20.2.2010 | 15:19
Aldrei einmana
"Ég er aldrei einmana" sagði vitavörðurinn og horfði í gaupnir sér. "Ég held að þeir sem eru einmana séu þeir sem ekki vita hvað þeir eiga af sér að gera þegar þeir eru einir og jafnvel þótt þeir séu það ekki. Ég er nánast alltaf einn og hef alltaf nóg fyrir stafni, finn mér ætíð eitthvað til dundurs. Þess vegna er ég aldrei einmana. Það kemur jú fyrir að ég geri ekki neitt. En ég er samt aldrei einmana. Stundum geng ég hérna niðrí fjöruna og stend ég eins og stúlkan og stari á hafið, tímunum saman. Ég fyllist einkennilegri ró við það eitt að horfa á mismunandi kraftmiklar árásir Ægis á urðina, brjóstvörn landsins, sem reynir að sporna við áganginum. Ekki þannig að mér sé eitthvað órótt. Nei, hafið er sko minn vímugjafi. Það örvar hugann um leið og það sefar kroppinn. Stundum finnst mér eins og hafið hljóti að hafa mótað hrynjandina í íslenskri tungu. Orðagjálfur mest er það ekki?"
Hann stóð upp, strauk aftur grásprengt hárið og pírði augun á móti síðdegissólinni og hélt svo áfram að tala; -
"Nei ég er ekki einmana. Einn, rétt er það, en ekki einmana. Viðhaldið tekur sinn tíma, eldamennskan sinn, ég hlusta á tónlist, hugsa og svo eru allir þessir föstu liðir í tilverunni, allir taka þeir sinn tíma og orku. Maður getur orðið afar þreyttur af því að hugsa skal ég segja þér. Þess vegna kemst maður oft að niðurstöðu einfaldlega vegna þess að maður er of þreyttur til að halda áfram. Þannig fann ég út úr því til dæmis að því að sterkasta sönnun þess að það séu til vitsmunaverur á öðrum plánetum er að þær hafa haft vit á því að láta okkur hér á jörðinni eiga sig. Það er nú svo maður minn... Og svo eru það skrifin félagi. Auðvitað skrifa ég eins og allir aðrir. Það geta auðvitað allir skrifað, allir sem ekki eiga síma eða eiginkonu. Eitt sinn átti ég konu og síma. Það var ágætt. Þá hlustaði ég mikið en ég skrifaði ekki neitt. Nú skrifa ég heilmikið, eitthvað á hverjum degi, stundum á nótunni líka. Jamm... Það hefur svo sem enginn lesið þetta enn. Kannski gerist það einhvern tímann. Einhverjir mundu nú eflaust verða reiðir ef þeir læsu það sem ég hef skrifað. Það væru ekki merkileg skrif ef enginn yrði reiður við að lesa þau. Ég gef ekki mikið fyrir hugmyndir sem ganga út á málamiðlanir. Fólk sem stöðugt gerir málamiðlun hefur greinilega engan áhuga á sannleikanum eða það hefur gefist upp á að finna hann. Hugmyndir og bókmenntir sem eru volgar eins og munnvatn eru nefnilega einskis virði. Þegar volgt munnvatn rennur úr úr fólki er það venjulega kallað slef. Maður má ekki tala svona, veit ég vel. Allar alhæfingar eru vondar."
Á meðan Jóhann vitavörður lét dæluna ganga röltum við í kring um vitann. Hann á undan og ég á eftir með upptökutækið á lofti og vonaði að ekkert af því sem hann sagði færi forgörðum.
"Áður en ég kom hingað keypti ég mér 200 bækur á fornbókasölu. Flestar voru eins og gengur og gerist, samansettar af notuðum hugsunum. Fátt nýtt eða frumlegt. Skrýtið, sjáðu til, þegar ein setning er höfð eftir öðrum án þess að getið sé um höfund hennar, er það kallað ritstuldur. En þegar allt ritið er vaðandi í eða nánast samsett úr slíkum setningum er það kallað rannsóknarstarf. Í Háskólanum vinna greinilega margir knáir rannsakendur. Ein bókin var eftir hinn rómaða William Shakespeare. Merkilegt hvað hann er góður þrátt fyrir að allir segi að hann sé rosalega góður"
Jóhann snéri sér skyndilega við, klóraði sér í skegginu og spurði; "ertu viss um að þú viljir heyra þetta allt saman? Þetta er óttalegt raus, finnst þér ekki?"
Ég ætlaði að fara að svara einhverju til þegar hann tók aftur á rás og hélt áfram einræðunni.
"Þetta heitir að hringsóla. Það geri ég á hverjum degi. Hringsóla fyrst eins og geggjaður skóari og fer svo inn að hlusta. Tónlistin er mér ómissandi. Einkennilegt hvernig hljóðbylgjur með mismunandi tíðni geta fengið þig til að gráta. Það voru mikil mistök hjá mér að læra aldrei á hljóðfæri. En ekki harmonikku. Mér hefur ætíð fundist það tákn um mikla sjentilmennsku af manni sem kann að spila á harmónikku en gerir það ekki. Ég held að ég hefði helst kosið fiðlu. Fiðla er svo fjári angurvær og meðfærileg. Alla vega held ég að í faðmi hennar hefði ég getað fundið ásetninginn styrkjast aftur, sérstaklega eftir nætur þegar honum var algjörlega varpað fyrir róða, þú veist hvað ég meina, ha? Sumir læra á hljóðfæri eingöngu til þess að verða frægir. Og þegar þeim tekst það loks, byrja þeir að nota sólgleraugu í hvert sinn sem þeir fara úr húsi, í von um að þekkjast ekki. - Heyrðu, eigum við að koma inn og fá okkur kaffisopa?"
Stuttur kafli úr netbókinni Síðasti vitavörðurinn
PS. Eftir talsverðar vomur og rúmlega þriggja og hálfsmánaðar fjarveru af blog.is ætla ég að hefja blogg hér á ný.
SGÞ
Athugasemdir
Vertu velkominn..
Ágúst Guðmundsson (IP-tala skráð) 20.2.2010 kl. 15:33
Heill og sæll á ný!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 20.2.2010 kl. 16:23
Takk fyrir það Ágúst.
Já sæl vinkona Jenný.
Svanur Gísli Þorkelsson, 20.2.2010 kl. 16:56
frábært að lesa þetta, það færðist ró yfir mig og mig langaði smá stund að verða vitavörður :o)
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 20.2.2010 kl. 19:47
Velkominn aftur á bloggið Svaur.
Skemmileg grein.
Hannes, 20.2.2010 kl. 20:34
gaman að sjá þig aftur Svanur :)
Einmannaleikinn er algengastur þar sem fjölmennið er mest !
Óskar Þorkelsson, 20.2.2010 kl. 20:48
Takk fyrir það Steinunn og félagar Hannes og Óskar. Fráhvarfseinkennin urðu mér að lokum ofviða :=)
Svanur Gísli Þorkelsson, 20.2.2010 kl. 21:30
Gott að heyra það svanur að fráhvarfseinkennin hafa dregið þig ofurlið gamli.
Hannes, 20.2.2010 kl. 21:36
Velkominn aftur - hef oft saknað þess að hafa ekki bloggið þitt að kíkja í.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 20.2.2010 kl. 21:38
Sæll Svanur. Veit ekki hvort þú manst eftir mér en við vorum saman í Leikfélagi Vestmannaeyja hérna í "den" Gaman að sjá þig aftur hér á blogginu. Er með það á bloglines.com og er því áskrifandi eða þannig sko! Bestu kveðjur.
Arndís Ásta Gestsdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2010 kl. 00:04
Heill og sæll Svanur Gísli; æfinlega !
Tek undir; með því góða fólki, hér að ofan, um leið; og ég vil þakka þér fyrir hugvekju þessa.
Velkominn á ný; forni spjallvinur.
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 21.2.2010 kl. 00:27
Þakka þér kæri Sigurjón.
Víst man ég góða daga, þig og Oklahoma út í Eyjum Arndís. Þakka góðar kveðjur.
Heill sé þér Óskar Helgi í Árnesþingi. Fáir kvöddu mig svo vel hér forðum. Farðu því vel ljúfurinn ljúfi, segi ég eins og skessan í Bláfelli hér í den.
Svanur Gísli Þorkelsson, 21.2.2010 kl. 01:06
'Einmana', eitt 'N' kútur. - munur er hugur manns. 'Manni' er e-ð annað sem lyktar, í algengustu notkun þess orðs. ;)
Gaman að renna yfir þetta hjá þér - sem oftar.
Hippókrates (IP-tala skráð) 21.2.2010 kl. 05:15
Netbókin, hvar finnur maður hana? Davíð Oddsson og allir hinir á Mbl. gleðjast örugglega yfir endurkomu þinni. Varstu ekki bara orðinn bloggþreyttur.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 21.2.2010 kl. 07:38
Þetta var meinleg villa Hippó sem leiðréttist hér með, þökk sé þér :)
Já Vilhjálmur, nú taka þeir gleði sína á ný :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 21.2.2010 kl. 08:12
Maður er aldrei einmana ef maður er nógu skemmtilegur sjálfur.
Númi (IP-tala skráð) 21.2.2010 kl. 11:26
Sæll Númi og takk fyrir þetta.
Það hlýtur að vera til bráðskemmtilegt fólk sem samt er einmana?
Svanur Gísli Þorkelsson, 21.2.2010 kl. 11:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.