Færsluflokkur: Dægurmál
5.11.2011 | 01:51
Er hún virkilega of feit?
Mig hefur oft langað til að skrifa um annars konar slúður en þetta pólitíska. Sárstaklega slúður um frægt fólk sem lætur plata sig til að tjá sig opinberlega um einkamál sín, skoðanir og lífsspeki, harm og hamingju - Það eru stórskemmtilegir atburðir. Við getum ekki annað en drukkið þá í okkur.
Nú stenst ég ekki mátið því Jennifer Lopez sem er besta söngkonan meðal kvenleikara í Hollywood og besta leikkonan meðal söngkvenna, hefur talað.
Allt frá því hún varð fræg hefur hún þurft að þola háðsglósur bandarískra sjónvarpsþátta-stjórnenda og annarra brandarakalla fyrir að hafa stóran rass og vera of feit miðað við allar hinar anórexurnar sem hafa "rétta" lúkkið. -
Hún hefur fram að þessu þóttst kæra sig kollótta og látið ljósmynda sig og filma í bak og fyrir reglulega án nokkrar blygðunar fyrir útlit sitt.
Hún hefur líka ætíð verið vinsæl og vaðið í myndarlegum karlmönnum sem greinilega eru ekkert að setja stóra rassa fyrir sig....eða þannig.
Í þessu viðtali við Jane Fonda eilífðarfegurðardís, reynir á lífsspeki Lopezar. Hún segir í svo mörgum orðum að erfiðleikar séu til að læra af þeim.
Þetta er forn og gild háspeki sem fólk getur alveg tekið alvarlega. Lopes hefur örugglega þurft að kafa lengi í kabala-fræðin sín til að finna þetta út. - Og hvað skyldi Lopes svo hafa lært í öllum sínum erfiðleikum sem einn ríkasti og vinsælasti skemmtikraftur í USA með alla sætu strákana á hælunum?
Jú, að manni þurfi að líða vel í eigin skinni til að geta liðið vel með öðrum. Þetta er líka alkunnur sannleikur sem margir flaska á.
Einkum þeir sem alls ekki geta verið einir og með sjálfum sér um tíma, ja eða svona eins og Lopez sem ætíð hefur ætt úr einu sambandinu í annað.
En nú er hún öll að mannast og hefur lært sína lexíu.
Hún rekur umbann sinn fyrir að segja henni sannleikann, (eins og hann sér hann) af því henni líður svo vel í eigin skinni og er ekkert viðkvæm fyrir þessu bulli.
Go girl, go.
Rak umboðsmann sem sagði henni að léttast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.11.2011 | 16:57
Santa versus Stekkjastaur
Amerísk menning og þjóðhættir eiga greiðan aðgang að Íslandi og Íslendingar upp til hópa virðast afar ginkeyptir fyrir henni. Í hönd fara nú þeir mánuðir þegar mest ber á því hversu andsvaralítið íslenskir siðir og þjóðhættir hafa smá saman látið í minni pokann, eða upplitast af þeim amerísku og tínt sérkennum sínum.
Þótt reynt hafi verið t.d. að halda við, og endurvekja, íslensku jólasveinana, sjást þeir yfirleitt á ferli rauðklæddir og í búningi að hætti Coca Cola-sveinsins og haga sér svo til eins og hann, -
Aðeins nöfn hinna rammíslensku tröllasona hafa nokkurn veginn haldið sér. Grýla, Leppalúði og jólakötturinn eru yfirleitt hvergi sjánleg nema á Þjóðmynjasafninu.
Valentínusardagurinn er smá saman að ýta alveg út hinum íslenska konudegi sem þýðir að bóndadagurinn og það jafnræði sem þessir tveir dagar báru með sér, er ekki lengur í heiðri haft eða minnst á þeim dögum.
Í stað þess að árétta og þakka hinni góðu búkonu störf hennar og lofa hagsýni hennar, er tilhugalífið með tilheyrandi rósrauðri rómantík, blómum og súkkulaði orðið að aðalatriðum.
Þá skal ekki rugla bónda og konudegi saman við mæðra og feðradagana sem einnig eru amerísk uppfinning og blómasalar og konfekt framleiðendur hafa gert sér mat úr hér á landi allt frá árinu 1934.
Nýafstaðin er Hrekkjavakan (Halloween) sem er smá saman að færa sig upp á skaftið hér á landi, þrátt fyrir að Íslendingar hafi haft talvert fyrir því á sínum tíma að koma sér upp þjóðlegum hátíðahöldum í svipuðum dúr og sem haldin voru upphaflega á gamlárskvöld.
Form þeirra hátíðahalda hefur reyndar sumsstaðar færst yfir á þrettándann. Í stað álfa, huldufólks og trölla, koma uppvakningar, blóðsugur og raðmorðingar í bland við amerísk ofurmenni ættuð úr þarlendum hasarblöðum og kvikmyndum.
Að sama skapi og þessir amerísku þjóðhættir riðja sér hér til rúms, viðspyrnulítið, verður hlutur þeirra íslensku minni og máttlausari.
Sprengidagur og öskudagur koma og fara án þess að elduð sé baunasúpa á heimilum landsins eða saumaðir öskupokar.
Bolludegi er reyndar enn haldið uppi af bökurum en vendirnir eru horfnir ásamt tilheyrandi flengingum.
Að mörgu leiti hefur okkur íslendingum mistekist að heimfæra menningararf bændasamfélagsins yfir á bæja og borgarsamfélagið. Jónsmessan er aflögð, sumardagurinn fyrsti á útleið eins og fyrsti vetrardagur. Það eru helst matarvenjurnar sem lifa. Skata er víða elduð á þorláksmessu og þorrablót lifa ágætu lífi með sínu súrmeti og hangiketi.
Ferðamenn (túristar) hafa oft orð á því að þeim finnist íslensk menning vera mjög amerísk. Það sem dregur þá til landsins er sérstæði íslenskrar náttúru og þeir búast einhvern veginn við því að menning okkar sé jafn sérstök og landið. Til að upplifa ameríska menningu mundu þeir fara til Ameríku, er viðkvæðið.
Kannski er það gamla eylands-minnimáttarkenndin sem þarna birtist enn á ný, og aftur að ástæðulausu. Hún felst í því að halda að allt hljóti að vera merkilegra og betra meðal annarra þjóða. Oft er reynt að fela hana með innistæðulausum þjóðarrembingi og mikilmennsku-stælum eins og við þekkjum svo vel úr sögu síðustu ára.
Íslenskir þjóðhættir eru hins vegar menningararfur sem vert er að halda í. Þeir skilgreina okkur betur sem þjóð og gerir landið og íbúa þess mun áhugaverðari um leið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2011 | 09:49
Skrökvar til um aldurinn
Það er svo sem ekkert nýmæli að konur segi ekki rétt til aldurs. Margir telja það meira að segja ókurteisi að spyrja konur um aldur sinn. Margar skemmtilegar ýkjusögur hefur maður heyrt í gegnum tíðina af konum sem drjúgar með sig segja sig miklu yngri en þær eru og halda að þær komist upp með það. Stundum verða þær að aðhlátursefni fjölmiðla fyrir koddafésin sín og bótox frostið í andlitinu. -
Það er sem sagt ekki óalgengt að það beri dálítið á milli þess sem konur segja um aldur sinn og þess sem fæðingarvottorðið segir.
Heimsmetið í þessu á vafalaust þessi kona í Viet Nam sem segist svera 26 ára gömul en lítur út fyrir að vera 66 ára. Ekki nóg með að sjúkdómurinn sem Nguyen Thi Phuong segist þjást af, hafi elt á henni andlitið, heldir hefur hann einnig breitt í henni tönnunum, gert hárrót hennar gráa og gefið henni sígandi handleggsvöðva og alla líkamsburði konu sem komin er af besta aldri. -
Fréttin er augljós gabb-frétt. Fjölmiðlar í Kína og Indlandi eru fullir qaf slíkum furðufréttum og erfitt að átta sig á hvers vegna ein og ein nær stundum að slá í gegn í vestrænum fjölmiðlum. Greinilegt að Viet Nam vill ekki vera eftirbátar hinna landanna.
Hér er frétt sjónvarpssins í Viet Nam um Nguyen Thi Phuong
Eltist um hálfa öld á nokkrum dögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.10.2011 | 11:56
Indíánasumar
Indíánasumar kalla fjölmiðlar góða veðrið sem leikið hefur við íbúa Bretlands og stórs hluta Norður-Evrópu nú á hautsdögum.
Orðatiltækið ku ættað frá Norður-Ameríku þar sem herskáir indíánaflokkar notuðu forðum slíka sumarauka til ránsferða.
Framan af öldum í Evrópu voru óvenju sólríkir og heitir góðviðrisdagar að hausti kenndir við heilagan Martein og kallaðir Marteinssumar en 11. Nóvember var og er helgaður honum.
Blíðan undanfarna daga hefur haft mikil áhrif á verslun og viðskipti hér í Englandi. Biðraðir mynduðust víða við bensíndælur á þjóðvegum úti um helgina og sumir kráreigendur urðu uppiskroppa með bjór. Ferðamannastaðir vítt og breitt um landið, sérstaklega þeir sem standa út við strendur landsins, voru fullir af sólelskandi og fáklæddu fólki.
Nú spá veðurfræðingar að í vikunni framundan muni kólna aftur í veðri og haustgolan með tilheyrandi regni verða aftur köld og svalandi. -
Hitabylgja í Norður Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.9.2011 | 23:59
Þegar Poppgoðin deyja
Þau eru menn og konur sem við hefjum í huga okkar og hjarta upp á ímyndaða festinguna vegna hæfileika þeirra til að hrífa okkur í burt frá þessum heimi um stund.
Við tilbiðjum þau líka með ýmsu móti, fórnum þeim verðmætum okkar, tíma og peningum, gerum af þeim líkön og myndir og prýðum með þeim vistarverur okkar og tilbeiðslumusterin öll; leik, kvikmynda, tónlistar og öldurhús borga og bæja.
Í nútíma samfélagi gegna þau sama hlutverki fyrir sálarlíf okkar og íbúar Ólympíu fjalls og Ásheima gerðu forðum.
Á hverjum degi tínum við upp í okkur af mikilli græðgi alla fréttamolana sem umbar og spunameistararnir stjarnanna hafa matreitt sérstaklega ofaní okkur.
Við köllum þau stjörnur og sess þeirra er á himni, ekki satt?
En þegar stjörnurnar hverfa úr þessum heimi, ungar og í blóma lífsins og neyða okkur til að horfast í augu við forgengileika okkar sjálfra, hefst goðsagnagerðin fyrir alvöru. Besti efniviðurinn í hana á vorri upplýsingaöld, er fenginn úr samsæriskenningingum. Og þær bestu snúast aðallega um spurninguna; "hver drap hann/hana?"
Goð deyja nefnilega ekki á venjulegan hátt eins og ég og þú. Örlög þeirra og endalok verða að vera vafin einhverri dul og sveipuð leyndardómi. - Einungis þannig geta þau haldið áfram að vera aðgreind frá okkur hinum mennsku og ljóminn af hrævareldum lífs þeirra eins og hann birtist okkur í hinum margvíslegu fjölmiðlum, haldið áfram að veita okkur þá andlegu og trúarlegu fróun sem kakafónía margra og fjölbreyttra goða, ein getur áorkað.
Að vera tekin í guðatölu á við margar kvikmynda, rokk og poppstjörnur sem látist hafa langt um aldur fram, en ekki allar. Útlitið þarf líka að vera guðdómlegt.
Til dæmis voru þeir John Bonham og Keith Moon báðir of feitir og miklir nautnabelgir til að það kæmust af stað einhverjar sögusagnir um að orsök dauða þeirra hafi verið einhverjar aðrar en svall og svínarí.
Brian Jones og Janis Joplin sem tilheyra reyndar hinum fræga 27 ára að eilífu félagsskap, dóu einnig undir afar grunsamlegum kringumstæðum, eða svona eins rokkstjörnum sæmir, uppstoppuð af dópi.
En að sjálfsögðu getur konungur poppsins, sjálfur Michael Jackson, ekki hafa látist nema fyrir sök einhvers annars en sjálfs sín. Auðvitað er það Conrad Murray læknir sem ber sökina, eða til vara, einhver annar sem hann var að vinna fyrir. Hið fullkomna nútíma átrúnaðargoð getur ekki dáið nema að einhver hafi drepið það.
Eða trúir því einhver að Marilyn Monroe hafi ekki verið drepin af CIA vegna þess að hún hélt við tvo Kennedy bræður samtímis, og var orðin of illa farin af drykkju og dópi til að vera treystandi til að halda því leyndu mikið lengur.
Og var ekki Elvis Presley grandað af CIA þegar hann brá sér á klósettið til að kúka, eitt kvöldið?
Svo vita allir að breski krúnuerfinginn Charles lét drepa konu sína Diönu, prinssessu fólksins, til að geta giftast hinni ægifögru Camillu Parker, áskonu sinni til margra ára.
Eða hverju var raunverulega blandað í dópið sem Jimi Hendrix, Jim Morrison og Sid Vicious tóku inn, allt saman alvanir menn þegar kom að blöndun eiturlyfja, dælum og nálum?
Þá er alveg ljóst að krabbameinið sem Bob Marley dó af var tilkomið vegna þess hann var látinn eta geislavirk efni. Og var ekki haglabyssuskotið sem Kurt Cobain dó af grunsamlegt, jafnvel þótt hann hafi skrifað sjálfsvígs-bréf og hleypt því af sjálfur?
John Lennon var drepinn af einhverjum lúða sem gerður var út af einhverjum af þeim fjölmörgu sem óttuðust áhrif hans og eins fór fyrir Tubac Shakr og Biggie Smalls, jafnvel þótt þeir hafi verið í einhverjum glæpagengjum sem virða mannslífin á borð við mexíkanska eiturlyfjaprangara.
Og hvað munum við þurfa að bíða lengi þangað til að sögusagnirnar fara á kreik um orsakir dauða Amy Winehouse. - Enn er verið að bíða eftir formlegum niðurstöðum úr krufningu hennar. Það tekur tíma að koma saman sögu sem passar við allar þessa dóptegundir sem í líkama hennar fundust.
Þörfin til að "trúa" er líklega rótin af öllum þessum samsæriskenningum um dauða átrúnaðargoða okkar. Goðsagnirnar og trúin sem var og er hluti af sameiginlegu vitundarlífi okkar verður æ snauðara af því yfirnáttúrlega og dularfulla. Eitthvað í sálarlífinu krefst hinsvegar að slíkt sé til staðar.
Dægurmál | Breytt 30.9.2011 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.8.2011 | 14:20
Þegar amma var ung
Sú var tíðin að það þótti heyra til tíðanda ef að dægurlag með öðrum en íslenskum eða enskum taxta náði teljandi vinsældum meðal þjóðarinnar. Ríkisútvarpið sem var allsráðandi í þessum efnum langt fram á síðustu öld og átti því stærstan þátt í móta tónlistarsmekk þjóðarinnar á þeim tíma, réði því að sú tónlist sem leikin var í tónlistarþáttum eins og "Óskalög sjómana", "Óskalög sjúklinga" og "Við sem heima sitjum" voru hvað erlenda dægurtónlist snerti, endurómun af breska vinsældarlistanum. "Lög unga fólksins" fylgdi þessari sömu stefnu enda litu vinsældarlistarnir, sem þá voru komnir til sögunnar, flestir svipað út og þeir bandarísku og bresku. Vissulega voru þessir þættir pipraðir með tónlist frá framandi löndum og lög eins og hið kúbanska Guantanamera, hið hebreska Hava Nagila og hið mexikanska La Bamba heyrðust af og til og voru sjálfsagt langlífari í íslenskum útvarpsþáttum en nokkrum öðrum.
Fyrsta lagið sem ég man eftir að spilað var látlaust í öllum óskalagaþáttum og hvorki var íslenskt eða enskt var þýska lagið sem ýmist var kynnt undir heitinu "Der fröhliche Wanderer" eða "Mein Vater war ein Wandersmann".
Þetta glaðlega "göngulag" sem allir héldu að væri gamalt þýskt þjóðlag, var reyndar samið af Friedrich-Wilhelm nokkrum Möller skömmu eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk. Það varð geysi-vinsælt víða um heim árin 1953-4 í flutningi barnkórs frá Schaumburg. Mörg barnanna í kórnum sem þekktur varð undir nafninu Obernkirchen kórinn og stjórnað var af systur Fredrichs, Edith Möller, voru munaðarleysingjar sem misst höfðu foreldra sína í stríðinu.
Sjálfsagt hefði lagið aldrei orðið jafn vinsælt og raun ber vitni, ef BBC hefði ekki útvarpað úrslitunum í alþjólegu Llangollen kórkeppninni árið 1953 þar sem Obernkirchen kórinn vann keppnina með glans með flutningi sínum á þessu glaðhlakkalegu lagi.
Árið 1954 sat það í margar vikur í efstu sætum vinsældalista viða um heim t.d. á þeim breska, í ekki færri en 29 vikur.
Texti lagsins er eftir Edith, en hann hefur verið þýddur á fjölda tungumála og á ensku heitir lagið "The Happy Wanderer". Obernkirchen kórinn kom til Íslands árið 1968 og flutti m.a. lagið sem þýtt var á íslensku sem "Káti vegfarandinn" á vel sóttum tónleikum í Þjóleikhúsinu.
Næst var það trúlega ítalskan sem ég fékk að kynnast í söng á öldum ljósvakans i lagi sem síðan hefur verið hljóðritað og gefið út af meira en 100 mismunandi flytjendum. Lagið heitir "Nel blu dipinto di blu" en allir þekkja það undir heitinu Volare.
Ítalska tónskáldið Domenico Modugno samdi lagið og einnig ljóðið ásamt Franco Migliacci. Það var fyrst flutt af Domenico og Johnny Dorelli á tónlistarhátíð í Sanremo 1958 og sama ár var það valið til að vera framlag Ítalíu til Júróvisjón keppninnar.-
En þrátt fyrir að Domenico og Franco fengju að flytja lagið tvisvar í keppninni, vegna truflana á útsendingu í fyrstu atrennu, nægði það ekki til að koma laginu hærra en í þriðja sæti. - Lagið flaug samt inn á vinsældarlistanna víða um heim og hlaut síðan verðlaunin "besta lag ársins" á fyrstu Grammy verðlaunahátíðinni sem haldin var 1958 í Bandaríkjunum.
Árið 1963 þegar að Bítlarnir klifruðu upp alla vinsældarlista á ofurhraða fengu þeir samkeppni úr óvæntri átt. Belgísk nunna sem þekkt varð undir nafninu Sur Sourire (Systur bros) hafði þá samið og hljóðritað lagið Dominique, sem varð svo vinsælt að það rauk upp í fyrsta sæti vinsældarlista bæði vestan hafs og austan. Fram til þessa dags, er það eina belgíska lagið sem náð hefur fyrsta sæti á vinsældarlistum í Bandaríkjunum. Lagið varð svo vinsælt að Jeanine Deckers, en svo hét þessi syngjandi nunna réttu nafni, fór í hljómleikaferð um Bandaríkin og var auk þess boðið að koma fram í skemmtiþætti Ed Sullivan.
Deckers, sem sjálf fékk aldrei krónu borgaða fyrir lagið, heldur lét ágóðann renna til klaustursins, gafst upp á klausturslifnaðinum árið 1967. Í framhaldi af því reyndi hún árangurslítið fyrir sér með tónlistarflutningi undir nafninu Luc Dominique þar sem henni var meinað að nota nafnið Sur Sourire, sem var sagt eign útgefanda hennar, þ.e. Philips samsteypunnar.
Seint á áttunda ártugnum reyndu belgísk skattayfirvöld að innheimta af Deckers fúlgur fjár sem þau vildu meina að hún skuldaði í skatta af tekjunum af Dominique. - Deckers hafði þá þegar fallið í ónáð kaþólsku kirkjunnar vegna opinbers stuðnings síns við notkun "pillunnar" og vegna samkynhneigðar sinnar. Árið 1985 frömdu hún og sambýliskona hennar til margra ára, Annie Pécher, sjálfsvíg og sögðu í bréfi sem þær skildu eftir sig, fjárhagserfiðleika ástæðurnar.
Upp úr 1966 átti franska kynbomban Birgitte Bardott í ástarsambandi við sjarmörinn og tónlistarmanninn Serge Gainbourg. Hún bað hann að semja fyrir sig fegursta ástaróð sem hann gæti upphugsað og þá sömu nótt samdi hann lag sem átti eftir að kenna allri heimsbyggðinni að segja "Ég elska þig" á franska tungu, eða; Je t'aime.
Fyrst hljóðritaði hann lagið með stunum Bardott og sjálfs sín en sú útgáfa lagsins kom ekki út fyrr en árið 1986. Það var hins vegar ástkona hans, ofurskutlan Jane Birkin sem söng og andvarpaði ásamt Serge sjálfum á útgáfunni sem fór eins og eldur í senu um heiminn árið 1967. Í þeim löndum sem ekki bönnuðu flutninginn fór lagið gjarnan í fyrsta sæti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.6.2011 | 09:06
Smartland til sölu
Mér finnst það góð hugmynd að fjalla um tísku, fegurð og alla fylgihluti kvendómsins, sem hluta af stóru vefsvæði eins og mbl.is er. Mér finnst það aftur á móti afar slæm hugmynd að selja greinarnarnar sem birtast í slíkri umfjöllun, hæstbjóðanda.
Greinar sem birtast og forsíðu mbl.is frá Mörtu í Smartlandi eru margar með því markinu brenndar. Þær eru ætlaðar til að villa ungum stúlkum og auðtrúa konum sýn á hvað eru góð og holl ráð og hvað eru svæsnar auglýsingabrellur.
Það á að vera auðvelt fyrir almenning að greina auglýsingar frá hlutlausri umfjöllun. Það á að taka það fram í upphafi greinar að greitt hafi verið fyrir eftirfarandi umfjöllun, ef svo er. Sem dæmi má taka þessa umfjöllun um hvaða farða Sahaorn Stone og Natalie Portman noti. Hún sannar svo ekki leikur lengur nein vafi á, að Marta smarta hefur selt sál sína og skrif snyrtivöruframleiðendum og skammast sín greinilega ekkert fyrir það.
Myndirnar sem hún birtir af kvikmyndastjörnunum eru sjoppaðar og gefa engan vegin til kynna raunverulegt útlit þeirra, með eða án farða, þannig að það er engin von fyrir íslenskan "kvenpening" að öðlast þetta útlit, hvað sem hann kaupir mikið af þessum snyrtivörum sem Marta er að pranga með.
Nokkrum dögum áður hafði Marta skrifað grein um að konum bæri að farða sig eins og Elizabeth Taylor og Michelle Pfeiffer og vitnað til útlits þeirra í ákveðnum kvikmyndum. Önnur kvikmyndin fjallaði um egypska drottningu sem framdi sjálfsmorð þegar að fegurð hennar nægði ekki lengur til að tæla mikla herforingja til lags við sig, en hin um uppkókaða diskópíu sem gekk á milli eiturlyfjabaróna eins og hver annar varningur. - Förðun og útlit beggja kvenna í þessum kvikmyndum var mjög í samræmi við persónugerðina. - Hvaða skilaboð er Marta smarta að senda?
Sharon Stone notar þennan farða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.6.2011 | 07:43
Vínlandsfáninn
Fáninn er hannaður í sama stíl og norðrænir fánar, svartur kross með hvítum jöðrum á grænum feldi.
Hann er mikið notað af hvítum kynþáttahyggjumönnum í USA og Evrópu sem álíta föðurland sitt Norður Ameríku, Grænland, Ísland og Norður Evrópu.
Sem fáni stór-Hvítramannalands, er það m.a til sölu á Ný-Nasistasíðunni Stormfront.org.
Vínlandsflaggið er hugarfóstur Peters Steele söngvara hljómsveitarinnar Type O Negative og á að vera táknrænt fyrir pólitískar skoðanir hans og önnur áhugamál, þar á meðal íslenskt ætterni hans.
Pælingar Peters í tengslum við fánagerðina gengu út á spekúleringar um hvað hefði gerst ef norðrænum mönnum hefði tekist að stofna ríki í Norður Ameríku í kjölfar landafunda Leifs Eiríkssonar. Hann ímyndaði sér það sæluríki sem byggði á vísindahyggju frekar en trúarbrögðum. Þetta ímyndaða ríki kallaði Peter People's Technocratic Republic of Vinnland.
Af Pétri Steele er það að segja að hann var borinn og barnfæddur í Brooklyn en fjölskylda hans er kaþólsk og sögð af pólskum rússneskum, íslenskum og skoskum ættum. Móðir hans er/var? íslensk í aðra ættina.
Hann lærði að glamra á gítar og lék með nokkrum lítt kunnum þungarokks böndum áður enn hann stofnaði Type O Negative.
Vinsælasta breiðskífa hljómsveitarinnar heitir Bloody Kisses. Skífan gerði hljómsveitina fræga og Steele að kyntákni. 1995 birtist mynd af honum nöktum á forsíðu tímaritsins Playgirl. Hann varð frekar óhress með þá ákvörðun eftir að hann frétti að aðeins 23% af lesendum blaðsins voru konur og þeir einu sem báðu hann um eiginhandaráritun á entak af blaðinu voru hommar.
Peter lést árið 2010 þá aðeins 48 ára.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.6.2011 | 01:31
Var Melkorka Mýrkjartansdóttir rauðhærð
Þegar að hinir keltnesku Ikenar gerðu uppreisn gegn setuliði Rómverja á Englandi árið 60 e.k. fór fyrir þeim sjálf drottning þeirra; Boudica. Gríski sagnritarinn Dio Cassius sá ástæðu til þess að geta þess sérstaklega að Boudica hafi verið hávaxin og skelfileg í útliti, með mikið rautt hár sem féll niður yfir axlir hennar. -
Allt fram á okkar dag hefur það loðað við rauðhært fólk, sérstaklega kvennfólk að það sé skapstórt og röggsamt. - E.t.v. er það frekar óvinsamt umhverfi sem kallar á þessa sakpgerð, því kannanir sýna að rauðhærðir krakkar verða meira fyrir stríðni en krakkar með annan háralit Oftast beinist stríðnin og uppnenfnin einmitt að háralitnum.
Rauður hárlitur er sá sjaldgæfasti í heimi því aðeins 1-2% íbúa heimsins fá hann í vöggugjöf. Flestir rauðhærðir, miðað við íbúatölu, fæðast í Skotlandi og á Írlandi, hvorutveggja lönd þar sem áhrif ómengaðrar keltneskrar menningar entust hvað lengst.
Á Írlandi bera 46% "rauðhærða genið" sem varð til fyrir stökkbreytingu í eggjahvítuefni eins litnings, einhvern tíma í fyrndinni.
Því hefur stundum verið haldið fram að "rauðhærða" genið megi rekja til Neanderdals-manna, en það ku ekki vera rétt. Meðal Neanderdalsfólksins var rauðhært fólk ekki óalgengt, en það var rauðhært vegna annarrar tegundar stökkbreytingar en olli breytingum á 16. litningnum í nútímamanninum
Á Íslandi er rauðhært fólk frekar algengt og í minni ætt prýðir rautt og rauðleitt hár fjölda kvenna. Móðir mín sáluga, var með dökkrautt hár og litaði það eldrautt fram á dauðadægrið þá næstum áttræð.
Hún montaði sig stundum af rauða litnum sem hún sagði kominn beint frá Melkorku Mýrkjartansdóttur, konungsdóttur af Írlandi. Hvað hún hafði fyrir sér í því að Melkorka hafi verið rauðhæð, veit eg ekki. - En að svo hafi verið er mjög algeng trúa fólks á Íslandi...og kannski ekki af ástæðulausu.
Víst er að Mýrkjartan faðir hennar eða Muirchertach eins og hann var nefndur upp á írsku, var sonur Niall Glúndub mac Áedo og því einn af Cenél nEógain ættinni sem var hákonungsæt Íra.
Frægasti ái ættarinnar er án efa Njáll Níugísla (Niall Noigiallach) en af honum fara margar fræknar sögur. Eitt af aðaleinkennum írsku hákonungsættarinnar var einmitt rauða hárið sem erfðist bæði í karl og kvenlegg. -
Kannski vissi móðir mín allt þetta og gat því fullyrt með nokkurri vissu að Melkorka hafi verið rauðhærð. Að auki má færa ákveðin rök fyrir því að nafnið sjálft "Melkorka" gefi vissa vísbendingu um háralitinn.
Norðræna orðið korkur kemur af gelíska orðinu corcur sem aftur er komið af latneska orðinu purpura. Í Noregi var orðið korkur notað yfir litinn sem notaður var til að lita ullarfatnað rauðan, enda þýðir orðið einfaldlega það sama og á latínu eða ; rauður.
Orðið Mela eða MAY-laher til í gamalli írsku og merkir "elding".
Þessi orð samsett í kvenmannsnafn verða þá að Melkorka,eða Rauðelding. - Persónulega finnst mér sú merking nafnsins koma mjög vel heim og saman við persónu hennar eins og henni er lýst í Laxdælu.
5.6.2011 | 15:08
Goðsögnin um grænu páfagaukana í London
Villtir grænir páfagaukar (Hringhálsar) eru orðin algeng sjón í London. Talið er að fjöldi þessa langlífu fugla sem upphaflega eru ættaðir frá rótum Himalajafjalla og geta orðið allt að 50 ára, sé nú komin vel yfir 100.000. -
Fuglarnir eiga sér enga náttúrulega óvini á þessum slóðum og fjölgar því afar ört. - Hlýnandi loftslag er einnig sagt vera þeim hliðholt. Frá London hafa þeir breiðst út um allt suðaustur England, norður til Glasgow og alla leið vestur til Wales.
Skemmtilegar goðsagnir eða flökkusögur hafa orðið til um uppruna þessara litskrúðugu fugla (Psitacula krameri) í görðum Lundúna.
Sú vinsælasta segir að gítarhetjan Jimi Hendrix hafi sleppt lausu pari snemma á sjötta áratug síðustu aldar, til að hressa upp á gráa ásýnd borgarinnar með skærari og fjölbreyttari litum. -
Önnur saga segir að páfagaukarnir séu komnir af fuglum sem sluppu út úr Shepperton kvikmyndaverinu þegar John Ford var þar að leikstýra Katharine Hepburn og Humphrey Bogart í kvikmyndinni African Queen árið 1950.
Elstu heimildir um þessa tegund fugla í London eru samt frá 1855. Og líklegasta skýringin á uppruna þeirra er mun leiðinlegri en flökkusögurnar segja, eða að þeir hafi sloppið úr búrum fuglaræktenda, gæludýraverslana og af einkaheimilum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)