Færsluflokkur: Dægurmál
29.7.2008 | 10:57
Konur með taugaveiki (Typhoid) lokaðar inni ævilangt í Bretlandi
Það koma upp mál hér í Bretlandi sem eru svo ÓTRÚleg að maður spyr sjálfan sig hvernig Bretar geta kallað sig velferðaríki og menningarþjóð.
Hvað eftir annað hafa heilbrigðisyfirvöld orðið uppvís að mistökum og aðgerðum sem einkennast af slíkri vanþekkingu að halda mætti að við værum að tala um þriðjaheims-land.
Nú hefur komið fram að allt frá byrjun síðustu aldar voru konur sem greindust með taugaveiki( TYPHOID) lokaðar inni í algjörri einangrun á geðsjúkrahúsi ævilangt.
Álitið er að flestar kvennanna (þegar er búið að finna og nefna 27) hafi orðið geðveikar á einangruninni en þeim var sumum haldið föngnum í herbergjum sem ekki var stærra en 8 X 8 fet.
Engin þessara kvenna er enn á lífi. Það sem enginn skilur er að þessu var fram haldið þangað til að einangrunarherbergi voru almennt lögð niður á sjúkrahúsum landsins í byrjun tíunda áratugarins. Frá þessu greindi fréttasofa BBC en í gærkveldi var sýndur heimildaþáttur um málið þar á bæ. Sjá http://news.bbc.co.uk/1/hi/programmes/newsnight/7530133.stm
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.7.2008 | 22:42
Vinsælasti bloggari í heimi
Ég hef látið það vera fram að þessu að blogga um blogg eða aðra bloggara. Ég blogga heldur aldrei um fréttir enda fullt af kláru fólki í þeim bransa. En til að setja okkur íslenska bloggara í samhengi við það sem best gerist "út í heimi" langar mig að segja frá vinsælasta bloggaranum í veröldinni samkvæmt Heimsmetabók Guinness.
Hann heitir Yusike Kamiji og bloggar á Japönsku en þrátt fyrir það verð ég að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á hvers eðlis aðdráttaraflið er, en Þið getið dæmt um það fyrir ykkur sjálf hér.
Tölurnar sem tengdar eru blogginu hans eru hreint ótrúlegar og komu honum í heimsmetabókina.
Flestar heimsóknir á dag; 230.755
Flettingar á dag; 5-6 millj. að meðaltali, komst hæst í 13.171.039 þann 12 Apríl s.l.
Þann 17. Apríl fékk hann 56.061 athugasemdir við eina færsluna.
Víst er að Japan sker sig úr mörgum löndum hvað varðar notkun bloggsins. Sjónvarpsstjörnur nota bloggið til að auglýsa þættina sína og framkomur í spjallþáttum o.s.f.r. Svo nota þeir tækifærin þegar þau gefast í sjónvarpinu til að minnast á bloggin sín.
25.7.2008 | 20:04
Hvers vegna er ég hommi?
Hvers vegna er ég hommi? Er ástæðan líffræðileg, félagsleg eða uppeldisleg. Þetta eru spurninginarnar sem John Barrowman leggur upp með að svara í klukkustundar löngum sjónvarpsþætti sem sýndur var í gær á BBC One.
Barrowman nokkuð þekktur sjónvarpsleikari meðal Breta og annarsstaðar þar sem þátturinn Torchwood er sýndur. Hann segist hafa vitað það frá níu ára aldri að hann væri hommi og langaði að fá að vita hvers vegna. Í sjónvarpsþættinum gengur John undir mörg mismunandi próf og kemst að því að heili hans starfar eins og kvenmanns og kynhvöt hans líka.
Eftir að hafa komist að því að ekki er uppeldislegum ástæðum til að dreifa og ekki genískum heldur, kemst hann að þeirri niðurstöðu að orsakir samkynhneigðar hans megi rekja til þess að hann á eldri bróður og að móður hans hafði misst fóstur (dreng) áður en hún átti John. Þetta kann að hafa valdið því að John fékk ekki nægt testosterone á meðgöngutímanum.
Rannsóknir sýna að samkynhneigð er 30% algengari hjá körlum sem eiga eldri bróðir eða bræður.
Ástæðan er sem sagt líffræðileg og hefur með hormónaflæði móðurinnar á meðgöngutímanum að gera. Líkur eru sagðar á að testosterone framleiðsla móðurinnar minnki á meðgöngu seinni sveinbarna og það geti haft þau áhrif að heili þeirra og kynhneigð þroskist eins og hjá kvenmönnum.
Ég veit ekki hversu marktækar niðurstöður Johns eru fyrir aðra homma en þær hljóta að gefa ákveðnar vísbendingar. Þessar niðurstöður vekja líka spurningar um hvort foreldrar (mæður) sem vilja eignast gagnkynhneigð börn, geti tryggt það með hormónagjöfum eftir að kyn barnsins hefur verið greint.
23.7.2008 | 13:06
Apakattarkónungurinn - Meiri monkey business

Apakattarkóngurinner byggð á sannri sögu um frægan munk sem hét Xuan Zang og var uppi á tímum kínverska Tang veldisins (602-664). Eftir áratuga prófraunir og erfiðleika, kemst hann fótgangandi til Indlands, þar sem Búddismi er uppruninn. Þar fær hann hinar þrjár heilögu bækur Búddismans. Hann snýr heim og þýðir sútrurnar á kínversku og brýtur þannig blað í sögu Búddismans í Kína.
Apakattarkóngurinn er táknræn ferðasaga sem er blönduð kínverskum ævintýrum, dæmisögum, goðsögum, hjátrú, flökkusögum, skrímslasögum og nánast hverju öðru sem höfundurinn fann í Taoisma, Búddisma og kínverskri alþýðutrú. Þótt margir af lesendunum verði fangaðir af lærdóminum og viskunni sem í sögunni er að finna, halda rýnendur því gjarnan fram að kjarna sögunnar sé að finna í einni söguhetjunni (Apakettinum) sem er uppreisnarseggur sem mótmælir harðlega ríkjandi lénsherraskipulagi þeirra tíma.
Apakötturinn er sannarlega uppreisnargjarn. Samkvæmt sögunni er hann fæddur af steini sem var gerður frjór fyrir miskunn himins og jarðar. Hann er afar skynsamur og lærir fljótt öll brögð og galdra Gonfu listarinnar af ódauðlegum Tao meistara. Hann getur m.a. tekið á sig sjötíu og tvær mismunandi myndir, eins og trés, fugls, rándýrs eða skordýrs sem getur skriðið inn í líkama óvinar síns og barist við hann innan frá. Hann getur ferðast 108.000 mílur í einum kollhnís með því að nota skýin sem stiklusteina.
Hann gerir tilkall til að vera Konungur í blóra við hið eina sanna vald sem ræður himni, höfum, jörð og undirheimum, Yù Huáng Dà Dì, eða "Hins mikla keisara Jaðans". Þessi drottinssvik auk kvartanna meistara hinna fjögurra úthafa og Hels, kalla yfir Apaköttinn stöðugar erjur við útsendara frá hinum himneska her. Slagurinn berst um víðan völl og hrekur Apaköttinn út í haf eitt þar sem hann finnur fjársjóð drekakonungsins sem er langur gullofinn járnstafur sem notaður er sem kjölfesta vatnanna. Stafurinn hefur þá náttúru að geta minkað og stækkað eftir þörfum og verður að uppáhalds vopni Apakattarins. Fyrst reynir á krafta stafsins þegar Apakötturinn skellir sér til Hels (undirheimanna) og skorar á Hades konung á hólm til að hann þyrmi lífi sínu og félaga sinna og eignist eilíft líf.
Eftir margar orrustur við hinn hugrakka Apakattarkonung og jafnmarga ósigra hins himneska hers, á hinn himneski einvaldur ekkert eftir nema dúfnaherinn sem enn hafði ekki fengið tækifæri til að semja um frið. Dúfurnar bjóða apakettinum formlegan titil á himnum en án teljanlegs valds. Þegar að Apakötturinn kemst að því að hann hefur verið plataður og að hann er orðinn miðdepill spotts og háðs á himninum, gerir hann uppreisn aftur og berst alla leið aftur til jarðar þar sem hann tekur upp fyrri stöðu sem "Konungur".
Að lokum fer svo að hinn himneski her með aðstoð allra herguðanna tekst að handsama hinn nánast ósigrandi Apakött. Hann er dæmdur til dauða. En allar aftökuleiðir gagna ekki gegn honum. Höfuð hans er úr bronsi og axlir úr járni þannig að sverðin hrökkva af honum og verða deig. Að lokum skipar himnakeisarinn svo fyrir að hann verði lokaður inn í ofni þeim sem Tao meistarinn Tai Shang Lao Jun býr til töflur eilífs lífs. Í stað þessa að drepa Apaköttinn verður eldurinn og reykurinn til þess að skerpa svo sjón hans að nú getur hann séð í gegnum holt og hæðir. En og aftur nær hann að sleppa og finna sér leið til jarðarinnar.
Algerlega ráðlaus leitar hinn himneski Keisari til sjálfs Búdda og biður hann um aðstoð. Budda fangelsar Apaköttinn undir miklu fjalli, þekkt undir heitinu Wu Zhi Shan (Fimm fingra fjall). Apakötturinn lifir samt af þunga fjallsins og fimm hundruð árum seinna kemur honum til bjargar Tang munkurinn Xuan Zang sem getið er í upphafi sögunnar.
Til að tryggja að munkurinn komist heill á höldnu til vestursins og finni sútrurnar, hefur Búdda komið því svo fyrir að Apakattarkóngurinn verði leiðsöguamaður hans og lífvörður í gerfi lærlings hans. Tveir lærlingar bætast fljótlega í hópinn og allt er með vilja og ráðum Budda gert. Einn þeirra er svín sem fyrrum hafði verið hershöfðingi í hinum himneska her en brotið af sér gegn himnakeisaranum. Hinn er sjávarskrímsli sem einnig hafði verið hershöfðingi en er nú í útlegð fyrir afbrot sem hann hafði framið þá hann var í þjónustu Himnakeisara.
Þessir ferðafélagar halda nú í vestur ásamt hesti einum sem sendur er þeim til aðstoðar og er endurfæddur drekasonur. Saman finna þeir umgetnar sútrur. Ferðasagan er full af undrum og ævintýrum eins og merkja má af þessu hraðsoðna yfirliti forsögunnar.
Myndskreytta söguna í heild sinni má lesa hér á ensku
Meiri monkey business:
Api (ekki apaköttur) sýnir hér mikla djörfung við að stríða tígrisdýrum. Þetta er kannski ekki fallega gert hjá honum en hann er bara svo fyndinn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.7.2008 | 20:42
Fjölþjóðleg fjölskylda Baracks Obama
Verði Barack Hussein Obama kosinn forseti Bandaríkjanna í haust, mun hann verða fyrsti forsetinn með alþjóðleg fjölskyldutengsl sem spanna fjórar heimsálfur.
Foreldrar og fósturfaðir
Móðir Obama; Stanley Ann DUNHAMvar fædd 27. Nóvember 1942í Wichita, Kansas og lést 7. Nóvember 1995 af legkrabbameini. Hún hóf háskólanám sitt við Háskólann á Hawaii árið 1960. Þar hitti hún fyrri mann sinn; Barack Hussein OBAMA eldri. Hann og Stanley Ann DUNHAM voru gefin saman árið 1960 á Hawaii og áttu saman Barack Hussein OBAMA yngri, f. 4. Ágúst 1961.
Barack Hussein OBAMA eldri var fæddur 1936 í Nyangoma-Kogelo, Siaya Héraði í Kenya. Hann lést í bílslysi í Nairobi í Kenyaárið 1982. Hann skildi eftir sig þrjár eiginkonur, sex syni og eina dóttur. Öll börn hans búa í Bretlandi eða í Bandaríkjunum nema eitt. Einn bræðranna lést árið 1984 og er grafinn í þorpinu Nyangoma-Kogelo, Siaya héraði í Kenya.
Systkini
Fjölskyldusaga Obama yngri er dálítið flókin. Svo virðist sem faðir hans hafi þegar verið giftur þegar hann gekk að eiga Stanley Ann móður hans. Hann átti konu í Kenýa, Kezia að nafni. Að sögn Stanley Ann höfðu þau Obama eldri og Kezia verið gefin saman af öldungum þorps þeirra en engin skjöl voru til að sanna það. Með Kezia átti Obama eldri tvö börn, Roy og Auma, sem bæði starfa núna við félagsþjónustuna í Berkshire í Englandi.
Það hefur verið til þess tekið eftir að Obama yngri tryggði sér forsetaefnisútnefninguna að hálf bróðir hans Roy er trúaður múslími. Hann er sagður hafa snúið baki við lífsstíl veturlandabúa eftir bitra reynslu og horfið aftur til trúar föður síns og afa og Afrískra gilda.
Þegar Obamavar tveggja ára skildu foreldrar hans. Faðir hans fluttist til Connecticut til að halda áfram menntun sinni. Þegar að Obama eldri lauk námi sínu við Harvard og héllt til baka til Kenýa var þriðja kona hans Ruth (Bandarísk) í för með honum. Sú ól honum tvo syni og einn að þeim lést í mótorhjólaslysi. Obama eldri hélt áfram að hitta Kezia fyrstu konu sína eftir komu sína heim.
Þegar Obama yngri var sex ára giftist móðir hans Lolo Soetro, frá Indónesíu. Árið 1967 þegar að óeirðir miklar brutust út þar í landi, missti Soetro námspassann sinn og þau hjónin urðu að flytjast til Jakarta. Þar var hálf-systir Obama, Maya Soetro fædd.
Fjórum árum seinna sendi Stanley Ann son sinn til Bandaríkjanna til að búa hjá Afa sínum og Ömmu.
Barack Obama yngri útskrifaðist frá Columbia Háskóla og síðan Harvard Law School, þar sem hann hitti konuefni sitt Michelle Robinson. Þau eiga tvær dætur; Malia og Sasha.
Afar og ömmur
Föður afi Obama yngri hét Hussein Onyango OBAMA og var fæddur árið 1895 en lést árið 1979. Áður en hann gerðist ráðsettur matreiðslumaður fyrir trúboða í Nairobi, ferðaðist hann víða og barðist m.a. fyrir Bretland í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann heimsótti Evrópu og Indland og bjó um tíma í Zanzibar þar sem hann yfirgaf Kristna trú og gerðist múslími. Hussein Onyango OBAMA átti margar konur. Fyrsta kona hans Helima bar honum engin börn. Með annarri konu sinni Akuma eignaðist hann Söru Obama, Barrack Hussein Obama eldri og Auma Obama.
Þriðja kona Onyangos var Sarah og er sú sögð vera amma Obama foretaefnis. Hún sér að mestu leiti um fjölskylduna eftir að Akuma lést langt um aldur fram.
Móðurafi Obama yngri hét Stanley Armour DUNHAM og var fæddur 23. Mars 1918 í Kansas og lést 8. Febrúar 1992 í Honolulu á Hawaii. Hann er jarðsettur í Punchbowl National Grafreitinum í Honolulu, Hawaii.
Móðuramma Obama hét Madelyn Lee PAYNE og var fædd 1922 í Wichita, Kansas. Hún er enn á lífi og býr í Oahu á Hawaii.
Stanley Armour DUNHAM og Madelyn Lee PAYNE voru gefin saman 5. May 1940.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
22.7.2008 | 11:32
Sacha Baron Cohen
Hver kynslóð á sér sínar hetjur og fyrirmyndir, sína uppáhalds tónlist og hljóðfæraleika, leikara og grínista. Allt frá því að Charles Chaplin reið á vaðið í túlkun sinni á flækingnum broslega og brjóstumkennanlega, hefur heimurinn notið grínleikaranna, sem hafa gert heiminn ögn þolanlegri með því að birta okkur skoplega spegilmynd af honum. Margir grínarar láta sér nægja að fleyta sér á yfirborðinu og er það mest í mun að framkalla hlátur. En svo eru þeir sem dýpra kafa, stinga á graftrakýlunum í samfélaginu og fá okkur til að horfa á sjálf okkur í spéspeglinum. Fremstur meðal þeirra í dag er að mínu mati Sacha Baron Cohen.
Sacha Baron Cohen (f. 1971 í Englandi) varð fyrst frægur fyrir sköpun sína á karakternum Ali G, hip-hop gervigangster sem í viðtölum sínum við mektarfólkið opinberaði fordóma þess og stundum fáfræði með afar eftirminnilegum hætti.
Næsta fígúra Sacha Baron Cohen er Austurríski og samkynhneigði tískublaðamaðurinn Bruno sem ekkert virtist heilagt. Hann leggur fyrir viðmælendur sínar spurningar sem sýna greinilega hversu afmörkuð sjónarhorn þeirra eru við yfirborðsmennsku tískuheimsins.
Hann hélt áfram á sömu braut sem Kasakstaneski fréttaritarinn Borat sem ferðaðist um Ameríku og fletti ofan af kynþáttafordómum Bandaríkjamanna og fáfræði þeirra um menningu annarra landa.
Hér er myndband 9 mín. þar sem Sacha ræðir við David Letterman um karakterana sína
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.7.2008 | 12:13
Rannsókn hvarfs Madeleine McCann hætt í Portúgal
Nýjustu fréttir frá Portúgal herma að yfirsaksóknari í Madeleine McCann málinu hyggist tilkynna að rannsókn málsins verði hætt að hálfu yfirvalda þar í landi. McCann hjónin munu eflaust ekki láta af leit sinni og halda áfram að auglýsa eftir stúlkunni sinni.
Síðan að Medeleine hvarf hafa hátt í eitt þúsund börn (undir 14 ára aldri) horfið í Bretlandi og ekkert til þeirra spurst. Þrátt fyrir hina yfirgripsmiklu leit sem gerð var að Madeleine og þá heimsathygli sem hún vakti og að hún hafi að hluta til verið réttlætt með því að segja að athyglin mundi koma öðrum hvarfsmálum til góða, þekkja fáir nöfn þeirra hundruða sem horfið hafa síðan Medeleine hvarf. Ekkert bendir til að fjölmiðlafárið í kring um hvarfið eða eftirmálar þess hafi komið að gagni við að beina athygli fólks að barnahvörfum svo þau mættu verða fátíðari.
Það sem eftir stendur er þetta;
Líkt og McCann hjónunum fyrr á þessu ári, hefur Robert Murat, sem grunaður var um tíma að eiga aðild að hvarfinu, nýlega verið dæmdar háar skaðabætur (600.000 pund) og afsökunaryfirlýsingar frá 11 fréttablöðum, Sun, Daily Express, Sunday Express, Daily Star, Daily Mail, London Evening Standard, Metro, Daily Mirror, Sunday Mirror, News of the World og the Scotsman og Sky sjónvarpsstöðinni fyrir að vera ranglega opnberlega ásakaður um að eiga sök á hvarfi Madeleine.
McCann hjónunum voru dæmdar í bætur 550.00 pund í leitarsjóð Medeleine.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.7.2008 | 01:07
Bonoboar
Langt inn í myrkviði Kongó er enn að finna hina gleymdu apa-ætt Bonoboa. Menn komust ekki að því að þeir voru sjálfstæð apategund fyrr en árið 1928. Þeir eru stundum kallaðir Suðurbakka-apar vegna þess að heimkynni þeirra eru á suðurbakka Kongó árinnar og þar með voru aparnir lengi vel afar einangraðir.
Vísindamenn safna nú sem flestum gögnum um Bobnoboa því þeir eru í mikilli útrýmingarhættu af völdum manna sem ágirnast kjöt þeirra. Menn þarfnast skiljanlega þessa kjöts þar sem þeir hafa ekki tíma til að hirða um búfénað eða rækta jörðina á þessum slóðum, vegna anna við að drepa meðbræður sína í borgarastyrjöldinni sem þarna hefur geisað upp síðustu ár.
Bonoboa samfélögunum er stjórnað af kvennategundinni, sem tekur sig saman og þvingar karltegundina til undirgefni. Samfélagið byggist upp á einskonar "elskumst ekki berjast"reglu og kemur m.a. fram í því að árásarhvöt allri er svalað í kynlífi. Kynlíf er sem sagt ekki eingöngu stundað á meðal Bonboa til að fjölga tegundinni. Mikið hefur verið fjallað um kynlíf Bonoboa og me.a. bent á þá sem dæmi um samkynhneigð meðal dýra. Staðreyndin er að þeir eru flestir Bi-Sexual.
Þeir eru að auki svo viðkvæmir að mikill hávaði og læti getur orðið þeim að aldurtila. Þannig fór t.d. með fyrstu Bonoana sem voru geymdir í dýragarði í Berlín í þýskalandi fyrir fyrra stríð. Þeir dóu allir úr skelfingu þegar sprengjuárás var gerð á borgina. Simpansana í næsta búri sakaði ekki.
Bonoboar láta svo vel að afkvæmum sínum að barnadráp er svo til óþekkt á meðal þeirra, ólíkt sem gerist hjá öðrum öpum. Vel hefur gengið að kenna þeim táknmál og sagt er að Bonoboa api hafi náð að þekkja allt að 600 tákn. (Meðal daglegur orðaforði íbúa í New York er um 250 orð)
20.7.2008 | 08:57
Nöldur og fordómar kynslóðanna
Vandamálið við brandara um gamalt fólk er að þeir ýta undir og styðja klisjuna að gamalt fólk geri lítið annað en að bíða eftir því að deyja. Unglingum t.d. þykir afar óþægilegt að tala um gamalt fólk og leiða það hjá sér að ef allt gengur að óskum endum við öll einmitt þannig.
Í sjálfu sér finnst mér ekkert að því að segja brandara um gamlingja, svo fremi sem við sjáum þá ekki sjálfa sem brandara. Á því er mikill munur.
Tveir gamlir öldungar sátu á bekk og ræddust við.
Ég er orðin svo gamall, sagði annar þeirra, að ég get ekki lengur pissað í einni bunu. Þetta kemur í rykkjum og skrykkjum og það tekur mig venjulega 10 mínútur að klára.
Vildi ég að ég væri svona heppinn, svaraði hinn. Á hverjum morgni klukkan sjö, stendur úr mér bunan, kraftmikil eins og úr stóðhesti.
Hvað er að því?, spurði sá fyrri.
Ég vakna ekki fyrr en klukkan hálf átta.
Það er hjákátlegt að horfa á náföla og búlemíu-granna semi-rokkara stramma hrátt sama gripið út í gegn á gítarinn og væla með sundurlausar setningar um tímarit og sígarettur í míkrófóninn. Undan hvaða hlandvotu tímaskekkju rekkju skriðu þessir gæjar? Lögin eru flatliners sem ekki krefjast neins til að flytja annars en óréttlætanlegs og óforskammaðs sjálfsálits. Hálflukt augun og klesst hárið eru ímynd drug-indúseraðs meðvitundarleysis sem greinilega er nauðsynlegt til að þrauka í gegn um þessa reynslu. Og þegar hryllingnum loks líkur má merkja á töktunum að þessir herrar telja sig hafa farið með ódauðlegt listaverk.
Sama listræna illgresið kemur úr barka svörtu drengjanna úr slömmum stórborga Ameríku. Þeir hópast enn saman til að ryðja úr sér óskiljanlegri orðasúpu í takt við trommuheila og vilja meina að það sé tónlist. Þeir láta mynda sig í þröngum húsasundum, skúmaskotum eða stigagöngum klæddir í hólkvíðar treyjur til að fela hamborgara-mittis-skvapið, með buxurnar á hælunum samkvæmt þreyttri tísku sem varð til í fangelsum Bandaríkjanna fyrir margt löngu, þar sem beltisólar og reimar eru fjarlægðar til að viðkomandi hengi sig ekki í þeim. Allt í kring um þá dilla ungar druslulega klæddar stúlkur lendunum sínum og nudda þeim upp að piltunum eins og breima kettir. Þær haga sér raunar í fullu samræmi við textann sem drengirnir fara með, (sem þó er ekki hægt að skilja nema þú fáir hann á prenti) en hann er fullur af niðurlægjandi kenningum um kvenfólk. Jó bró handahreyfingarnar og stöðugt kynfærakáf drengjanna eru eflaust í þeirra huga nauðsynleg kultúrísk auðkenni, en eru í raun hallærislegir og afdankaðir götustælar sem tjá vanmátt og pirring hins óupplýsta og kúgaða manns.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.7.2008 | 18:51
Krissy Wood - Smá eftirmáli við skúbbið
Í gær brá ég mér af bæ og heimsótti hjón sem ég þekki lítillega og búa í nærliggjandi smábæ. (Bradford on Avon) Þar voru samankomnir á heimili hjónanna nokkrir af vinum þeirra sem ég hafði aldrei hitt áður.
Þegar líða tók á kvöldið kom að tali við við maður sem kynnti sig sem Tom. Kvaðst Tom þessi hafa starfað mikið með þekktum hljómsveitum hér í Bretlandi, aðallega sem sviðsmaður og m.a. tekið þátt í að setja saman hið fræga svið sem Pink Floyd notaði í hljómleikaferð sinni The Wall. Mér varð á að minnast á að ég hefði hitt fyrir tilviljun Ronnie Wood á dögunum og við það viðraðist Tom allur upp og sagðist hafa þekkt vel fyrri konu Ronnies, Kryssy Wood sem lést 2005 langt um aldur fram. Hann lét gamminn geysa langt fram eftir kvöldi og hafði frá mörgu að segja.
Þegar hann loks kvaddi og fór, kom húsfreyjan til mín og sagðist hafa heyrt ávæning af samræðum okkar. Hún sagði jafnframt að Tom þessi hefði verið grunaður um að vera sá sem "skaffaði" Krissy Wood valíum töflurnar sem drógu hana til dauða eftir að hún hafði tekið þær inn í ómældu magni. - Þetta varð til þess að ég fór að leita mér frekari upplýsinga um Krissy og það sem ég komst að er svo furðulegt og lærdómsríkt að ég má til með að deila því með ykkur.
Fyrirsætan Krissy Wood var heimsfræg hljómsveitafylgja (groupía) og eiginkona Ronnie Wood gítarleikara Rolling Stone, dó í skugga fremur villtrar fortíðar sinnar. Hún er ekki eina konan sem skilin hefur verið eftir drukknandi í kjölfari hljómsveitarinnar.
Krissy byrjaði á toppnum; hún sagðist hafa tapað meydóminum á sófa mömmu sinnar í Ealing með Eric Clapton. Þá hét hún Krissy Findley og kom úr strangtrúaðri Rómversk-kaþólskri fjölskyldu, gekk í skóla sem heitir Gregg Grammar og þótti gaman að dansa og hlusta á hljómsveitir.

Munmælasagan segir að hún hafi verið ábyrg fyrir því að Ronnie fór að spila með Stones. Kvöld eitt kom hún heim úr klúbbi í London með Keith Richard í eftirdragi. Hún kynnti hann fyrir Ronnie og þeir byrjuðu að semja saman. 1974 fóru Stones í hljómleikaferð og þá tóku þeir Ronnie með sér.
Ári 1975 var Krissy ákærð í Kingston Crown Court fyrir að neyta kókaíns. Eftir það hélt hún með George Harrison til villu hans í Portúgal.
Ronnie virtist afar ánægður með það, sem ekki ber að undrast, því hann var á leiðinni til Barbados eyja með konu Harrisons, fyrirsætunni Patti Boyd. (Hún skildi seinna við Harrison og giftist Clapton.) Krissy og Harrison urðu elskendur og þegar þau komu til baka frá Portúgal tóku þau á móti mökum sínum á heimili Harrisons í Friar Park í Oxfordskýri.
Hvernig þeim fundi reiddi af fer ekki sögum af hér, en fljótlega eftir þann fund hélt Krissy til Los Angeles og hóf þar samband við John Lennon, sem þá var giftur Yoko Ono. Það var Krissy sem var með Lennon þegar að plötuframleiðandi einn miðaði á hann byssu sinni. Lennon kastaði sér yfir Krissy til að vernda hana. Hvorugt meiddist. Í annað skipti voru þau bæði borin út úr partýi hjá Díönu Ross eftir að ólyfjan hafði verið blandað í drykki þeirra.
Daginn fyrir andlát sitt hringdi hún í vin sinn og sagði að allt væri í lagi en 24 tímum seinna lá hún andvana á sófa hans. 150 manns sóttu útför hennar sem gerð var frá Mortlake Crematorium og Ronnie, sem var viðstaddur með Jo, var sagður yfirbugaður af sorg.
Saga Krissy eftir að hún skildi við Ronnie er dæmigerð fyrir örlög margra grúpía sjötta áratugarins. Jo Jo Laine sem missti meydóminn með Jimi Hendrix og átti elskhuga á borð við Rod Stewart og Jim Morrison, giftist síðan Denny Laine, gítarleikara the Moody Blues og síðan Wings, varð alkóhóli og heróíni að bráð. Hún var loks lokuð inni á þunglyndislyfjum eftir að hún komst að því að Denny hafði sofið hjá bestu vinkonu hennar. Þá mætti nefna Marianne Faithfull, Marsha Hunt, Mandy Smith, Anitu Pallenberg sem dæmi um konur sem steinarnir frægu rúlluðu yfir og skildu eftir misjafnlega á sig komnar um aldur og ævi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)