5.6.2010 | 01:12
Magadansmeyjar og Robert Plant
Þessa dagana stendur yfir listavaka hér í Bath. Reyndar eru þær tvær, því alþjóðleg tónlistarhátíð fer saman með jaðarhátíð (Fringe festival) þar sem ýmsir viðburðir eiga sér stað á hverjum degi.
Í gærkveldi fór ég t.d. á sýningu þar sem tvær magadansmeyjar sýndu og kynntu mismunandi magadansa undir frábærum hljóðfæraleik hljómsveitar frá Sýrlandi.
Það var margt um manninn á sýningunni og meðal gesta var íslandsvinurinn Robert Plant fyrrum söngvari hinna sálugu Led Zeppelin sem kom til Íslands á listahátíð 1970 . Sveitin var þá að verða og átti síðan eftir að vera um mörg ókomin ár, vinsælasta hljómsveit veraldar.
Karlinn lítur vel út enda aðeins 62 ára. Hann er kannski ekki sama sexgoðið og hann var en við því er ekki heldur hægt að búast.
Ég tók manninn vitanlega tali og það kjaftaði á honum hver tuska og hann var hinn alþýðulegasti.
Það fyrsta sem hann sagði þegar ég sagðist vera frá Íslandi og hafa séð hann fyrir 40 árum í Laugadalshöll í Reykjavík var; "I was in the room".
"Hvað áttu við" spurði ég. "
"Jú fyrir nokkrum árum kom ég í hljómleikaferð til Íslands og hitti þá forseta landsins. Og þetta var það sem hann sagði þegar hann hitti mig; "I was in the room". "
Róberti fannst þetta greinilega bráðfyndið og hló lengi að og klappaði sér á læri.
"Já ég missti af þér þegar þú komst í annað sinn. En ég gleymi aldrei þessum tónleikum 1970" sagði ég.
"Fuck off" kvað við í Roberti. "Ég er miklu betri núna en ég var. En ég skil rómantíkina í kringum allt þá. Við vorum ungir og allt það. En tónlistarlega er ég þúsund sinnum betri núna en ég var þá".
Talið barst nokkuð fljótlega að Immigrant song og hvernig Íslendingar eru hrifnir að því vegna þess að það sé augljóslega um Ísland.
"Ég var vitaskuld undir miklum áhrifum frá Íslandi þegar ég samdi texta lagsins " sagði Robert. "En í raun var ég að yrkja um Keltana sem komu til Íslands löngu áður en víkingarnir komu þangað."
Þetta hafði ég aldrei heyrt áður og þótti fróðleg skýring.
Róbert kvaðst vera að gefa út nýja plötu fljótlega og hann mundi kynna hana fyrst og fremst í Bandaríkjunum.
"Ég vinn eiginlega aðeins með Bandaríkjamönnum. Það er enginn eftir í Bretlandi sem hefur áhuga á að kafa djúpt í tónlist. Alla vega ekki í þetta Mississippi delta sound sem ég er svo hrifinn af. Kannski kem ég líka til Íslands til að kynna plötuna."
Áður en varði bar að unga konu sem hélt á krakka. Róbert kynnti hana sem konuna sína og krakkann sem barnið sitt.
Þetta var skemmtileg viðkynning sem endaði snögglega þegar krakkinn fór að gráta. Hann hafði góð lungu og háa rödd eins og faðirinn.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Tónlist | Breytt s.d. kl. 01:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.