Bretar kunna ekki til verka

Almenningur í Bretlandi veit ekki hvaðan á hann stendur veðrið þessa dagana. Segja má að yfir landið gangi pólitískt gjörningaveður.

Fjaðrafokið í tengslum við stjórnarmyndunarviðræður Cleggs og Frjálslyndra við Íhaldið og Verkalýðsflokkinn sýnir greinilega hversu gamaldags og staðnaðar hugmyndir Breta um lýðræði eru. Flestar Evrópuþjóðir búa við samsteypustjórnir og flokkar hafa lært að ganga til stjórnamyndunarviðræðna við aðra flokka eftir kosningar og taka til þess þann tíma sem þarf. Þetta kunna Bretar einfaldlega ekki.

Clegg sem er í oddastöðu, byrjaði vel og sagðist vilja gefa íhaldinu, "sigurvegurum" kosninganna, tækifæri til að mynda stjórn. Án þess að klára þær viðræður, hóf hann viðræður við Verkalýðsflokkinn sem tölfræðilega getur aðeins myndað stjórn ef það fengi alla með sér fyrir utan Íhaldið. - Brown forsætisráðherra lýsti því síðan yfir að hann ætli að hætta í pólitík, til að liðka fyrir hugsanlegum samningum við Frjálslynda en Clegg hafði lýst því yfir að hann mundi ekki vilja vinna með Brown.

Almenningur er alveg ruglaður. Hann er vanur því að einn sigurvegari standi eftir hverjar kosningar sem síðan tekur við stjórn landsins. Hann skilur einfaldlega ekki hugtakið "samsteypustjórn".

Spjótin beinast einkum að Clegg sem er sagður reyna að notfæra sér oddastöðu sína og vilja ekki gefa eftir helsta baráttumál sitt, þ.e. umbreytingar á kosningakerfinu. Þær breytingar mundu hins vegar hafa þær afleiðingar að þingmenn mundu deilast jafnara á flokkana og breyta pólitísku landslagi  Bretlands til  frambúðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband