa hafa engar betri tilgátur komið fram til að svara þeirri spurningu en að gera ráð fyrir tilvisst Guðs og að alheiminum, sköpun hans, gefi hugsanlega eitthvað til kynna um hann sjálfan annað en það eitt að hann sé til.
Um það ætla ég að fjalla í næstu færslu; Nauðsyn þess að eitthvað til frekar en ekkert.
Meginflokkur: Heimspeki | Aukaflokkar: Trúmál, Trúmál og siðferði, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Hmmm, hvernig færðu það út?
Kristinn Theódórsson, 20.9.2010 kl. 16:08
Ég er nú ekki sterkur í stærðfræði, en ég hef aldrei skilið að þetta teljist eitthvað sérstakt vandamál. Ef heimarnir eru óendanlega margir, þá er það ástand sem heili okkar getur líklega ekki skilið. Þá er svona spurning ekkert að gera það meira eða minna óskiljanlegt að mínu mati.
Kristinn Theódórsson, 20.9.2010 kl. 16:15
Hvers vegna, hvers vegna ekki?
Er tilgangur, er ekki tilgangur?
"Hvers vegna" er spurning um óhlutlægar ástæður sem ég skilgreini sem "tilgang", ekki endilega lýsing á ferlinu, sem ég tala um sem "hvernig".
Annars skýri ég muninn betur í næsta kafla. Þar kemur fram hvers vegna Guð skapaði heiminn, frekar en að gera það ekki. Hvorutveggja mundi maður álíta að væri aðeins merkingarfullt í ljósi tilgangs.
Svanur Gísli Þorkelsson, 20.9.2010 kl. 16:18
Þetta er bara spurning um orðalag. Spurningin er af hverju er eitthvað og það er átt við að það vanti skýringu á því, en ekki að það hafi tilgang fyrir einhvern. Sá punktur þinn þykir mér bara föndraður inn í málið.
A.m.k. er vísindamaður ekki að spá í tilgang hlutanna þegar hann spyr af hverju/hvers vegna þetta eða hitt mælist svona eða hinsegin, hann er bara að leita skýringa á mælingunum.
Kristinn Theódórsson, 20.9.2010 kl. 16:32
Óendanleiki er vel skiljanlegt hugtak, en það er ekki og getur ekki verið hlutlægt. Ég er aðeins að sýna fram á það.
Svanur Gísli Þorkelsson, 20.9.2010 kl. 16:33
Orðalag er mjög mikilvægt í þessum pælingum. Það er gerður mikill munur á "hvernig" og hvers vegna" í heimspekinni og heimsfræðinni einmitt af þessum orsökum. Þú þarft að vita ástæðu frumorsakarinnar, sérstaklega ef hún er af nauðsyn, ekki aðeins aðferðina "hvernig".
Svanur Gísli Þorkelsson, 20.9.2010 kl. 16:38
Hljómar bara eins og trúarbrögð í mínum eyrum. En hvað um það, ég bíð eftir næstu grein.
Kristinn Theódórsson, 20.9.2010 kl. 16:55
Það eru nokkrir eðlisfræðingar sem telja að það séu 11 hliðstæðir heima í þessari veröld en aðrir eðlisfræðinga líta á þessa kenningu sem heimspeki því það er ekki hægt að sanna þessa kenningu.
Óendaleikin er þannig ef þú kæmir inná hótel sem væri með óendalega mörg herbergi og vildir leigja herbergi en hótelstjórinn segði þér að öll herbergin væru upptekin. Hótelstjórinn myndi síðan segja ég get útvegað þér herbergi með því að færa fólkið í herbergi 1 í herbergi 2 og fólkið sem væri í því herbergi í herbergi 3 og þannig koll af kolli.
skækill (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 17:11
En skapari getur ekki verið til án þess að hafa skapað eitthvað sem hefur sjálfstæða tilvist fyrir utan hann. Hafi skaparinn alltaf verið til, erum við um leið að segja að sköpunin hafi alltaf verið til. (Svanur)
Nei, en þá má segja að hann (Guð) hafi ekki fengið titilinn skapari fyrr en hann skapaði. Hann var samt alltaf til. Þeir sem fullyrða að eilífð þess skapaða sé afleiðing af eilífð skaparans eru að setja sköpunina á sama stall og Guð.
Sömuleiðis má beita öfugri röksemdarfærslu. Ef hið skapaða var alltaf til var það þá skapað? Biblían kennir að heimurinn eigi sér upphaf og muni líða undir lok í núverandi mynd.
Theódór Norðkvist, 20.9.2010 kl. 21:46
Sæll Theódór N. Sköpunin er ekki sett á stall við skaparann með því einu að eigna sköpuninni eilífð. Ef ég eignaði sköpuninni eiginleika skapara umfram að vera eilíf, væri kannski hægt að snúa dæminu við, en það geri ég ekki. Það sem skiptir máli hér er að sköpunin er ekki almáttug.
Svanur Gísli Þorkelsson, 20.9.2010 kl. 23:54
Og enn frekar; sköpunin á sér upphaf sem óhlutlæg sköpun, en það tekur ákveðinn feril til að verða hlutlæg sköpun.
Svanur Gísli Þorkelsson, 20.9.2010 kl. 23:56
Þetta fer kannski að verða svolítið flókið, en hvað áttu við með óhlutlæg sköpun? Áttu við að hugmyndin að sköpuninni hafi alltaf verið til í huga skaparans? Þá ertu betri að lesa hugsanir Guðs en ég.
Jafngildir það því að fyrirbæri sé til, ef hugmyndin að því er kviknuð (eða í þessu tilfelli var alltaf til samkvæmt því sem þú segir?) Er hús til um leið og arkitektinn er kominn með það í kollinn hvernig það á að líta út, jafnvel áður en hann teiknar það?
Theódór Norðkvist, 21.9.2010 kl. 00:44
Sorry Svanur en það er ekki neinn tilgangur... enginn tilgangur með lífi þínu, nema sá sem þú setur þér sjálfur.
Þú munt ekki lifa að eilífu góurinn, taktu nú tak á sjálfselskunni þinni... það er ekki neinn munur á þínu lífi og svo lífi ánamaðks,fugls, bakteríu.. eða hvað sem er: Þú ert dauður þegar þú ert dauður, allar tilfæringar Þínar á staðreyndum gera ekkert nema sína sjálfselsku silliness
doctore (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 11:13
DoctorE.
Það er hámark sjálfselskunnar að þora ekki að rannsaka sannleikann. Þú kýst frekar að lyppast niður í kreddurnar sem þú ert orðinn þekktur fyrir.
Í stað þess að reyna að skilja, veltir þú þér upp úr sjálfshyggjunni þar sem þú sjálfur ert æðsta viðmið í alheiminum. Hvenær hefur þú komið með nokkur einustu rök fyrir einu eða neinu í öllum þínum skrifum? Aldrei.
Þessi sjálfshyggjuslepja sem út úr þér rennur stöðugt og ávallt gefur engum neitt og gerir ekkert annað enn að bólstra þitt illa haldna egó. -
Í þér býr engin manngæska, engin hugsjón og engin mennska. Í þér býr ekkert annað en látlaus gagnrýni á eitthvað sem þú ekki skilur en öfundast samt út í.
Það er af því að þú hefur aldrei reynt að skilja neitt, heldur baular eins og ibexinn á allt og alla. Þú hefur nákvæmlega ekkert uppbyggilegt til málanna að leggja en hefur þess í stað eyðilagt flestar umræður þar sem þér er leyft að leika lausum hala.
Vertu viss um að ég mun ekki leyfa þér það í þetta sinn.
Svanur Gísli Þorkelsson, 21.9.2010 kl. 11:56
Þvílikt endeimis bull Svanur.
Eh.. víst. Allar tilgátur um miklahvell reyna að útskýra 'það' á nákvæmlega sama hátt og allt annað í alheiminum.. með eðlisfræði.
Eh.. víst. Óendanlegt + 1 = óendanlegt er velþekkt stærð í stærðfræði.
Afhverju ertu að því?
Og ef skaparinn, guð, er ekki til.. en það virðist ekki hvarfla að þér í þessum heimspeki útúrdúr sem þú ert að blanda saman við raunvísindi.
Eða.. við gerum ráð fyrir að guð sé yfirhöfuð ekki til.
Hvaðan kom þessu guð allt í einu?
Eh.. víst. Allar aðrar tilgátur um tilurð heimsins (eins og við þekkjum hann) eru betri en 'guð gerði það'. Þær eru betri því það er hægt að prófa þær á ýmsavegu og niðurstaða slíkra prófana leiðir til meiri vitneskju um alheimin. Það er engin leið að prófa 'guð gerði það', því það er engin leið að mæla hvort þessi guð sé yfirhöfuð til og svarið verður því óumflýjanlega 'guð gerði það'. Og við erum engu betur sett.
Það er auðvelt að bulla og fullyrða hitt og þetta út í loftið, en það verður ekkert sannara fyrir því.
Arnar, 21.9.2010 kl. 12:04
Arnar: Þú veist greinilega ekki neitt hvað þú ert að tala um. Viltu ekki koma með einhverjar tilvitnanir máli þínu til fulltingis. Þú staðhæfir hér bara eitthvað út í loftið.
Svanur Gísli Þorkelsson, 21.9.2010 kl. 12:20
Bara sorry Svanur... ég er að benda þér á þetta vegna þess að ég vil ekki að þú sért silly billy.
Þú getur tekið upp smábarnaaðferðafræði eins og að kenna mig við íbuxa.. .þú getur tekið orð Kristins OfurMegaTrúleysingja sem segist vera betri en aðrir trúleysingjar, og þá sérstaklega ég, þú getur tekið orð Kristins með að það sé í fína lagi að loka á mig og mínar athugasemdir.
But you will look more silly
P.S. Magic is not real, get over it.
doctore (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 12:27
Mér finnst þetta svo fyndin póstur hjá Svani að ég verð að pósta honum aftur
--
Það er hámark sjálfselskunnar að þora ekki að rannsaka sannleikann. Þú kýst frekar að lyppast niður í kreddurnar sem þú ert orðinn þekktur fyrir.
Í stað þess að reyna að skilja, veltir þú þér upp úr sjálfshyggjunni þar sem þú sjálfur ert æðsta viðmið í alheiminum. Hvenær hefur þú komið með nokkur einustu rök fyrir einu eða neinu í öllum þínum skrifum? Aldrei.
Þessi sjálfshyggjuslepja sem út úr þér rennur stöðugt og ávallt gefur engum neitt og gerir ekkert annað enn að bólstra þitt illa haldna egó. -
Í þér býr engin manngæska, engin hugsjón og engin mennska. Í þér býr ekkert annað en látlaus gagnrýni á eitthvað sem þú ekki skilur en öfundast samt út í.
:) Margur heldur mig sig :)
Allt sem ég segi Svanur er stutt af vísindum og þekkingu manna, allt sem þú segir er keyrt áfram af púra sjálfsumhyggju og elsku
doctore (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 13:56
Vinsamlegast benntu mér á dæmi. Eða ertu bara aftur farinn í fílu því ég kalla þig bullara þegar þú bullar?
Heimspeki getur verið ágæt til að ræða vísindalegar aðferðir en á bara ekkert heima þegar verið er að ræða vísindalegar niðurstöður.
Arnar, 21.9.2010 kl. 14:58
Blessaður Arnar, það gengur ekki að tala við Svan.. .Hann ásakar mig um allt sem hann er sekur um; Sjálfselsku og ofurvæntingar, að ég sé á egotrippi og öfundist út í eilíft líf með Gudda + gulli og grænum skógum.
Er eiginlega sorglegt... EN hugsanlega hefur Svanur aldrei lesið neitt sem ég skrifa nema með gleraugum egós og sjálfselsku... Bloggið mitt snýst nefnilega næstum 100% um mannréttindabrot sem eru framin í skjóli trúar
doctore (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 15:26
Hvaðan kom Guð?
Jón Ragnarsson, 21.9.2010 kl. 17:09
Arnar: Ef þú endilega villt get ég rekið þetta þvaður í þér ofaní í þig aftur.
Þú skrifar:
Hvaða eðlisfræðikenningar geta fjallað um orsök Mikla hvells, þegar eðlislögmálin voru ekki til? Allir atburðir gerast samkvæmt eðlisfræðilögmálum og í tíma og rúmi nema "stóri hvellur". Hann gerist utan tíma og rúms því tími og rúm verða ekki til fyrr en hann hefur orðið.
Þú ritar;
Óendanlegt + 1 = óendanlegt er velþekkt stærð í stærðfræði.
Ég segi að óendanleikinn geti ekki verið ákveðin tala, þú segir stærðina vel þekkta. Hvaða tala er óendanleikinn þá? Þú virðist ekki átta þig á að það er munur á hugtakinu óendanleiki og ákveðinni tölu.
Þú spyrð af hverju ég sé að blanda heimsspeki á málið. Það er vegna þess að við erum að fjalla um hluti sem eru að mestu handan vísindalegra aðferða. Við getum ekki gert tilraunir með miklahvell, hvað þá það sem kann að vera handan hans. Þú virðist ekki geta hugsað um neitt á óhlutlægan hátt og lendir því alltaf í vandræðum þegar hugtök eru ekki hlutlæg. Öll skammtafræðin er saman safn óhlutlægra hugtaka. Hún á það sameiginlegt með heimsspekinni og blandast heimspekinni á ýmsan hátt.
Þú staðhæfir að Guð sé ekki til, en þú hefur nákvæmlega ekkert fyrir þér í því. Það er skoðun þín. Ég færi rök fyrir því að Guð geti verið til og segist ætla að færa fyrir því enn frekari rök í næsta pistli.
Þú skrifar;
Það væri fróðlegt að heyra t.d. eina slíka tilgátu. Þú ert greinilega betur að þér en fremstu vísindamenn heimsins.
Svanur Gísli Þorkelsson, 21.9.2010 kl. 17:33
Jón Ragnarsson.
Hvaðan kom Guð?
Hugtakið Guð í sinni frumspekilegu mynd, leyfir ekki þessa spurningu. Hún er markleysa. Ef að þú gerir ráð fyrir Guði sem er skapaður, er hann ekki upphafsorsök. Guð er hugtak yfir það óskapaða, óendanlega og almáttuga. Ekkert af þessum hugtökum getur maður fellt inn í hugtak um Guð sem einhver annar skapaði.
Svanur Gísli Þorkelsson, 21.9.2010 kl. 17:39
DoctorE.
Allir vita hvaða sjónarmið þú hefur. Að hafa þau yfir eina ferðina enn bætir engu þar við.
Það mundi hjálpa mikið ef þú reyndir að rökræða skoðanir þínar. Ég hef lesið eftir þig hundruð staðhæfinga sem yfirleitt segja það sama, og sumt af því sem þú segir get ég alveg skrifað undir. En þegar þú kemur með þessar endalausu alhæfingar sem svo margir hafa lokað á þig fyrir, reynir það mjög á þolinmæðina.
Ef að þú telur að ákveðnar skoðanir séu studdar "af vísindum og þekkingu manna" áttu að tilgreina þær og rökstyðja.
Svanur Gísli Þorkelsson, 21.9.2010 kl. 17:50
Nú ertu óþægilega mikið eins og Mofi, þegar þú biður mig að koma með gögn; NETIÐ ER FULLT AF ÞESSUM GÖGNUM, ALLIR SEM LEITA SANNLEIKANS EIGA AÐ SKOÐA ÞAU; GOOGLE GERIR ÞAÐ AÐ LÉTTUM LEIK. VIÐ HÖFUM VÍSINDARIT OG ALLES.
Hvað hefur þú Svanur, ég sé ekki neitt nema hugaróra með krúsindúllum um akkúrat ekkert nema það eitt að þér langar ekki að vera dauður þegar þú ert dauður.
Það hafa ekki margir lokað á mig, látum okkur sjá
JVJ
Jóhanna
Mofi
+ einhverjir 3-4 ofurkrissar, thats about it: Ef þú lokar á mig þá sérðu að þú verður í góðum félagsskap ;)
DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 18:27
Kæri Svanur
Það sem ég skil í eðlisfræðinni og það er nú kanski ekki mikið en þá er þessi heimur sem við erum í er mikli hvellur.
Heimurinn er en þá að stækka og þannig geta vísindamenn rannsakað afleiðingarnar af þessari miklu sprenginu en vísindamenn geta ekki rannsakað það sem gerðist fyrir sprenginuna miklu.
skækill (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 18:41
Þetta er bara þetta gamla "God of the gaps"; Það er búið að lýsa á öll þessi "gaps" sem trúaðir hafa verið að troða extra lífinu sínu í, ég segi extra lífinu vegna þess að málið snýst ekki um guð, málið snýst um þann trúaða sem er faktíkst búinn að gera sjálfan sig að guði.
Nú þegar þessi göt hafa verið fyllt þá koma trúaðir með eitthvað sem þeir kalla "heimsspeki" með svona, skrautmælgi og væmni í bland við glefsur úr vísindakenningum(Strípuðum).
Bara hlægilegt
DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 18:55
Það er allveg sama hversu mikið trúleysingjar og trúaðir rökkræða á milli sín munu aldrei geta sannað fyrir hvor öðrum að guð sé til eða hann er ekki til.
Hver og ein verður að komast að niðurstöðu fyrir sjálfan sig og sú niðurstaða er í raun og veru aðeins fyrir viðkomandi einstakling en við hljótum að geta talað um það sem ég trúi og rætt um þær hugmyndir í góðu bróðerni þó að við eru ekki samála hvert öðru.
Í lokin langar mig að benda ykkur á skemtilegan fyrirlestur frá blaðamanni sem lifði í heilt ár bókstaflega eftir biblíunni.
http://www.ted.com/talks/lang/eng/a_j_jacobs_year_of_living_biblically.html
skækill (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 19:56
Þó svo að við kæmum með 100% sannanir fyrir því að það séu engir guðir til, það myndi ekki virka á mjög marga.. myndi ekki virka á: Mofa, Svan,JVJ og ótal aðra trúaða.
Trúaður maður er bara maður sem fílar ekki að deyja, en hann mun samt deyja, sama hvað hann grenjar, sama hvaða trúarrit hann les, sama hvað hann hoppar og skoppar í trúar-rituali
Still dead when dead.
doctore (IP-tala skráð) 22.9.2010 kl. 10:40
Ég segi að óendanleikinn geti ekki verið ákveðin tala, þú segir stærðina vel þekkta. Hvaða tala er óendanleikinn þá? Þú virðist ekki átta þig á að það er munur á hugtakinu óendanleiki og ákveðinni tölu.
Þú sagðir orðrétt:
Það er ekki hægt að draga frá óendanleika eða bæta við hann. 1 plús óendanleiki er sama sem óendanleiki. Hvernig getur þá okkar alheimur verið viðbót við eitthvað sem er óendanlegt?
Það er víst hægt að draga frá óendaleika og bæta við hann. Önnur setningin hjá þér er hárrétt en ályktunin sem þú dregur í þeirri þriðju er frekar hæpinn. Þú virðist ekki skilja það að í stærðfræði getur 'vel þekkt stærð' verið óræð, hugtak er kannski betra. PI ætti að vera skiljanlegt dæmi fyrir heimspekinginn þig, geturðu sagt mér hvaða ákveðna tala PI er?
Þú spyrð af hverju ég sé að blanda heimsspeki á málið. Það er vegna þess að við erum að fjalla um hluti sem eru að mestu handan vísindalegra aðferða. Við getum ekki gert tilraunir með miklahvell, hvað þá það sem kann að vera handan hans.
Hvað veist þú um hvað er handan vísindalegra aðferða? Mest lítið greinilega, þessa frétt las ég bara í gær: Large Hadron Collider spies hints of infant universe, New Scientist 21. sept. Með tækjum á borð við LHC er bara alveg hægt að gera tilraunir með miklahvell og jafnvel það sem var handans miklahvells, þegar við skiljum miklahvell betur. Því má bæta við að menn eru strax farnir að láta sig dreyma um en þá öflugra tæki en LHC og hann (LHC) er ekki einu sinni farinn að keyra á fullu afli en þá. Aldrei segja aldrei.
Þú virðist ekki geta hugsað um neitt á óhlutlægan hátt og lendir því alltaf í vandræðum þegar hugtök eru ekki hlutlæg. Öll skammtafræðin er saman safn óhlutlægra hugtaka. Hún á það sameiginlegt með heimsspekinni og blandast heimspekinni á ýmsan hátt.
Og þú virðist alltaf detta í persónu árásir til að verja bullið í þér. Ég, öfugt við þig, geri mér fyllilega grein fyrir því að óhlutlægar hugsanir geta ekki verið gögn í vísindalegum rannsóknum. Td. gengur mönnum mjög ill að framkvæma rannsóknir á skammtafræði. Hvað er 1 + x þar sem x jafngildir 'mér finnst'?
Þú staðhæfir að Guð sé ekki til, en þú hefur nákvæmlega ekkert fyrir þér í því. Það er skoðun þín.
Og þú stafhæfir að guð sé til en hefur nákvæmlega ekkert fyrir þér í því.
Ég færi rök fyrir því að Guð geti verið til og segist ætla að færa fyrir því enn frekari rök í næsta pistli.
Bull og rangfærslur eru ekki rök. Þú einfaldlega tróðst guð inn í dæmið án þess að færa nokkur rök fyrir aðkomu hans, þetta hlyti bara að vera svona fyrst guðinn þinn er til. "Guð er eilífur og þess vegna hlýtur hann að hafa verið alltaf til og þar með til fyrir bigbang og þess vegna hlýtur hann að hafa orsakað bigbang því allt hefur orsök" eru ekki rök! Þau halda ekki vatni því þau ganga út frá því að guð sé yfirhöfuð til (engar áreiðanlegar vísbendingar), að guð sé eilífur (engar áreiðanlegar vísbendingar) og allir atburðir hafi orsök.
Fannst þér þetta málefnaleg lokaorð? Fremstu vísindamenn á þessu sviði hafa komið fram með ýmsar tilgátur sem þú ert greinilega of latur til að googla. Eða kannski þegar þú ert búinn að ákveða að 'guð gerði það' þá er of óþægilegt að kynna sér eitthvað annað.
Arnar, 22.9.2010 kl. 11:08
Ef það er ekki fullnægjandi sönnunn um að algóði guðinn sé ekki til að guðinn leyfir mönnum sem þykjast vera í beinu sambandi við hann að níðast á börnum óáreyttir, þá dugar ekkert.
Arnar, 22.9.2010 kl. 11:11
Þú veist hvernig þetta er með trúaða Arnar; Hrapar flugvél, hundruð manna láta lífið, einn bjargast; Trúaðir hrópa: YES magic is real, við eigum eftir að lifa að eilífu, praise the master of the universe.
Siðgæði og trú fer ekki saman, Það er nefnilega siðleysi að trúa, og þá sérstaklega á guð Abrahams, sem er eitt mesta svín skáldsagnanna
Nauts, einn mesti mega-kirkju gaur í USA og biskup.. að nauðga SURPRISE NOT
http://doctore0.wordpress.com/2010/09/22/bishop-eddie-long-accused-of-sex-abuse/
Trúarbrögð eru siðleysi, muna það Svanur; Muna líka að ég hef oft varið þig... og þú launar mér með að ráðast að persónu minni; Witness the pova of religion
doctore (IP-tala skráð) 22.9.2010 kl. 11:37
Því miður Arnar; þetta eru tómir útúrsnúningar hjá þér. Algengasta orðið hjá þér er rökþrotaorðið "bull" sem þú hrópar í upphafi hverrar setningar, eins og til að sannfæra sjálfan þig um að þú hafir eitthvað að segja.
Þú veist vel að óendanleiki er ekki venjuleg tala í stærðfræði þótt að notast sé við hugtakið í fræðunum. Óendanleiki breytist ekki við það að við hann sé bætt. Þess vegna getur þú ekki sagt að stærðin sé vel þekkt.
Í þessum pistli staðhæfi ég ekki að Guð sé til, en ég gef mér það sem forsendu í sérstökum tilgangi ,og tek fram að sú forsenda sé gefin.
Það er ómögulegt að draga ályktanir af vísindalegum staðreyndum, hvað þá að setja fram kenningu án óhlutlægrar hugsunar. Vísindin sem slík væru ekki til án hennar.
Andsvör þín bera þess vitni að þú hefur engan áhuga á að kanna hvort eitthvað sé rétt eða rangt. Þú veður bara áfram og reynir að flækja umræðuna með moðsvörum. Minn texti er skýr og studdur vísindum og þekkingu. Að gefa sé að Guð sé til og sjá hvert það leiðir okkur, er viðfangsefni mitt.
Svanur Gísli Þorkelsson, 22.9.2010 kl. 11:54
DoctorE.
Á hverju byggir þú siðfræði þína og hver er hún?
Svanur Gísli Þorkelsson, 22.9.2010 kl. 11:56
Bull!! .. bara svo þú getir haldið áfram að hengja þig í eitthvað ómálefnalegt..
Og svo hefurðu ekki svarað neinum einasta punkti nema með aðdróttunum að persónu minni. Er það öll rökræðu/heimspeki snilldinn sem þú telur þig sjálfan búa yfir?
Við Dr. E sagðirðu: Ef að þú telur að ákveðnar skoðanir séu studdar "af vísindum og þekkingu manna" áttu að tilgreina þær og rökstyðja.
Ég óska hér með eftir því formlega að þú tilgreinir og rökstyðjir þínar ákveðnu skoðanir, því þær eru allt annað en skýrar (sama hvað þú heldur) og ég efast stórlega um að þær séu studdar af nokkrum raunvísindum eða þekkingu.
Arnar, 22.9.2010 kl. 13:38
Arnar:
Ég kemst víst ekki hjá því að skýra fyrir þér nákvæmlega hvað óendanleiki þýðir og hvernig það hugtak er notað.
Óendanleiki inniheldur allt. Ekkert getur staðið fyrir utan óendanleikann, því fyrir utan hann, er ekki til. Að tala um að bæta einhverju við óendanleika er merkingarleysa.
Í stærðfræði er hugtakið óendanleiki notað yfir það sem er meira en allar raunverulegar tölur. Pi er raunveruleg tala, hver sem hún er. Ef þú veist ekki hvað raunveruleg tala er getur þú fræðst um það hér.
Allar rannsóknir á mikla hvelli fjalla um eðlisfræðileg lögmál sem verða sjálf til við mikla hvell. Vísindin geta ekki fjallað um neitt án þess að styðjast við eðlisfræðina. Að skapa aðstæður sem voru til staðar þegar mikli hvellur átti sér stað, er merkingarleysa, því aðstæður eru skilgreindar með eðlilögmálum sem ekki voru til staðar þegar mikli hvellur varð.
Hitt er annað mál að til eru nokkrar tilgátur um þær aðstæður. En þær byggja ekki á vísindalegum tilraunum, heldur óhlutlægum ályktunum af staðreyndum. Ein slík, og sú sem mér persónulega finnst lang-líklegust, gerir ráð fyrir tilvist Guðdóms.
Rökin sem ég nota, eru byggð á þekkingu og ályktunum sem ekki eru í mótsögn við nein hlutlæg sannindi.
Svanur Gísli Þorkelsson, 22.9.2010 kl. 14:24
Nei Svanur, spurningin er: Á hverju byggir þú þitt siðferði?
Og svarið hans Svans er: Ég byggi mitt siðferði á því að ég fái verðlaun þegar ég verð dauður, ef þessi meintu verðlaun eru ekki til staðar, þá get ég ekki haft siðferði.
ÞETTA ER ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ SEGJA UM MIG SVANUR.. .and it sucks + you know it.
Þú getur reynt að covera þetta með: óendanleika + 1; Þú getur borað galdrakörlum í göt í mannlegri þekkingu; En sorry, það skín græðgi út úr þessu orðagjálfri.
Þú veist þetta, allir sem lesa bloggið þitt vita þetta... Afhverju að vera að reyna að vera eitthvað meira en þú ert... þú ert að gera sjálfan þig að guði, guði sem mun fljúga um alheiminn... sem ljós eða eitthvað álíka.
Ekki nóg með það heldur ertu búinn að gera master of the universe að þjóni þínum
Sorry Svanur minn... þú átt margt gott til í þér, og þú ert að eyðileggja það með þessum Mofa/sköpunarsinna tali.
doctore (IP-tala skráð) 22.9.2010 kl. 15:04
DoctorE:
Úr því þú villt ekki, af einhverjum ástæðum skýra á hverju þú byggir þína siðfræði og hver hún er, er sjálfsaag að segja þér frá minni.
Þemað í trúleysisboðun þinni er að allir séu að vonast til þess að þeir verði verðlaunaðir á einhvern hátt fyrir það að trúa á Guð og þess vegna þori þeir ekki annað. Þeir verða að vera góðir, til að eignast eilíft líf og að vera góðir, sé að fara eftir því sem þeir álíta að Guð bjóði þeim að gera.
Þemað byggir á þeirri fornfálegu hugmynd að hægt sé að eiga viðskipti við Guð.
Ég álít að hún byggi á miklum misskilningi.
Siðferðisleg afstaða mín byggir á þeim skilningi að maðurinn sé fær um að þroska sig siðferðilega, stig af stigi. Þroski er vaxtarferill sem felur í sér að yfirstíga dýrslegar hvatir með andlegum eiginleikum.
Að breyta "rétt" er að gera það sem verður til þroska. Guð getur gefið þér leiðbeiningar um hvernig þessu ferli er best háttað, en hann verðlaunar þig ekki neitt fyrir að fara eftir því.
Ég trúi því t.d. að andlegt ástand þitt verði ekkert betra eða verra við það eitt að deyja. Engin verðlaun, engin pie in the sky when you die,
og ekkert helvíti umfram það sem þú sjálfur hefur skapað þér með því að skeyta engu um andlegan þroska þinn. Það eina sem breytist er að þér verður staða þín algerlega ljós. Andlegur siðferðisþroski þinn og þær andlegu eigindir sem þér hefur tekist að þroska í lífi þínu, ráða ástandi þínu, hér og í lífinu eftir dauðann.
Svanur Gísli Þorkelsson, 22.9.2010 kl. 15:58
Ó þakka þér óendalega mikið fyrir að deila af visku þinni Svanur, einhvern vegin tókst mér að klára grunn/gagnfræðiskóla, framhaldskóla og svo Bs. í Tölvunafræði án þess nokkurn tímað að vita hvað rauntölur eru.
Fyrst þú ert svona klár villtu kannski skrifa PI upp fyrir mig fyrst það er svona rosalega raunveruleg tala? Og kannski mengi allra rauntalna fyrst þú ert byrjaður.
Og já.. ég hef ekki sagt bull en þá, varð bara að koma því að.
Hvað veist þú um aðstæður sem voru til þegar mikli hvellur átti sér stað og afhverju heldurðu því fram að engin 'eðlilögmál' hafi verið til staðar? Strengjafræðilega tilgátan gerir td. ráð fyrir nokkuð jafnri dreyfingu orku (en engu efni), flökt í orkunni hafi svo orsakað 'big bang' og allt efni með keðjuverkun (það er hægt að framleiða efni úr orku). Þannig að þótt hugtök eins og tími og rúm séu merkingar laus í því ástandi sem var við mikla hvell þá er samt ástæðulaust að gera ráð fyrir því að engin eðlisfræðilögmál hafi gilt.
En þú veist væntanlega betur en allir snillingarnir sem hönnuðu og byggðu LHC og þykjast með því getað endurskapað þær aðstæður sem voru rétt á eftir mikla hvelli.. Og ef við vitum þær aðstæður sem voru rétt á eftir mikla hvelli færumst við nær því að vita hvaða aðstæður voru við mikla hvell og svo jafnvel hvaða aðstæður leiddu til mikla hvells.
Ef 'guð gerði það' væri hinsvegar svarið værum við ekki einu sinni búinn að hugsa um það að klifra upp í tréin.
Gott að þú viðurkennir það nú, í gær vildurðu ekki kannast við það að það væru aðrir möguleikar. Og já, óhlutlægum ályktunum byggðum á staðreyndum sem eru niðurstöður vísindalegra rannsókna. Td. mælinga á útþenslu alheimsins. Þannig eru jú tilgátur settar fram.
Annars bíð ég spenntur eftir því að vita hvaða þekking það er og hvernig hægt er að draga ályktanir um guðdóm sem eru ekki í mótsögn við nein 'hlutlæg sannindi'.
Arnar, 22.9.2010 kl. 17:15
Ég fann tilvitnun í Richard P. Feynman sem á vel við í umræðunni um guð og alheiminn.
Arnar Pálsson, 22.9.2010 kl. 17:50
Lestu þetta yfir Arnar til að átta þig á hvað ég er að segja. Þetta kemur frá háskólanum.
Um pi ítreka það sem ég hef áður sagt "Pi er raunveruleg tala, hver sem hún er."
Svanur Gísli Þorkelsson, 22.9.2010 kl. 17:52
Nafni minn spurði hvers vegna þú værir að blanda heimsspekinni í þessar vangaveltur um uppruna alheimsins.
Ég er ekki viss um að þessi skarpa beygja i pistlinum flokkist undir heimspeki - kannski einhverja frumspeki eða trúspeki? Heimspekingar nútímans reyna yfirleitt að halda sig við jarðbundnar skýringar á fyrirbærum veraldar.Fyrir mér snýst umræðan um viðhorf til þekkingar. Það er augljóst að þú meðtekur yfirnáttúrulegar skýringar á fyrirbærum náttúrunnar. Því miður virðist málflutningur þinn uppbyggður til þess einmitt að rennar frekari stoðum undir þessa skoðun.
Efasemdamennirnir og vísindahyggjufólkið vill frekar skilja eftir ósvaraðar spurningar en að reyna að svara þeim með skírskotun til yfirnáttúrulegra krafta/vera. Þetta er gert af góðum og gildum ástæðum.
Við vitum ekki allt um allt sem gerst hefur - við vitum ekki alla atburðarásina í Hirósima 8 ágúst 1945 - en það þýðir ekki að yfirnáttúrulegar verur áttu hlut að máli, eða að við þurfum að skírskota til guðlegs inngrips. Kjarnorkusprengingin var örugglega mannanna gjörð og við ættum frekar að rannsaka mannsins breyskleika og samfélagsins meinsemdir en að velta okkur upp úr þeirr fornfálegu hugmynd að við séum guðs útvalda tegund.
Arnar Pálsson, 22.9.2010 kl. 18:01
Sæll Arnar Pálsson.
Heimspeki nútímans og heimspeki fortíðarinnar, allt frá Plató til David Hume og Bertrand Russell, fjallar að einhverju leiti um Kalam spurninguna.
Þessi "skarpa beygja" er farinn til þess að komast að efninu sem er að kanna hvort eitthvað í alheiminum bendi til þess að hann sé til og enn frekar, hvað hann sé.
Viðhorf mitt til þekkingar gerir ráð fyrir að hafa beri það sem sannast reynist. - Þekkingareyður eru til , jafnvel varanlegar eyður. En hvað eru varanlegar eyður og hverjar ekki, er ekki vitað. Þess vegna höldum við áfram.
Ef að eitthvað kemur bendir til einhvers "yfirnáttúrlegs" , frekar en ekki, verðum við að taka tillit til þess.
Um að okkur beri frekar að rannsaka mannsins breyskleika og samfélagsmeinsemdir, er ég þeirrar skoðunar að samhengi sé milli hegðunar mannsins og heimsmyndar hans. Breyttu heimsmyndinni og þú breytir hegðuninni. Þess vegna skiptir máli hvað þú ert sannfærður um að sé sannleiki.
Varðandi tilvitnunina í Feynmann segi ég þetta. Svo langt aftur sem rekjanlegt er, hefur maðurinn eignað Guði eiginleika sem frekari þekking og skilningur á náttúrunni hefur ekki hrakið. sennilega vegna þess að þessir eiginleikar eru ekki háðir takmörkunum eyðanna. Eyðunum hefur smá saman fækkað, en Guð stendur samt eftir sem jafn krefjandi spursmál og ætíð áður. -
Svanur Gísli Þorkelsson, 22.9.2010 kl. 20:39
Ég er með siðgæði af náttúrunnar hendi + lífsreynslu.
Að auki er menn sem telja sig fá verðlaun fyrir að trúa einhverju bulli, nú eða verða pyntaðir fyrir að trúa því ekki; BIASED, þið verðið að taka ykkur og ykkar líf úr þessari jöfnu... annars eru þið alltaf hlutdrægir..
doctore (IP-tala skráð) 23.9.2010 kl. 10:50
To infinity ...
Hvað er "infinity" eiginlega... er það ekki bara svo stór tala að menn skilja ekki; Alveg eins og trúaðir hafa alltaf tekið eitthvað sem mannleg þekking nær ekki yfir(Á tímabili X) og gert það að hlægilegri sönnun fyrir extra lífi í lúxus með geimpabba.
Jú það er það sem það er... Svanur veit þetta líka
doctore (IP-tala skráð) 23.9.2010 kl. 14:48
Sæll Svanur
Þetta er athyglisverður pistill hjá þér og ég get tekið undir allt sem þú segir alveg fram að því að þú gefur þér guð sem frumsendu. Allt sem þú segir þar eftir gengur út frá þessari ósönnuðu frumsendu og hefur því ekki algilt gildi.
Arnar svarar þér nokkuð fast, hann er fullyrðingaglaður á köflum. En mig langar að benda á nokkuð sem þú segir í svari til hans:
Ef við gefum okkur miklahvell þá "gerist" hann ekki utan tíma og rúms. Hann gerist í þeim tíma og því rúmi sem hann skapar með sér.
Ef við hugsum út frá "stærð" eða "lengd" miklahvells þá er algengt orðalag eitthvað á þá leið að þetta og hitt hafi gerst í miklahvelli (t.d. að örbylgjugeislunin séu leifar miklahvells, hafi orðið til í miklahvelli). En þetta orðalag er ekki að fullu rétt.
Betra væri að tala um það sem gerist "í kjölfar" miklahvells, t.d. myndun efnis eða myndun stjarna.
Hvellurinn sjálfur, upphafið, er tímalaust - það hefur enga tímalengd. Hvellurinn, tíminn og rúmið verða til á sama augnabliki og það er ekkert til fyrir þetta augnablik. Orsök í okkar skilningi getur heldur ekki verið til.
En nú er það svo að nútíma vísindi ná ekki til baka að þessu upphafsaugnabliki. Vísindamenn geta rakið sig nær og nær því svo nemur brotabroti úr sekúndu. Ofurhröð útþensla er t.d. talin hafa byrjað 1E-37 sekúndum eftir miklahvell.
Engar heimspekilegar vangaveltur eða guðfræðilegar spekúlasjónir geta fært okkur nær því sem hugsanlega gerðist "í" miklahvelli en samkvæmt þinni eigin lýsingu (sem er sú sem flestir beita) þá hefur það enga merkingu að tala um neitt á undan miklahvelli - það var ekkert á undan.
Brynjólfur Þorvarðsson, 24.9.2010 kl. 08:19
Til að gera grein fyrir mínum skoðunum þá vil ég byrja á því að taka það fram, að ég er sammála þér Svanur.
Ég tilheyri þeim hópi einfeldninga sem trúi á tilvist Guðs.
Athyglisvert er að fylgjast með umræðum sem byggðar eru á huglægu mati, því enginn hefur enn sannað eða afsannað tilvist Guðs, alls enginn.
Þótt komið hafi út ýmsar bækur eins og t.a.m. bók Richards Dawkins, þá hefur ekki enn tekist að afsanna neitt varðandi Guð með óyggjandi hætti og ekki sanna heldur.
Þegar menn taka sig til og dæma persónur eftir skoðunum þeirra, þá bendir það til takmarkaðrar þekkingar á mannlegu eðli.
Fyrir mér er heimsmyndin ósköp einföld og þægileg, ég einfaldlega trúi á Guð og þykist viss um hans tilvist og að hann sé okkur nálægur.
Svo verða menn að eiga það við sjálfa sig hvort þeir trúa því eða ekki.
Sumt er hægt að sanna og annað ekki, óáþreifanlegir hlutir eins og Guðdómurinn verður aldrei hvorki sannaður ne´r afsannaður.
En mörgum á hinum síðari tímum hefur orðið gott af trúnni. Ég er ekki að tala um óvandaða trúarleiðtoga né gjörðir krossfaranna.
Heldur kærleiksverk kristinna manna á síðari tímum.
Heimurinn væri fátækari án þeirra.
Jón Ríkharðsson, 1.10.2010 kl. 16:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.