Færsluflokkur: Menning og listir

Trilljón álfar út úr hól

trilljón álfarHvað er trilljón há tala? Hvernig lítur trilljón af einhverju út, t.d. af álfum út úr hól? ( Sjá mynd)

Íslendingar hafa löngum getað státað sig af því að hér á landi skuli hlutfall þeirra sem geta lesið og skrifað verið með því alhæsta sem gerist í heiminum. En það er eitt að geta kveðið að og dregið til stafs og annað að henda reiður á tölum, sérstaklega nú í seinni tíð þegar að flestar tölur tengdar fréttum, virðast óskiljanlega háar.

Hagfræðingar og stjórnmálamenn leika sér að því að tala í milljónum, milljörðum, biljónum og jafnvel trilljónum eins og að þær tölur eigi að hafa einhverja þýðingu fyrir meðaljóninn og/eða skírskotun til hans reynsluheims. Svo er ekki í flestum tilfellum. 

Til að auka enn á ruglinginn er ekki notast við sömu orð um sömu tölur beggja megin Atlantsála því að í Bandaríkjunum er milljarður t.d. nefndur billjón.

Milljón (skammstafað sem mljó) er tölunafnorð sem er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000, sem 106, eða sem þúsund þúsund.

Milljarður (skammstafað sem mlja) er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000, sem 109, eða sem þúsund milljónir.

Í bandarískri ensku er milljarður oftast nefndur billion, sem er einn þúsundasti af billjón.

 Billjón er heiti yfir stóra tölu, milljón milljónir, sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000, sem 1012, eða sem þúsund milljarðar.

Í bandarískri ensku þýðir billion milljarður, sem er einn þúsundasti út billjón.

Billjarður er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000.000, sem 1015, eða sem þúsund billjónir.

Trilljón er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000.000.000, sem 1018, eða sem þúsund billjarðar.


Gotham

Gothham hæðÍ Suður-Nottingham-skýri á mið Englandi er að finna lítið þorp. Í því eru fimm krár, ein kjötbúð, ein sjoppa sem verslar með sígarettur og dagblöð, fisk og flögu búð, kirkja, bókasafn og nokkur íbúðarhús.

Hvaða samband gæti verið á milli þessa hversdagslega og að mestu ókunna þorps og einnar skuggalegustu stórborgar sem mannshugurinn hefur skapað? Svarið felst í nafninu; GOTHAM.

Fyrirmynd Gotham-borgar, þar sem geðveiku illmennin; Gátumeistarinn, Jókerinn og Mörgæsamanni etja kappi við Leðurblökumanninn, var upprunalega New York. 

gotham-city-dark-knightBill Finger höfundur og skapari Batman hasarhetjunnar vildi ekki nota eiginlegt nafn neinar borgar og hugleiddi um sinn að kalla borgina annað hvort Civic City,  Capital City eða Coast City. Þegar hann rakst á auglýsingu í símskrá New York borgar frá skartgripasala sem kallaði verslun sína 'Gotham Jewelers' ákvað hann að Gotham skyldi verða heiti borgarinnar. Það nafn rímar ágætlega við uppruna þeirra sem grundvölluðu borgina, en það voru samkvæmt sögunni, Norðmenn.

Nafn skargripasalans á versluninni er fengin úr Salmangundi papers (útg. 1807), bók eftir bandaríska sagnfræðinginn; Irving Washington.  Washington var vel fróður um sögu Bretlands og kallar  Manhattan oft "hina fornu borg Gotham” eða “hina undur-elskandi borg, Gotham."

En hvað var það sem fékk Washington til að nefna New York þessu nafni. Þrátt fyrir að Gotham á Englandi sé ekki stórt þorp, er það samt þekkt af endemum í sögu landsins. Þorpið er nefnilega sagt heimkynni kjána eða jafnvel brjálæðinga eins og sagðir eru búa í Gotham-borg. 

GaukshreiðriðSögur af íbúunum sem raka mánann, velta ostum á undan sér og fara á sjó í tréskálum, hafa loðað við þorpið frá því snemma á þrettándu öld. Það er haft fyrir satt að Jón konungur af Englandi, sá sami og Hrói nokkur Höttur eldaði grátt silfur við, eigi þátt í  því að íbúar Gotham hafa um aldir verið taldir tunglsjúkir kjánar.

Árið 1540 var gefin út bæklingur sem seldur var af farandsölum vítt og breytt um England og kallaður var á frummálinu 'The Merry Tales of the Mad Men of Gotham'.

Í ritinu var að finna smásögur og skrýtlur af íbúum Gotham sem minna okkur Íslendinga hvað helst á heimskupör Bakkabræðra. 

Í einni þeirra; "Sagan af góða húsbóndanum" segir frá manni sem vildi hlífa hesti sínum við byrðunum með því að sitja sjálfur hestinn og hafa kornsekkinn á eigin herðum.

Önnur segir frá "Gaukshreiðrinu í Gotham". Í henni ákváðu þorpsbúar að byggja vegg utan um tré sem gaukur hafði gert sér hreiður í með það fyrir augum að halda gauknum í þorpinu. Þegar að gaukurinn flaug af hreiðrinu, beint upp í loftið og slapp þar með, skömmuðu þorpsbúar hvern annan fyrir að hafa ekki hlaðið garðinn nægilega háan.

Sagan af "Drekkingu álsins" segir frá því þegar íbúarnir gerðu sitt besta til að drekkja ál í lækjarsprænu, vegna þess að þeir voru sannfærðir um að állinn væri að éta fyrir þeim allan fiskinn.

Til auka á háðið var seinna farið að kalla mannfólkið í Gotham "vitra" fólkið frekar en "galna" fólkið eða eins og segir í vísunni, hér í lauslegri þýðingu;

Þrír vitrir menn frá Gotham,

fóru á sjó í skál,

ef skálin hefði verið sterkari,

væri saga þeirra lengri og merkari.

Jón KonungurFrægasta af öllum sögum um íbúa Gotham er sagan af því hvernig þeir fengu á sig orð fyrir að vera heimskir og komum við þar að hlut Jóns Konungs, hálfbróður Ríkharðs Ljónshjarta. 

Jón reið keikur um héruð með riddurum sínum og fór sínu fram hvar hann vildi. Hver sú leið sem hann valdi varð um leið og hann hafði farið hana alfaraleið og þjóðvegur.

Þegar hann tók stefnuna á Gotham sáu þorpsbúar í hendi sér að þeim yrði gert skylt að halda við slóðanum sem kóngur reið og gera hann að þjóðvegi. Það vildu þeir ekki, enda bæði dýrt og mannfrekt. 

Þeir tóku því til ráðs að þykjast allir tunglsúkir  (geðveikir) og kepptust við að  mála græn epli rauð og ausa vatni í botnlausa tunnu, þegar að framverðir konungs riðu inn í  þorpið.

Á tólftu öld var trú manna að slík sýki væri smitandi og þess vegna ákvað konungur þegar hann heyrði af háttarlagi þorpsbúa að halda í aðra átt og að lokum var þjóðvegurinn lagður í löngum sveig í kringum þorpið.


Kynlíf í kreppu

RómantíkÁ Valentínusardeginum 14. febrúar , þar sem á annað borð er haldið upp á hann, býðst tækifæri til að yfirlýsa í orði og á borði, ást sína og girnd.

Spurningin er hvort eitthvað dragi úr rómantíkinni á krepputímum eins og nú ríkja víðast hvar eða hvort, þvert á móti, kreppan verði til þess að elskendur flýi frekar stressið og áhyggjurnar í faðm hvors annars. 

Prófessor Helen Fisher, frá Rutgers Hásóla, er þeirrar skoðunar að stressið í tengslum við peningaáhyggjur og atvinnuleysi örvi framleiðslu dópamíns í heilanum, en dópamín er einmitt mikilvægt efni þegar kemur að rómantík og ástleitni.

Hún bendir á að í Nóvember síðast liðnum þegar að heimskreppan skall á hafi samkvæmt breskum könnunum, kynlíf verið vinsælasta afþreyingin og stefnumóta vefsíður hafi sýnt allt að 20% aukningu á notkun síðanna.

Þessu mótmælir kynfræðingurinn Denise Knowles, sem fullyrðir að "á efnahagslegum óvissutímum verði fólk mun örvæntingarfyllra - fólk sé á  höttunum eftir nýju starfi eða leggi mun harðar að sér í vinnunni til að koma á móts við atvinnuleysi maka síns. Í lok dags eru bæði líklegri til að huga minna að kynlífi en ella. Aukin kvíði og verri sjálfsmynd eyðileggur ánægjuna af kynlífinu."

Valetínusardagurinn

215px-St_ValentineÍ kaþólskum sið er fjöldi dýrlinga sem nefndir eru Valentínus. Tveggja er minnst þann 14. febrúar.

Annar var biskup frá borginni Terni, og eitt af táknum hans er kráka, sem vísaði fylgjendum hans til þess reits sem hann vildi láta grafa sig í eftir að hann hafði verið afhöfðaður í Róm árið 270.

Hinn var prestur eða læknir sem ákallaður var gegn flogaveiki, vegna þess að hann læknaði ungling sem þjáðist af slíkum köstum, en leið sjálfur píslarvættisdauða árið 269 þá Kládíus keisari var við völd í Róm.

Tákn hans eru sverð vegna þess að hann var deyddur og  sól, vegna þess að sagt er að hann hafi gefið blindri stúlku sýn og sú stúlka hafi verið dóttir fangavarðarins sem gætti hans þá hann beið dauða síns í varðhaldi.

FebruataHvorugur þessara dýrlinga er ábyrgur á neinn hátt fyrir tilhugalífsþönkum og rómantík þeirri sem nú fylgir Valentínusardeginum.

Verið getur að hér sé um að ræða arf frá heiðinni rómanskri vetrar-hátíð sem fram fór um miðjan febrúar og kölluð var Lúberkalía.

Hún var haldin til heiðurs gyðjunni Febrúötu Júnó. Meðan að á henni stóð drógu piltar úr skjóðu nöfn ógiftra stúlkna.

Sagt var einnig að fuglar veldu sér maka á þessum degi. Þá var unglingspiltum seinna gefin miði með nafni stúlkna sem þeim var ætlað að gera hosur sínar grænar fyrir og skildu kallast þeirra Valentínur.

Sankti Francis de Sales reyndi að árangurslaust að bæta þennan sið með því að leggja til að á miðana yrði sett nafn dýrlinga sem drengirnir skildi síðan tigna í stað stúlkna.


Teiknimynda Kalli

BókinÁrið 1998 kom út bók hjá Great Plains Publications í Winnipeg sem heitir á frummálinu (Ensku) Cartoon Charlie: The Life and Art of Animation Pioneer Charles Thorson. Bókin er eftir Gene Waltz og fjallar um hæfihlaup og list Charles Thorson sem var fæddur í Winnipeg, Kanada, árið 1890 og gefið nafnið Karl Gústaf Stefánsson.

Foreldrar Karls voru þau  Sigríður Þórarinsdóttir og Stefán Þórðarson (síðar Thorson). Frá Reykjavík fluttust þau til Vesturheims 1887. Þar tók Stefán upp ættarnafnið Thorson.  Synir þeirra Stefáns og Steinunnar eru Joseph Þórarinn Thorson sem síðar varð ráðherra í sambandsstjórn Kanada og bræður hans Karl (Charles Thorson) og Stefán (Stephan).

Karl Gústaf, eða Charlie eins og hann var kallaður af flestum sýndi fljótlega merki um talsverða listræna hæfileika og var líklega tekinn í læri hjá húsamálara og steinglerssmið einum sem hét Friðrik Sveinsson og kallaður var Fred Swanson. Fyrsta opinberlega teiknimyndin eftir hann birtist á forsíðu Heimskringlu 4. mars 1909 var einmitt af Friðriki sem var fóstursonur Ólafs Ólafssonar frá Espihóli sem fluttist  til Kanada 1873.

cartooncharlie1Kannski hefur áhugi Karls eitthvað tengst því að lærimeistari hans Friðrik átti fríða dóttur sem hét Rannveig. Alla vega voru þau Rannveig og Karl gefin saman á heimili foreldra Rannveigar í Gimli 11. október 1914.

Þau höfðu þá þegar einast son sem nefndur var Karl eftir föður sínum. En hamingjan var þeim ekki hliðholl því Rannveig dó af berklum 19. október 1916 og ári seinna dó Karl sonur þeirra af barnaveiki.

Karl teiknaði ýmiss konar skopmyndir og auglýsingar, bæði fyrir Heimskringlu, blað íhaldsmanna, og Lögberg sem frjálslyndir stóðu að. Það var svo árið 1922 að hann var ráðinn til að teikna pólitískar skopmyndir fyrir blaðið Grain Growers Guide sem um það leiti var prentað í 75.000 eintökum. 

Karl leysti þar af hólmi hinn fræga Arch Dale, sem var orðinn að goðsögn í lifanda lífi, en Dale sneri aftur ári síðar. Karl hvarf þá til starfa fyrir dagblaðið Manitoba Free Press og seinna meir teiknaði hann ósköpin öll af myndum í auglýsingabæklinga og vörulista, m.a. fyrir Eaton’s og Brigden’s.

Næstu árin voru róstusöm hjá Karli og það var ekki fyrr en hann hitti og giftist ungri stúlku sem hét Ada Albina Teslock, sem var pólskum ættum, ein níu systra, að líf hans róaðist. Ada var afar fögur, með kolsvart hár og með afar hvíta húð, grönn og lífleg. Fegurð hennar var slík að sagt var að engir karlmenn gætu staðist á móti því að horfa á eftir henni á þegar hún fór um götur. Þrátt fyrir fegurð hennar, eða kannski vegna hennar, endaði hjónaband þeirra fljótlega. Þau eignuðust einn son, Stephen.

AlltþettaÓgiftur enn á ný, hékk Karl á kaffihúsum og teiknaði. Uppáhalds kaffihúsið hans hét Wevel Cafe (Winnipeg). Þar hitti Karl hina fögru Kristínu Sölvadóttir sem þjónaði þar til borðs. Karl fór á fjörurnar við Kristínu en hún hafði heyrt af honum kvennabósasögurnar og svo var hann líka helmingi eldri. Í tilraunum sínum til að ná ástum Rannveigar teiknaði hann hana oft og sendi henni teikningarnar. "Allt þetta mun verða þitt ef þú villt mig" stóð á einni skopteikningunni sem hann sendi henni.

Kristín SölvadóttirKristínu leist ekki á blikuna og forðaði sér frá Winnipeg til Niagarafossa til að greiða úr tilfinningum sínum. Þau skrifuðust á, en um hvað er ekki vitað. Að lokum snéri Kristín aftur til lands forfeðra sinna, Íslands. Hvort hún á hér á landi einhverja afkomendur er mér ekki kunnugt um en ef einhverjir vita betur, væri fróðlegt að heyra af því.

MJallhvít-Kristín SölvadóttirÁrið 1934 hófst það skeið í lífi Kalla sem hann er hvað þekktastur fyrir. Fjörutíu og fjögurra ára gamall réðst hann til starfa fyrir Walt Disney, heillaður af tækninni sem færði gestum kvikmyndahúsanna teiknimyndina um Litlu grísina þrjá. Dvöl hans hjá Disney varð ekki ýkja löng, aðeins tvö ár.

Engu að síður lét Karl eftir sig ekki ómerkari fígúrur en sjálfa Mjallhvíti sem lenti í svo mögnuðu ævintýri með dvergunum sjö. Munnmæli segja að Kristín Sölvadóttir, hafi verið fyrirmyndin að Mjallhvíti og þannig urðu til sögurnar um að Mjallhvít væri íslensk og frá Winnipeg. Kristín Sölvadóttir

Snow-White-PieKalli var líka aðalmaðurinn í að teikna indíánastrákinn Hiawatha og meira og minna allar persónurnar í mynd Disneys um drenginn. En vegna þess að hann hvarf frá störfum fyrir stórfyrirtækið áður en kvikmyndirnar voru sýndar, er hans hvergi getið.

Eftir Disney-árin vann Karl m.a. fyrir Harman-Ising og MGM.

LT-Valentine-Bugs-Bunny-2Frægasta fígúran sem Charlie skapaði algjörlega sjálfur eftir að hann yfirgaf Disney er án efa Bugs Bunny. Teyminu sem falið var að teikna kanínuna , var stýrt af manni sem kallaður var Bugs. Vinnuheiti Karls á kanínunni var því "Bugs Bunny." sem a lokum festist við fígúruna. En það má kalla írónískt að á íslensku var hann kallaður Kalli kanína.

Mjallhvít-frímerkiKarl mun vera eini "íslendingurinn" sem fengið hefur teikningu eftir sig birta á bandarísku frímerki þótt hann fengi aldrei heiðurinn af því opinberlega, frekar en öðru sem hann vann fyrir Disney.

Charles Thorson lést árið 1967.

cartooncharlie2Ævintýrið um Mjallhvíti er um margt merkilegt og á netinu er ágætis sálfræðipæling sem leggur út frá sögunni sem ég linka hér við;  Mjallhvít   

Fyrst til að vekja athygli á því að Mjallhvít Disneys hafi verið teiknuð af íslensk-ættuðum manni og að fyrirmynd hans hafi einni verið íslensk stúlka var eftir því sem ég best veit Gréta Björg Úlfsdóttir.

cartooncharlie3Ég læt hér fylgja að lokum tvær teiknimyndir eftir Karl sem allir sem komnir eru til vits og ára eiga að kannast við úr bernsku sinni.

Það var Davíð Kristjánsson góðvinur minn á Selfossi sem vakti athygli mína á þessum merka Íslandssyni og þeim möguleika að andlit einnar þekktustu teiknimyndarpersónu heimsins væri einnig af íslenskri konu.


Hrafninn, tilvalin miðnæturlesning

Megin efni þessa bloggs er einskonar formáli að hljóðritun á þýðingu Jochums Magnúsar Eggertssonar á ljóði Edgars Allans Poe, The Raven (Hrafninn) . Ég hef lengi haft áhuga á lífi og störfum Jochums og haft það í huga að gera því einver skil hér á blogginu. Þegar mér barst þessi hljóðritun í hendur frá náskyldum ættingja hans fyrir stuttu, stóðst ég ekki lengur mátið og birti hana hér. Skrif Jochums um launhelgar og leynda sögu Íslands munu því bíða enn um sinn, enda of langt mál til að gera skil í þessari færslu.

HrafnMargar þjóðsögur og frásagnir af hröfnum eru kunnar, svo ekki sé minnst á fjölda vísna, ljóða og söngtexta.

Hrafninn er fugl Hrafna-Flóka og landnáms Íslands. Hann er jafnframt fugl Óðins en Huginn og Muninn voru tákn visku og spádómsgáfu.

Það er sagt að hrafnar haldi hrafnaþing tvisvar á ári, vor og haust, og að þeir semji sín á milli á vorþingum hvort þeir skuli vera óþekkir eða þægir.

Sagt er að þeir sem skilji hrafnamál séu gáfaðri en aðrir. Einnig að ef hrafn hoppi hingað og þangað uppi á húsum, skipti um hljóð og krunki upp í loftið, hristi vængina og yppti fiðrinu, boði það að einhver maður sé að drukkna.

Vel þekkt er að flug hrafna boði annaðhvort feigð eða fararheill, eftir því í hvaða átt þeir fljúga yfir mann.

Það þótti ekki gott að heyra krunkið í hröfnum um nætur við bóndabæi. Það var vegna þess að þá hélt fólk að það væru draugar. Þeir voru kallaðir nátthrafnar.

Krummi er sagður bæði stríðinn og hrekkjóttur. Hann er mikill spádómsfugl og hans er víða getið í hverskyns göldrum. Hrafnsgall og heili hrafnsins þykja t.d. nauðsynleg bætiefni í marga galdra, svo sem til að gera mann ósýnilegan.

Þekkt er sú sögn frá Tower of London að meðan hrafnar lifi þar muni enginn erlendur innrásarher ná að vinna England.

Hrafninn kemur oft fyrir í bókmenntum sem boðberi válegra tíðinda. Sem dæmi má nefna kvæðið Hrafninn eftir Edgar Allan Poe, leikritið Óþelló eftir William Shakespeare og í skáldsöguna Hobbitinn eftir J. R. R. Tolkien.

Edgar Allan PoeHrafninn er nafn á söguljóði eftir Edgar Allan Poe sem kom fyrst út 29. janúar árið 1845 í dagblaðinu New York Evening Mirror. Kvæðið fjallar um hrafn sem heimsækir mann sem syrgir ástkonu sína. Maðurinn er ljóðmælandi en hrafninn, sem fær sér sæti á brjóstmynd af Aþenu, krunkar „Nevermore“ í lok hvers erindis.

Edgar Allan Poe orti Hrafninn veturinn 1843. Meðan hann var að yrkja kvæðið, bjó hann ásamt konu sinni og tengdamóður við sult og seyru. Hann fór með kvæðið til ýmsa ritstjóra, en enginn þeirra hafði lyst á að kaupa það til birtingar. Einn af ritstjórunum sem hann talaði við, Godey að nafni, sagði:

Kvæðið kæri ég mig ekki um, en hérna eru 15 dollarar, sem þér getið keypt yður mat fyrir.

Á endanum tókst Poe að selja Hrafninn fyrir 10 dollara og þótti geipihátt verð. Hann var nú, eftir allt, sem á undan var gengið, búinn að glata trúnni á ágæti kvæðisins og það til þeirra muna, að hann setti dulnefnið Quarles undir það í stað nafns síns. En aldrei hefur nokkuð kvæði vakið aðra eins athygli á svo skömmum tíma. Allur hinn enskumælandi heimur las það með hrifningu. Gekkst Poe þá að sjálfsögðu við faðerni kvæðisins, og eftir það var nafn hans prentað undir því.

Til eru að minnsta kosti fjórar þýðingar kvæðisins á íslensku. Sú sem er langþekktust er þýðing Einars Benediktssonar sem kom út á prenti 1892, en einnig eru til þýðingar kvæðisins eftir Matthías Jochumsson, Þorstein frá Hamri og Jochum Eggertsson.    Heimildir; Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þýðing Jochums Magnúsar Eggertssonar var tekin upp fyrir upp fyrir Ríkisútvarpið 1949 í tilefni þess að hundrað ár voru þá liðin frá fæðingu Poes. Ljóðið var þó ekki flutt á þeim tíma. Þýðingin birtist svo í heftinu Jólagjöfin, sem var útgáfa Jochums sjálfs. Í upplestri sínum fer Jochum á kostum svo unun er á að hlíða. Jochum var fæddur á Skógum í Þorskafirði 1896 og lést 1966. Hann var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar.

Paul Gustave DoréMargir hafa orðið til að teikna myndir við ljóð Poes og a.m.k. ein kvikmynd er byggð á efniviði ljóðsins. Frægastar eru þó myndskreytingar Paul Gustave Doré (janúar 6, 1832 - janúar 23, 1883), sem var franskborinn listamaður fæddur í  Strassborg. Hann gerðist bókskreytingamaður og gerði myndir fyrir bækur þekktra skálda eins og  Rabelais, Balzac og Dante. Árið 1853, var hann beðin um að myndskreyta verk Lord Byron. Skömmu fyrir dauða hans tók hann að sér að gera myndir við Hrafninn ljóð Edgars. Hann sagðist byggja myndirnar á "leyndadómi dauðans og ímyndunum óhuggandi sálar". Hann lést aðeins 51. árs að aldri og var þá að ljúka myndunum fyrir Hrafninn.

Ég hef tekið mér það bessaleyfi að setja saman upplestur Jochums og myndir Pauls. Túlkun þeirra á ljóði Poes er greinilega mjög ólík en samt fellur íslenski textinn að myndunum. Ég legg til að þið gefið ykkur góðan tíma til að njóta þessa magnaða upplesturs Jochums.

 


Kolbítar

Tolkien_youngMargt hefur verið rætt og ritað um "Inklings" (Bleklingana) lesklúbb þeirra félaga J. R. R. Tolkien og C. S. Lewis. En löngu áður en þeir mynduðu með sér það laushnýtta samfélag samtímaskálda voru þeir saman í leshring sem þeir kölluðu Kolbíta.  

Eða eins og Ármann Jakobsson orðar það á Vísindavefnum;

Tolkien kenndi við Leeds-háskóla í fimm ár (1920-1925) en var síðan prófessor við Oxford-háskóla í 34 ár (1925-1959). Hann hafði þó aldrei lokið nema grunnnámi við háskóla en Oxfordháskóli veitti MA-gráður án prófs. Tolkien var mikils metinn í heimi fræðanna og eftir hann liggja áhrifamiklar fræðilegar greinar, þar á meðal fyrirlesturinn Beowulf, the Monster and the Critics sem hafði mikil áhrif á rannsóknir á Bjólfskviðu, fyrir utan auðvitað öll skáldverkin.

Íslenskumaður var Tolkien prýðilegur og var fremstur í flokki í leshring einum í Oxford sem einbeitti sér að íslenskum miðaldasögum. Nefndu þeir sig kolbítana (The Coalbiters). Meðal helstu vina hans í Oxford var C.S. Lewis, höfundur bókanna um Narníu, en saga hans er sögð í leikritinu og kvikmyndinni Shadowlands.

 

Áhrif íslenskra bókmennta á vinsælustu lesningu síðustu aldar; Hringadróttinssögu,  eru ótvíræð og sögusviðið sjálft "Miðgarður" ættleitt beint úr heimsmynd norrænnar goðafræðar. Kolbíta leshringurinn var starfræktur frá 1926 til 1933 átti stóran þátt í að móta frásagnarstíl og efnistök Tolkiens.

coal_fire_lgMargir Tolkiens aðdáendur hafa orðið til að velta fyrir sér nafninu "Kolbítar" og um það er að finna ýmislegt almennt á enskri tungu.

Ég var nýlega að leita að góðri lýsingu á hugtakinu til að segja frá því í boði  sem haldið var til að minnast  Tolkiens á fæðingardegi hans 3. janúar, þegar ég rakst á stórskemmtilega grein sem Már Viðar Másson skrifaði og heitir "Að rísa úr öskustónni" . Þar segir m.a;

Að leggjast í öskustóna var að taka sér hvíld frá amstri dagsins og taka út þroska sinn í friði. Öskustóin var við langeldinn á fyrstu öldum Íslandsbyggðar eða í eldahúsi. Sá sem lagðist þar fékk að vera í friði. Hann þurfti ekki að vinna hefðbundna vinnu þótt kannski hafi hann aðstoðað eldabuskurnar að einhverju marki, enda eins gott að koma sér vel við þær. Hann þurfti ekki að þrífa sig og mátti klæðast druslum. Vegna öskunnar kallaðist hann kolbítur. Aska er cinder, ella er kona og Öskubuska var kolbítur. A Kolbíturinn gat legið í öskunni mánuðum saman.

Einn góðan veðurdag reis hann upp, baðaði sig, rakaði (ef hann var karl), klippti hárið, klæddist og tók til við dagleg störf á nýjan leik. Hann hafði nú náð sáttum við sjálfan sig og aðra og var því tilbúinn til nýrra átaka. Í sumum tilvikum gekk faðir kolbítsins til hans, kannski á öðru ári, og fékk honum frækilegt verkefni að starfa að. Best var ef faðir gekk til sonar síns, sem þá var kannski sextán ára, og sagði: “Þykir mér góð sonareign í þér. Nú skalt þú koma þér í skip með kaupmönnum, sigla með þeim til Noregs, heimsækja frændur þína þar, skila kveðju til konungs og koma aftur að hausti, færandi heimvarning og nokkurn frama. Hafðu þetta forláta sverð með í för og þennan farareyri.” Líklega var algengast að menn legðust í öskustóna 12-15 ára gamlir. Ég veit það þó ekki fyrir víst.

Sumir telja að ekki hafi verið ástæða til að sinna þessum sið nema snurða hefði hlaupið á þráðinn í samskiptum föður og sonar. Var þá stundumsagt að sonurinn hefði óhlýðnast lögmáli föðurins. Ég ætla einmitt að taka dæmi af þannig vandræðaástandi hér. Þegar um stúlku var að ræða hefur líklega verið umerfitt samband að ræða milli hennar og móður, nema móðurina hafi hreinlega vantað. Öskubuska og Mjallhvít eru þekkt dæmi þar um. Oft fylgir sögunni að samband unglingsins við hitt foreldri sitt, það er af hinu kyninu, hafi veri náið, enda hefur kolbíturinn getað skákað í því skjólinu. Öskustóin var líklega tilraun unglingsins til að ná sáttum, til að bíða eftir því að nægilegur þroski yrði, svo hann mætti skilja betur hvert næsta skref hans yrði í lífinu. Sama gilti væntanlega um föðurinn, tíminn nýttist honum einnig til þroska. Efvel tókst til varð af því mikil gæfa. Og taugaveiklun og aðrir sálrænir kvillar voru þar með læknaðir. Kolbítar voru t.d. hinn norski Askaladden, hetjan Starkaður, Grettir, Egill og jafnvel Skalla-Grímur á gamals aldri. Og svo mætti lengi telja.

Oft er frá því sagt að kolbíturinn búi yfir undraverðum eiginleikum; sé óvenju stór og sterkur, búi yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum, sé óvenju vel ættaður, eða sérlega fallegur. Og iðulega er eins og askan nái ekki að skyggja á gullið sem undir skín og bíður þess aðeins að af því sé dustað rykið. Hver man ekki eftir Bláskjá sem var af fínum ættum, en lenti um tíma hjá ribböldum. Í dimmum helli skógarmanna mátti sjá gylla í hárið undir skítnum og blámi augnanna var algerlega ósvikinn. Þegar Blárskjár komst aftur til manna spratt fram fullskapaður hefðarmaður. Dvölin í myrkrinu hafði ekki beygt hann, heldur þvert á móti dregið fram það besta í drengnum. Sama átti við um Oliver Twist.

Már Viðar Másson Að rísa úr öskustónni.


Bölbænir í Bath

Heitavatnslindin í BathÉg átti erindi fyrir stuttu inn á stofnun þá er sinnir upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn hér í borg (BATH)  en hún er staðsett við hliðina á þeim stað sem mest aðdráttaraflið hefur, rómversku baðlindinni. Erindið var að fá að hengja upp auglýsingu um dagskrá listamiðstöðvar sem ég tengist lítilsháttar. Það var í sjálfu sér auðsótt mál því stór og mikil auglýsingatafla blasti þarna við öllum en það þurfti samt að borga fyrir að fá að hengja auglýsinguna upp á hana. Og eftir því sem sem þú vildir að hún væri lengur uppi, því meira kostaði það.

Rómverska musterið í BathÍ gærkveldi minntist ég á þetta við vinkonu mína sem er fornleyfafræðingur og hefur átt þátt í mörgum merkum fundum á svæðinu síðast liðin 20 ár. Hún sagði mér að upplýsingaþjónustan stæði á nákvæmlega sama stað og rómverskt musteri hafði staðið á fyrir rúmum 2000 árum. Í musterinu hafði verið starfrækt einskonar ferðamannaþjónusta þeirra tíma. Í nótt gluggaði ég svo í bækur um rómversku byggðina í Bath og rak þá augun í mynd af blýtöflu sem á var letruð bölbæn. Bölbænin hófst svona; Ég bölva  Tretiu Mariu, lífi hennar, huga og minni" og endaði á; "Þannig mun hún ekki geta talað um þá hluti sem nú eru leyndir".   

BölbænirSkýringin á bölbænatöflunni var sú að mikil helgi var höfð á heitu vatnsuppsprettunni í Bath meðal fornmanna og hafði fólk komið víðs vegar að frá Bretlandi og Frakklandi til að baða sig í henni og taka vatnið inn við ýmsum kvillum. Jafnframt var vatnið talið svo kynngimagnað og í umræddu musteri var hægt að fá útbúnar áletraðar bölbænir á blýtöflur sem síðan voru hengdar upp í musterinu fyrir gjald.  Eftir því sem taflan hékk lengur uppi, því meira var gjaldið.


Bloggsöknuður

nikÉg hef aðeins bloggað í rúmt ár og miðað við þá sem lengst hafa skrifað á blog.is er ég algjör nýgræðingur. En á þessum skamma tíma hefur áhugi minn og að vissu leyti umhyggja fyrir þessum anga menningarinnar, vaxið til muna. Bloggið hefur samt breyst ótrúlega mikið á þessu eina ári og mest á síðustu mánuðum.  - 

Auðvitað bloggar fólk af mismunandi ástæðum, en það er eins og að margir hafi hreint og beint fundið köllun sína í bloggheimum eftir að himnarnir hrundu í höfuðið á íslenskri alþýðu. Um leið og bloggið og bloggefnið varð þrengra og einlitara (að mínum dómi), geystust fram á ritvöllinn með gustó, fjöldi dágóðra penna með hið alþekkta og rammíslenska besserwisser heilkenni í farteskinu í bland við messíanskan eldmóð.

En þindarlaus pólitísk gagnrýni, endalaus álitsgjöf á mönnum og málefnum þar sem margir éta upp eftir hvor öðrum ágreiningsefnin, fara illa í minn pólitískt-óharðnaða maga. Í kjölfarið finnst mér eins og bloggumræðan hafi líka sett ofan. Athugasemdirnar koma yfirleitt frá sömu hópunum (the usual suspects) sem raðað hafa sér upp samkvæmt gömlu flokksfylkingunum á bloggsíðum "sinna manna/kvenna".

Frá mínum lága bæjarhóli séð eru persónulegu bloggin miklu fyrirferðarminni en áður og umtalsvert færri. Í staðinn hefur fréttabloggurum fjölgað til muna. Þessi þróun hefur orðið til þess að ég (og þar er ég sjálfsagt í miklum minni hluta) heimsæki mun færri bloggsíður en ég gerði áður.

ascii-blogger-portraitsNýlegt bann á birtingu blogga á forsíðu blog.is sem ekki fylgja þjóðskrárnöfn  höfunda, gerir mörg skemmtileg blogg næstum því ósýnileg og sum þeirra eru því miður horfin með öllu.

Það verður að segjast eins og er að um mörg þeirra léku ferskustu vindarnir. Ég sakna þeirra og ég sakna þess að sjá hressilegar fyrirsagnir á bloggforsíðunni sem ég er ekki þegar búinn að lesa á fréttasíðu MBL.is

Þá er að verða mun algengara að fólk nýti sér "skilaboðakerfið"  til að auglýsa færslur sínar. Almennt talað finnst mér að það eigi að spara kerfið fyrir "sérstök" skilaboð þannig að maður hætti ekki að nenna að lesa þau. Ef samkomulag er milli bloggvina um annað er það auðvitað sjálfsagt, en að ganga að skilaboðaskjóðunni sem sjálfsögðu auglýsingakerfi hugnast mér lítt.


Himnafestingin

MjólkurvegurinnÍ gærkvöldi var stjörnubjart hér um slóðir og ég eyddi dágóðum tíma í að góna upp á himnafestinguna og reyndi að rifja upp og átta mig á hvaða nöfn hafa verið gefin staka ljósdepli í gegnum tíðina.

Vetrarbrautin sem vel var sýnileg eins og slæða eftir há-himninum fékk mig til að hugleiða þetta íslenska nafn stjörnuþokunnar sem sólkerfið okkar tilheyrir; VETRARBRAUT. 

Það heiti ku vera komið úr sænsku (Vintergatan) en gæti hæglega hafa verið samnorrænt hér áður fyrr. Skýringin á nafninu er sögð sú að Skandinavíubúar hafi reiknað út komu vetrar frá stöðu stjarnanna sem kann vel að vera satt.

Mér finnst samt líklegra að nafnið komi af því að stjörnuþokan er einfaldlega miklu sýnilegri á vetrarnóttum en um bjartar sumarnætur norðurslóða.

Hera og HerakleasÁ ensku heitir stjörnuþokan "The milky Way" (bókstaflega þýtt Mjólkurvegurinn) sem er þýðing á gríska hugtakinu Galaxias eða Galaxy (Mjólkurhringurinn) en það tengist grískri goðsögn. Seifur átti Herakles með Alkmene, mennskri konu. Seifur lætur Herakles sjúga brjóst Heru konu sinnar á nóttum þá hún svaf til að sveininn fengi guðlega eiginleika. Hera vaknar og ýtir Heraklesi af brjóstinu. Við það flæddi brjóstamjólk hennar út í alheiminn og úr varð Mjólkurvegurinn. 

Það var rithöfundurinn og fjölfræðingurinn  Geoffrey Chaucerninn (1343-1400) sem fyrstur notar enska heitið á prenti.

800px-Mostra_Olearie_-_sistro_1010384Það voru reyndar fleiri þjóðir en Grikkir sem settu himnafestinguna í samband við mjólk því Egyptar trúðu því að hún væri mjólkurpollur úr kýrgyðjunni Bat sem seinna rann saman við gyðjuna Hathor sem sögð var dóttir Ra og Nut.

Bat átti hljóðfæri sem nefnt var "sistrum" og þegar að hún rann saman Haf-þóru (Hwt-Hor) fékk Haf-Þóra hlutverk tónlistargyðju einnig. Sistrum  (sjá mynd) varð í tímanna rás að hálsmeni og verndargrip sem ég hef oft séð um hálsinn á íslenskum ungmennum heima á Fróni. Líkt og þegar Loki stal Brísingameni Freyju  var sistrum rænt af gyðjunni Haf-Þóru sem hún og endurheimti að lokum.

254px-Hathor_svgÞá segir í norrænni goðafræði frá kúnni Auðhumlu sem ís og eldar, auðn og gnótt Niflheims og Múspelsheims skópu.  Auðhumla var móðir fyrsta guðsins Búra og frá henni runnu 4 mjólkurár. Hún nærði einnig þursinn Ými en úr höfði hans var himnahvelfingin gerð.

Á öllum tungumálum þar sem nafn stjörnuþokunnar er ekki þýtt beint úr latínu (Via Lactea=Mjólkurvegurinn) á heiti hennar rætur sínar að rekja til fornra goðsagna. Sumar þeirra eru afar skemmtilegar og ég læt hér fylgja með nokkur sýnishorn.

Ungverjar kalla himnafestinguna "Veg stríðsmannsins" eða Hadak Útja. Eftir honum átti Ksaba, hinn goðsagnakenndi sonur Atla Húnakonungs að kom ríðandi væri Ungverjum ógnað.

Finnar voru svo glöggir, að löngu áður en vísindamönnum tókst að sanna það, vissu þeir að farfuglar nota himintunglin til að rata milli hvela jarðarinnar. Þeir kalla stjörnuþokuna Linnunrata sem þýðir "Stígur fuglanna".

Cherokee Indíánar í Norður Ameríku kalla Vetrarbrautina Gili Ulisvsdanvyi. Sagan segir að hundur einn hafi stolið maís korni og verið hrakinn með það á braut. Hann hljóp í norður og missti niður allt kornið smá saman á leiðinni. Úr varð hið tilkomumikla nafn fyrir himnafestinguna "Leiðin sem hundurinn hljóp í burtu".

Satt að segja minnir nafngift Cherokee indíánanna á goðsögnina frá  Armeníu. Í henni er það guðinn Vahag sem stelur, einn kaldan vetur, stráum frá Barsham konungi Assýríu og flytur það til Armeníu. Hann flýði með stráin um himnaveginn og tapaði nokkru af stráunum á leiðinni. Nafnið á stjörnuþokunni okkar er því "Stráþjófsleiðin".


Bullað við börnin

bambiBíum bíum bamba. Hvað er það?  Fékk aldrei viðhlítandi skýringu á því svo við krakkarnir bjuggum til okkar eigin. Eftir að teiknimyndin um Bamba frá Disney kom út sungum við hástöfum;

Bíum bíum Bamba út, böðum hann í aur og grút.

Adam átti syni sjö...Hvaðan er sú tala fengin? Í biblíasögunum lærði maður að þeir hefðu verið þrír Kain, Abel og Set og kannski fleiri. En það er hvergi talað um sjö. Kannski kom sú viska frá sama stað og "Jólasveinar einn og átta" þegar allir vita að þeir eru þrettán???

Hún er svo mikil dúlla, var oft sagt um systur mínar.  Hvað er dúlla... nákvæmlega? Ég þekkti reyndar konu sem var kölluð Dúlla og hún var ekkert sérstaklega sæt. Alla vega fundust mér systur mínar ekki vera neitt líkar henni.

Fyrst var bara notað "hókus pókus" í öllum galdatrikkum en svo var farið að nota eitthvað miklu skuggalegra eða "fí fa fó"og það var sko alvöru. En hvaðan kemur sá seiður?

Íslensk börnHvers vegna kitlar fólk ungabörn undir hökuna og segir "gúdjí gúdjí"? Hvað er það? Og þegar þeim er lyft upp er sagt "obsasí"???? Stundum hélt maður að fullorðið fólk kynni hreint ekki að tala eins nátttröllin í þjóðsögunum. Það var nógu erfitt að skilja setningar eins og ; "Snör mín en snarpa" , en hvað í ósköpunum er; dillidó og korriró???? Það var aldrei útskýrt.

Og hvernig getur fólk orðið alveg "gaga" og hvers vegna er talað um "húllumhæ" þegar eldra fólk er að skemmta sér en "hopp og hí" hjá krökkum og hvað er eiginlega hvorutveggja?

Svo var fólk alltaf að gera eitthvað með "kurt og pí". Eru það kannski Þýskur leikari og japanskur keisari? Og hvað hefur eiginlega "lon og don" að gera með sjónvarpsgláp?

Hvernig átti að skilja setningu eins og þessa og sögð var af einhleypri frænku minni eitt sinn; "Æ þetta var óttalegt frat. Hann mætti þarna á þetta húllum hæ alveg gaga, tuðaði lon og don í mér að dansa en kvaddi svo bara með kurt og pí og fór".

Þegar talið var saman í leiki og allir voru búnir að reikna út á svipstundu hverjir mundu lenda saman ef notast var við hina einföldu úr-talningarromsu "Ugla sat á kvisti" og sú niðurstaða þótti með öllu óásættanleg, var brugðið á það ráð að nota "Úllen dúllen doff" Allir réttu fram hendurnar og síðan lamdi úrteljarinn á kreppta hnefana og fór með romsuna;

Úllen dúllen doff
kikke lane koff
koffe lane bikke bane
úllen dúllen doff

 

Hvaðan þessi ósköp komu var aldrei útskýrt og einhverjar hálfkaraðar kenningar um að hér sé á ferðinni afbökum á latneskri talnaröð finnast mér frekar langsóttar.

pianos3Ekki tók betra við þegar manni var kennt það sem kallað var "Gamli Nói" upp á Grænlensku. Ég lærði það svona en þetta er örugglega til í hundrað útgáfum.

Atti katti nóva

atti katti nóva

emisa demisa

dollaramissa dei.

Seta kola missa radó

Seta kolla missa radó

Atti kati nóva

atti katti nóva

Emisa, demisa,

dollaramissa dei.

Það trúðu allir því eins og nýju neti að þetta væri alvöru Grænlenska. Rannveig og Krummi í Stundinni okkar eiga þetta sko á samviskunni, en þau gerðu þetta vinsælt.

Upprunalegi textinn kemur frá Þýskalandi  og á að vera saga af Eskimóafjölskyldu sem fer á hvalveiðar. Hann hljómar svona ;

Atte katte nuwa, atte katte nuwa,
emi sademi sadula misa de.
Hexa kola misa woate, hexa kola misa woate.
Atte katte nuwa, atte katte nuwa,
emi sademi sadula misa de.

 

Danska útgáfan er engu minna bull og hljómar svona;

 

Ake take noa, ake take noa,
hej missa dej missa dulla missa dej.
Hexa missa dulla våhda, hexa missa dulla våhda.
Ake take noa, ake take noa,
hej missa dej missa dulla missa dej.

 

Mér þótti gaman að læra vísur, ekki hvað síst ef þær voru eftir "gaga" kalla eins og æra Tobba.

Þambara vambara þræsingssprettir
því eru hér svo margir kettir?
Agara gagara úra rænum
illt er að hafa þá marga á bænum

En hvað þýða feitletruðu orðin??? Og hvenær varð "Þræsingssprettir" að "þeysingssprettir" og "úra rænum" að "yndisgrænum" eins og margir syngja vísuna í dag og halda það hljómi eitthvað skinsamlegra.

PS: Ég gleymdi alveg; "Upp á stól stendur mín kanna"??? Ekki "Upp á hól stend ég og kanna" sem gæti hljómað nokkurn veginn rökrétt sé einhver að gá til veðurs. Nei, það sem er mikilvægt hér er að uppá stólnum stendur kannann svo litlir guttar eins og ég sem allt af voru á þeytingi gætu haft áhyggjur af því hvað mundi gerast ef hún dytti af stólnum og splundraðist í þúsund mola.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband