24.8.2010 | 04:29
Englaknúsarinn og fólkið æðrulausa
Hið nýja Ísland er að fæðast. Sem stendur búa á því margar reiðar konur og margir svekktir karlar.
Þau vilja tryggja að einhver lexía lærist af hruninu. Þau treysta engum og eru fljót að sjá hina ýmsu bresti í fari fólks og þjóðfélagsins sem fyrir hrun hefðu örugglega farið fram hjá þeim.
Þau standa og benda hingað og þangað, afhjúpa og dæma, næstum því jafnóðum.
Og vantraustið nær ekki aðeins til braskara og pólitíusa, heldur allra sem brotið hafa pott, eða bara sett í hann sprungur.
Enginn kemst lengur upp með að segja "ef að þú ert full getur þú átt sök á ef þér er nauðgað" eða "ef þú ert svo vitlaus að treysta presti, áttu skilið það sem frá honum kemur."
En svo búa líka margir sem hafa verið bæði svekktir og reiðir en gefist upp á því að vera það og líka öllum hinum sem enn eru svekktir og reiðir.
Þetta er fólkið sem barði búsáhöldin í huganum fyrir framan sjónvarpið í fyrravetur og fussaði svolítið þegar það heyrði að upphæðirnar sem hurfu úr bönkunum voru svo háar að það skildi þær ekki.
þetta æðruleysisfólkið sem nú spyr sig, hvers vegna að ergja sig yfir hlutum sem þú færð hvort eð er aldrei breytt. Þetta hefur alltaf verið svona og verður alltaf svona.
Þetta er einig sama fólkið sem sér ekki neitt athugavert við að engin önnur þjóð en sú íslenska á kaþólskan biskup fyrir ættföður.
Þetta er fólkið sem lygnir aftur augunum og kingir volgu munnvatninu í þolinmæði sinni og umburðarlyndi þegar biskupinn þeirra, hinn vammlausi sonur þjóðardýrðlingsins, segir mærðalega í sjónvarpsviðtali að honum finnist það áhugaverð tillaga að setja alvarlegar ávirðingarnar á hendur englaknúsaranum forvera sínum, í nefnd á vegum kirkjunnar. Hvar sofna mál betur en í nefndum?
Kannski fellst hann á að nefndin rannsaki í leiðinni hvort hann sjálfur brást sem heiðarlegur og góður maður, þegar hann reyndi að drepa málinu á dreif samkvæmt því sem eitt fórnalamb himnaknúsarans lýsir.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Mannréttindi, Stjórnmál og samfélag, Trúmál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.