Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
2.7.2008 | 00:30
Af miðaldaviðhorfum til Apa
Mennirnir hafa gengið þessa jörð í einu eða öðru formi í tvær milljónir ára. Með fornleyfafræðinni getum við séð inn í heim fornmanna en lítið er vitað um hvernig þeir hugsuðu. Það eru aðeins rétt fimm þúsund ár síðan að við loks fórum að skrifa niður hvernig við sjáum umheiminn. Það er jafnframt ljóst að hugmyndir okkar um heiminn og hvernig hann er samansettur hafa breyst meira á síðustu 200 árum en þær hafa gert frá því að söguritun hófst.
Þegar við sjáum apa í dag sjá flestir líffræðilega fjarskyldan ættingja. Þróunarkenningin sem reyndar á birtingarafmæli um þessar mundir, kennir að annað hvort séu menn komnir af öpum eða að apar og menn eigi sér sameiginlegan forföður.
En hvað vissu menn um apa fyrir okkar tíma áður en við lærðum að beita vísindalegum aðferðum til að rannsaka þá og hegðun þeirra. Hvernig litum við á apa fyrir 2000 árum. Samkvæmt þeim heimildum sem mér eru kunnar var myndin eitthvað á þessa leið:Aapaynja elur ætíð tvíbura. Annan tvíburann elskar hún en hinn hatar hún . Þegar hún fer um, ber hún þann sem hún ann á örmum sínum, hinn verður að hanga á henni eftir bestu getu. Þegar að apaynjan er elt af veiðimanni, verður hún fljótt móð á hlaupunum með tvíburana báða á sér. Þegar húná á hættu að verða fönguð, sleppur hún unganum sem hún ann og bar á örum sér til að sleppa, en sá sem hún ekki hirti um heldur áfram að hanga á henni og verður hólpinn.
Til eru fimm tegundir apa. Hin fyrsta er kölluð cericopithicus og hefur sú rófu. Önnur hefur gróft hár og er kölluð sphinx. Hárið er óstrítt og ekki villt. Þriðja tegundin er cynocephalus, sem hefur höfuð eins og hundur og langa rófu. Fjórða tegundin er satyrus, sem er fjörug og hefur vingjarnlegt andlit. Fimmta tegundin er nefnd callitrix og hefur sú langt skegg á ílöngu fésinu og er með breiða rófu. Apar eru hamingjusamir þegar máninn er fullur en verða daprir þegar mánann þverr. Á jafndægri pissa þeir sjö sinnum. Apar eru sagðir vera skítugar og ljótar verur með hrukkótt fés. Sérstaklega er afturhluti þeirra hræðilegur.
Apinn er lagður að jöfnu við skrattann. Sagt er að hann sé eins og eins rófulaus api, að hann hafi höfuð en enga rófu og hafi fyrirgert henni að eilífu.
Heimildarmenn mínir eru þessir; Dæmisögur Esóps, Pliny Eldri, Ísadóra frá Seville og Richard de Fournival
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
30.6.2008 | 20:30
Súfismi og dansandi Dervisar
Einu sinni var kona sem heyrði um hinn himneska ávöxt. Hún þráði hann.
Hún spurði dervish einn, sem við getum kallað Sabar.
Hvernig get ég fundið þennan ávöxt svo ég öðlist þekkingu þegar í stað?
Best væri fyrir þig að leggja stund á nám hjá mér, svaraði hann. En ef þú vilt það ekki verður þú að ferðast um heiminn og una þér hvergi hvíldar uns þú finnur það sem þú þráir.
Hún yfirgaf Sabar, og leitaði að öðrum, Arif hinum vitra, síðan að þulnum Hakim og þá að vísindamanninum Halím og marga fleiri leitaði hún upp.
Þrjátíu ár liðu án þess að hún fyndi nokkuð. Loks kom hún að garði. Og í garðinum stóð tré himnaríkis og í greinum þess hékk hinn himneski ávöxtur.
Og standandi upp við tréð stóð dervisinn Sabar, sá er hún hafði fyrst leitað til.
Hversvegna sagðir þú mér þegar við hittumst fyrst að þú værir sá sem gættir hins himneska ávaxtar spurði hún.
Vegna þess að þú hefðir ekki trúað mér svaraði Sabar, og þar fyrir utan ber tréð ávexti á aðeins þrjátíu ára og þrjátíu daga fresti.
Þetta er saga sem er rakin til svo kallaðra Súfía. Súfíar eru dulspekingar sem tilheyra Íslam og dulspekin sjálf er kölluð súfismi. Dulspekin byggist á því að þótt Íslam kenni að allir séu á leið til að nálgast Guðs og muni vera með Honum á "drottins degi", trúa Súfíar að hægt sé að nálgast Hann á meðan við erum enn á lífi. Markmið þeirra er að geta sleppt öllum hugmyndum um aðskilnað, þar á meðal hugmyndinni um eigið sjálf, til þess að geta upplifað sameiningu við Guð.
Súfíum er kennt í litlum hópum sem Súfí meistari hefur tekið að sér. Þeir nota mikið dæmisögur og táknfræði í lærdómi sínum og halda því fram að þýðing alls sé aðeins skilin í gegnum sjálfskönnun og sjálfsþekkingu.
Þótt finna megi mismunandi áherslur í heimspeki þeirra eftir reglum, er fjallar allur Súfismi um hina persónulegu upplifanir og reynslu og sem slíkur er sambærilegur við aðrar tegundir dulhyggju.
Flestir kannast við hinna dansandi dervisa. Dervisi er annað nafn fyrir Súfía. Þessi siður að dansa í hringi uns þú fellur í trans var þróaður af Súfíum í Persíu. Í raun er þetta einskonar íhugunar aferð þar sem þeir reyna að yfirstíga sjálfið og mannlegar kenndir til að nálgast hið guðlega. Þeir segjast líkja eftir spuna himintunglanna og jafnvel atómanna með hringdansi sínum og þannig túlka bæði micro og macrokosmos í senn.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
29.6.2008 | 23:45
Andadansinn og Undað Hné
Eftir 1890 þegar að ljóst var að hvíta manninum hafði tekist að sölsa undir sig lendur Indíána í Norður Ameríku fyrir fullt og allt, flæma þá sjálfa frá lendum sínum í sérlendur eða hreint út drepa þá, varð til skammvinn andspyrnuhreyfing meðal Indíána, einskonar dauðkippur menningar þeirra sem var í þann mund að hverfa. Hreyfingin var kölluð Andadans. (Ghost Dance) Upphafsmaður Andadansins hét Wovoka og var af ættbálki Paiuta Indíána. Hann fékk einhverskonar vitrun eða köllun sem hann birti Indíánaþjóðum samnkomnum á þjóðamóti í Nevada í eftirfarandi bréfi.
Nevada, Ágúst 1891
Þegar þið komið heim verðið þið að dansa stanslaust í fimm daga. Dansið í fjórar nætur og að morgni fimmta dag baðið ykkur í ánni og yfirgefið síðan heimili ykkar. Allir verða að gera það sama.
Ég Jack Wilson (Nafn sem hvítir gáfu Wovoka) elska ykkur öll og hjarta mitt er fullt af gleði vegna gjafanna sem þið gáfuð mér. Þegar þið komið heim mun ég gefa ykkur góð ský sem mun láta ykkur líða vel. Ég mun gefa ykkur góðan anda og ég mun gefa ykkur góðan farða. Ég vil að þið komið til baka eftir þrjá mánuði, einhverjir frá hverjum ættbálki. Þetta árið mun verða talsverður snjór og einhver rigning. Í haust mun verða slík rigning að annað eins hefur aldrei sést.
Afi segir; þegar að vinir þínir deyja, máttu ekki gráta. Þú mátt ekki meiða nokkurn mann eða gera nokkrum mein. Gerið ætíð rétt. Ég mun gefa ykkur fullnægju í lífinu. Þessi ungi maður á góðan föður og góða móður.
Segið ekki hvíta fólkinu frá þessu. Kristur gengur nú á jörðinni. Hann kom líkt og ský. Hinir dauðu hafa risið. Ég veit ekki hvenær þeir verða hér, kannski í haust eða með vorinu. Þegar tíminn kemur munu verða meiri veikindi og allir verða ungir aftur.
Ekki neita að vinna fyrir hina hvítu og ekki valda neinum vandræðum á meðan þú dvelur á meðal þeirra. Þegar jörðina skekur, óttastu ekki. Hún mun ekki skaða þig.
Ég vil að þið dansið á sex vikna fresti. Gjörið ykkur glaðan dag, dansið og gjörið mat svo allir megi matast. Baðið ykkur síðan í vatni. Þetta er allt. Þið munuð fá góð orð frá mér einhvern tíman aftur. Ekki ljúga.
Wovoka.
Þegar að þessi boðskapur fór að breiðast út breyttist hann fljótlega í meðförum Indíána og ekki hvað síst á meðal hvítra. Útkoman var sú að Wokova var álitin boða endalok heimsins, jörðin mundi farast og ný jörð rísa úr sæ ekki ólíkt því sem lýst er í hinni íslensku Völuspá. Hvíti maðurinn mundi farsat undir fimm mannhæða háu aurflóði og Indíánarnir mundu erfa jörðina. Buffalóarnir og Antilópurnar mundu snúa aftur og forgengnir forfeður þeirra mundu ganga jörðin aftur sem yrði frí af sjúkdómum, sulti og ofbeldi. Paradís á jörð eins og margir kristnir sáu hana, nema að í henni voru engir kristnir, aðeins Indíánar.
Sagt var að sýn Wovoka hefði birst honum þegar sólmyrkvi gekk yfir landið og jafnframt þjáðist hann af mikilli hitasótt. Til þess að þessi heimsendi gæti átt sér stað yrðu Indíánar að hreinsa sig af öllu illu, (sérstaklega alkahóli hvíta mannsins) og iðka heiðarleika og frið á milli sín sjálfra innbyrðis og líka gagnvart hvíta manninum.
Þeir sem stjórnuðu sérlendum Indíána vítt og breitt um Bandaríkin stóð ógn af þessum nýfundna eldmóð Indíána. Þrátt fyrir að boðskapur Indíána dansins hafi verið að grunni til friðsamlegur sáu þeir hann sem "villtan og brjálaðan" og kvöddu til hermenn til verndar landnemum í grennd við sérlendurnar. Þegar að Sitjandi Uxi einn af virtustu leiðtogum Indíána og mikil stríðshetja gerðist andadansari, leist hernum ekki á blikuna. Þegar þeir reyndu að handtaka Sitjandi Uxa, nokkru eftir að hann hafði tekið þátt í sínum fyrsta andadans, veitti hann mótspyrnu og var drepinn umsvifalaust. Fylgjendur hans flýðu til Pine Ridge Sérlendunnar undir þaðan sem þeir vörðust hernum undirstjórn Stóra Fótar höfðingja. Þar voru þeir handteknir og færðir til Undaðs Hnés.
Daginn eftir komuna þangað eða 29. Desember 1890 fyrirskipaði herinn að Indíánar skyldu afhenda öll vopn sín til eyðileggingar. Guli Fugl græðari hvatti til andspyrnu og sagði að skyrtur andadans-manna væru nú orðnar skotheldar. Svarti Sléttuhundur og menn hans trúðu þessu og neituðu að afhenda vopn sín. Hleyptu þeir af riffli í gáleysi sem varð til þess að riddaraliðið hóf skothríð á Indíánabúðirnar. Á skömmum tíma feldu þeir 250 Indíána, þar á meðal fjölda kvenna og barna.
Tveimur vikum eftir fjöldamorðin við Undað Hné gáfust allir andadansarar sem eftir voru upp fyrir hernum. Flestir Indíánar sáu þá andadansinn sem síðustu tilraun sína til að bjarga menningu sinni og frelsi. Í dag eru kenningar Afa gamla Wovoka, varðveittar meðal Peyote Indíána.
Þessu greinarkorni fylgja nokkrar myndir, bæði málverk eða teikningar af því hvernig hvíti maðurinn ímyndaði andadansinn og svo ljósmyndir sem sýna hvernig hann fór fram í raun og veru.
Ég rifjaði upp þessa atburði þegar ég horfði á tónleika Bjarkar og Sigurrósar (á netinu) og fannst allt í einu einu að ég skildi vonlausa stöðu náttúrusinna gagnvart auðvaldi og efnishyggju.
28.6.2008 | 15:39
Fegurð
Réttlæti, sannleikur og fegurð eru systur og félagar. Þessi þrjú fögru orð gerir leit að öðrum orðum óþarfa. ~ Simone Weil~
Það þýðir ekki að dvelja stöðugt við skuggahliðar lífsins. Áður en varir er maður farinn að nöldra og bölsótast út í allt og alla. Hér fann ég eitthvað fallegt fyrir sjálfan mig og alla sem vilja, að hugsa um og horfa á.
Fegurð er ekki í andlitinu, fegurð er ljós í hjartanu ~ Kahlil Gibran~
Sál sem sér fegurð gengur stundum ein. ~Johann von Goeth ~
Fegurstu hlutina í heiminum er ekki hægt að sjá eða snerta. Þá verður að finna með hjartanu. ~Hellen Keller ~
Allir þarfnast fegurðar jafnt og brauð, stað til að biðja á þar sem náttúran getur læknað og gefið líkama og sál styrk. ~John Muir~
Við flýjum á flýjum á vit fegurðarinnar sem er okkur skjól frá hryllingi takmarkaðrar náttúru. ~Emerson, Journals, 1836
Hversu einkennileg skynvilla að halda fegruð gæsku.~Tolstoy~
Það fegursta sem við upplifum er hið dulræna. Það er uppspretta allrar sannar listar og allra vísinda. Hver sá sem ekki þekkir þessa tilfinningu, sá sem ekki getur lengur staðið agndofa af aðdáun, sem svo gott sem dauður: augu hans eru lokuð. ~Albert Einstein ~
Fegurð er eilífðin að horfa á sig í spegli. ~Kahlil Gibran~
Fegurð og kjánaskapur eru gamlir félagar
~Ben Franklin ~
Ástin á fegurð í öllum mögulegum formum er göfugasta gjöf mannlegra heilahvela.~Alexis Carrel ~
Látum fegurðina sem við elskum vera það sem við gerum.
~Rumi ~
Haltu trúnað þinn við alla fagra hluti, sólina þegar hún sést ekki, vorið þegar það er liðið ~Roy R. Gilson ~
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
26.6.2008 | 19:19
Aftökur í Kína - Ath.Myndir ekki fyrir viðkvæma
Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna vestrænar þjóðir, Ísland þar á meðal, kjósa að meðtaka Kína nánast athugasemdalaust inn í samfélag siðmenntaðra þjóða á meðan fjölda-aftökur fólks sem lítið sem ekkert hefur sér til saka unnið, viðgangast þar.
Hafi sú ákvörðun að verðlauna Kína með því að fá þá til að halda ólympíuleikanna í ár, átt að stuðla að opinni umræðu og jafnvel einhverjum tilslökunum í mannréttindamálum þeirra, sjást þess engin merki enn sem komið er.
Árið 2006 voru 1010 manns teknir af lífi í Kína og 2790 manns var dæmt til dauða. Sum manréttindasamtök segja þá tölu vera umtalsvert hærri eða allt að 8000 manns.
Fjöldaaftökurnar fara fram með þeim hætti að hópnum er ekið afsíðis, að opinni fjöldagröf, böðlarnir segja fólkinu að opna muninn svo skotið fari örugglega í gegn þegar hleypt er af í hnakkagrófina. Þeir sem neita að opna muninn er gefin "dauðasprauta".
Fólkið hefur sumt verið dæmt fyrir afbrot sem mundu á vesturlöndum varða sektum eða fáeinna daga fangelsun, eins og að höggva niður tré eða stela farsímum.
Engin efast lengur um að Kína er að verða voldugasta ríki heimsins frá efnahagslegu sjónarmiði. Athugaðu hvernig heimili þitt mundi líta út ef þú tækir í burtu allt það sem búið er til í Kína.
Kína eykur umsvif sín í Afríku og suður Ameríku með hverju degi sem líður og heldur verndarhendi yfir mannréttindabrotum þeirra landa sem þeir eiga viðskipti við.
Getuleysi Vesturlanda til að hafa áhrif á stjórnvöld þeirra landa sem verstu mannréttindabrotin fremja virðist algjört. Enda eru þau vel flest búin að selja Peking sálu sína fyrir ódýrar afurðir og aðgang að mörkuðum þeirra. - Er eins um okkur?
Hvers vegna styðjum við Íslendingar Kína með þátttöku í þessu sjónarspili sem ólympíuleikarnir eru þeim? Allt stefnir í að ólympíuleikarnir verði stjórnvöldum í Kína ekki minni áróðursherferð en þeir voru Hitler árið 1936.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (51)
26.6.2008 | 16:11
Tilberar og tíðablóð
Þegar ég var að alast upp á Snæfellsnesi hékk ég öllum stundum í jakkalafi afa míns. Ég var á spyrjaísífelluánþessaðandatímabilinu þegar ekkert er svo ómerkilegt að ekki megi spyrja um það. Eitt sinn tók ég eftir hvítri skán á steinum sem erfitt var að skafa af. Aðspurður sagði afi að þetta væri tilberaspýja. Ég lét þetta svar nægja um sinn þótt ég vissi hvorki hvað tilberi eða spýja væri.
Seinna þegar ég las mig til um fyrirbærið og þótti mér það athyglisvert af ýmsum ástæðum. Hvernig verða svona þjóðsögur til?
Nú hefur því verið haldið fram að trú íslendinga á huldufólk hafi komið til og síðan verið viðhaldið af þörf okkar til að halda friðinn þar sem við hírðumst fjölmenn (miðað við húsakost) í þröngum baðstofum þar sem náin umgengni var ekki umflúin. Ef að smáhlutur hvarf, var ekki ráðlegt að þjófkenna heimilisfólkið heldur lýsa því yfir að huldukonan eða huldumaðurinn í hólnum fyrir utan garð hefði fengið hann lánaðan. Oftar en ekki var hlutnum skilað aftur og allt féll í ljúfa löð. Þá reyndist nauðsynlegt að feðra sum börn með huldumönnum til að rýrð félli ekki á húsbóndann eða fyrirmanninn sem fékk að gista. Ef að skýra þurfti óeðlilega nytjarýrnun kúa, voru tilberar góðir blórabögglar. Þá þurfti ekki að skyggnast neitt lengra eða leita eftir einhverju mennsku sem saug kýrnar á laun.
Fyrir nokkrum árum var ég með hóp af útlendingum í skoðunarferð um Suðurland og hitti þá konu á Geysi sem var að nema Þjóðháttafræði í HÍ. Einhvern veginn komu tilberar til tals og hafði þessi kona, sem ég man því miður ekki hvað heitir, ákveðna skoðun á uppruna þeirra. Sagði hún líklegt að hjátrúin hefði orðið til þegar að konur til forna notuðu rifbein vafið ull á sama hátt og konur í dag nota dömubyndi. Rifbeinið væri þannig lagað að það hefði hentað til þessa brúks og svo hefðu karlmenn sem ætíð hafa haft einhvern óskiljanlegan stugg af tíðablóði, (sem er nú alveg efni í sérblogg og kannski áhugaverðara en þetta) séð gjörninginn og búið til hryllingssögu úr öllu saman. Þetta finnst mér í dag afar líkleg skýring þótt ég hafi hvergi heyrt hana annarsstaðar.
Á vef Galdrasýningarinnar á Ströndum fann é eftirfarandi lýsingu á tilbera.
Tilberi er þannig til orðinn að kona stelur rifbeini úr dauðum manni í kirkjugarði á hvítasunnumorgni og vefur það síðan grárri sauðarull svo það verði að öllu útliti sem ullarvindill, og lætur það liggja um hríð milli brjósta sér. Þannig útbúin fer hún til altaris þrjá sunnudaga í röð og dreypir í hvert sinn víni því hún bergir á tilberaefnið með því að spýta því út úr sér í barm sér og í kjaftinn á tilberanum.
Hið fyrsta sinni er konan dreypir á tilberann þá liggur hann grafkyrr. Í annað sinn hreyfist hann og hið þriðja sinni er hún dreypir á hann verður hann fullmagnaður og svo fjörmikill að hætta er á að hann spretti fram úr barmi hennar. Þær konur máttu gjalda hinn mesta varhug við að ekki kæmist upp um þær, því þá réð snakkurinn þeim bráðan bana.
Þegar tilberinn er orðinn fullmagnaður þá þolir konan hann ekki lengur á brjósti sér. Vökvar hún sér þá blóð innanlæris og gerir þar sepa á og lætur hann sjúga sig þar fastann. Þar lifir hann og nærist á blóði konunnar ávallt meðan hann er heima. Tilberamæður þekkjast á því að þær eru haltar og hafa blóðrauða vörtu líka spena innanlæris.
Tilberann notuðu konurnar til að sjúga ær og kýr annarra manna úti um haga og færa þannig björg í bú. Þeir koma svo á búrglugga móður sinnar á meðan hún skekur strokkinn og segja:
Fullur beli, mamma.
Þá tekur konan lokið af strokknum og segir:
Gubbaðu í strokkinn, stráki.
Ælir þá tilberinn öllu því er hann hefur sogið þann daginn ofan í strokk móður sinnar og verður þar af tilberasmjör.
Tilberar voru notaðir til annars en að sjúga málnytpening og stela mjólk. Þeir voru einnig hafðir til að stela ull og vöfðu þeir þá ullinni utan um sig.Þegar tilberamóðir eldist og lýist þá gengur tilberinn svo nærri henni að hún þolir ekki að láta hann sjúga sig lengur í gegnum lærspenann. Sendir hún hann þá upp á fjöll og skipar honum að tína saman öll lambaspörð á þremur afréttum. Tilberinn vill allt til vinna að komast sem fyrst til móður sinnar aftur og sprengir sig á því. Hafa menn talið það til sanninda, að oft hafi fundist mannsrif við lambasparðahrúgur á fjöllum uppi.
Tilberar eru ákaflega fljótir og þjóta yfir holt og hæðir. Sýnast þeir þá ýmist velta líkt og bolti, ellegar þeir stingast á endum.
Ætla má að konur á Ströndum hafi eitthvað átt við að koma sér upp tilbera því menn þar um slóðir hafa talið sig séð tilbera á ferð á fjöllum uppi.
26.6.2008 | 12:08
Fjallkonur allra landa sameinist
Fyrst ég fór að hugsa um fjöll, leiddi það hugann ósjálfrátt að hlutum þeim tengdum. Íslenska fjallkonan var alltaf dálítið dularfull fannst mér. Maður skildi ekki hvernig hún gat búið í fjöllunum ásamt Grýlu og Leppalúða og öllu því hyski. Vitanlega misskildi maður þetta alltsaman. Það hefði verið betra að vita að hún er eiginlega útlensk eftirherma, eða hvað haldið þið?
Fjallkonan er tákn eða kvengervingur Íslands. Kona kom fyrst fram sem kvengervingur landsins í kvæði Eggerts Ólafssonar, Ofsjónir 1752, en Fjallkonan var fyrst nefnd í kvæði Bjarna Thorarensen, Eldgamla Ísafold, og hefur verið algengt tákn í íslenskum skáldskap síðan. Elsta prentaða mynd af Fjallkonunni birtist í enskri þýðingu íslenskra þjóðsagna, Icelandic Legends (1864-1866), og þekkt er mynd Benedikts Sveinbjarnarsonar Gröndal á minningarspjaldi um þjóðhátíðina 1874. Kona í gervi Fjallkonunnar kom fyrst fram á íslendingadeginum í Winnipeg í Kanada 1924 og eftir lýðveldisstofnun á Íslandi 1944 hefur kona í skautbúningi jafnan flutt fjallkonuljóð við hátíðahöld 17. júní.(Tekið af WP)
Konumyndin á að tákna Ísland, því hefur hún ískórónu á höfði, sem eldar gjósa upp úr. Á öxl hennar er hrafninn, Íslands einkennilegasti fugl, Óðins forni vin og skáldanna eftirlætisgoð, fréttafugl mikill og margkunnugur. Yfir sjónum flögrar már, en yfir brimsævi tíma og sögu berast rúnakefli að landi eða upp í fang konunni, og hefur hún þegar náð einu þeirra. Þetta átti svo sem að vera symbolum (tákn) bókmenntalandsins og sögulandsins okkar. Yfir er nótt og stirndur himinn og máninn uppi. Á bak við eru fjöll, tunglroðin á eggjunum.
Mörgum hefur þótt sem fjallkona Zweckers bæri nokkurn svip af Viktoríu Englandsdrottningu sem um þetta leyti mátti vissulega kallast Drottningin með stórum staf í Evrópu.
(tekið af Háskólavefnum)
Hér fyrir neðan eru myndir af þjóðkonum annarra landa. Helvetika (Svissland) Germanía (Þýskaland) Britanía (Bretland) Liberty (Frakkland) Frelsisgyðjan (USA) Hibernía (Írland) Pólanía(Pólland) og loks Sáma Frænka (USA
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
24.6.2008 | 14:52
Fjöll
Hér um slóðir (suður England) eru fá fjöll að finna. Landslagið er auðvelt fyrir augað, líðandi hæðir og hólar, ásar og kambar en engin alvöru fjöll. Alla vega ekki eins og augun rembast við að meðtaka hvar sem þú ert staddur á Íslandi. Hvergi þessir stóru dalir á hvolfi eins og skáldið orðaði það. Ég held að allir íslendingar elski fjöll. Maður tarf ekki að vera með neina króníska fjalladellu til þess, okkur þykir einfaldlega vænt um fjöllin.
Kannski er það vegna þess að við horfum á þau verða til eins og t.d. Heklu sem er enn að stækka og hækka. Eða kannski er það vegna þess að þú eru svo táknræn fyrir líf okkar, þetta söðuga ströggl upp á móti við að komast af, eða klífa tindinn eins nú þykir best. Öll okkar bestu skáld yrkja um fjöll og allir listmálarar mála þau. Flest gallerí á Íslandi eru full af mismunandi góðum tilraunum til að fanga þau á striga. Sumir mála sama fjallið aftur og aftur eins og Stórval gerði.
það er líka eitthvað svo himneskt við fjöllin.
Þeir sem dveljast á fjöllum langdvölum fá á augun fjarrænt augnaráð eins og þeir séu ekki allir þar sem þeir eru séðir. Það er ekki að furða að þjóðirnar sem fyrstar þróuðu með sér hugmyndina af guðum töldu heimili þeirra vera á fjallstindum. Ólympus er gott dæmi um það. Seinna þegar mennirnir fóru að trúa á einn Guð, birtist hann þeim upp á fjalli eins og gerðist þegar Móses fékk boðorðin frá honum forðum.
Ef til vill eru hugmyndir okkar um andlegt upp og niður, himnaríki og helvíti grundvallaðar á upplifun okkar af fjöllum. Þar erum við eins frjáls og hægt er að vera, hugurinn eins skýr og mögulegt er og við verðum eins vídsýn og við ættum að vera á jafnsléttu.
Alla vega sakna ég fjalla.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
23.6.2008 | 18:11
Um Biblíu, kynþáttafordóma og risaeðlur
Stundum þegar Biblían er lesin koma fyrir ritningagreinar sem gera manni erfitt að greina á milli þess sem á að taka bókstaflega og þess sem hefur symbólíska merkingu. Sú staðreynd að Biblían er þýdd á íslensku og tekur greinilega lit af íslenskri menningu, getur líka ruglað dæmið. Sem dæmi er hægt að taka þetta vers úr Jobsbók 40.
Sjá, nykurinn sem ég hefi skapað eins og þig,
- hann etur gras eins og naut.
- 16 Sjá, kraftur hans er í lendum hans
- og afl hans í kviðvöðvunum.
- 17 Hann sperrir upp stertinn eins og sedrustré,
- lærissinar hans eru ofnar saman.
- 18 Leggir hans eru eirpípur,
- beinin eins og járnstafur.
- 19 Hann er frumgróði Guðs verka,
- sá er skóp hann, gaf honum sverð hans.
- 20 Fjöllin láta honum grasbeit í té,
- og þar leika sér dýr merkurinnar.
- 21 Hann liggur undir lótusrunnum
- í skjóli við reyr og sef.
- 22 Lótusrunnarnir breiða skugga yfir hann,
- lækjarpílviðirnir lykja um hann.
- 23 Sjá, þegar vöxtur kemur í ána, skelfist hann ekki,
- hann er óhultur, þótt fljót belji á skolti hans.
- 24 Getur nokkur veitt hann með því að ganga framan að honum,
- getur nokkur dregið taug gegnum nasir hans?
Þegar ég fór að leita að skilgreiningu á Nykri fann ég þess lýsingu á vef Þjóðfræðifélagsins Nykur.
Úfrá þjóðfræðilegu sjónarhorni og kennslufræðilegu er álit höfundar að nykurinn sé fyrst og fremst sprottin til sem vætt í þjóðsögum okkar og sögnum. Þá sem forvarnargildi gagnvart börnum sem sáu hesta við læki, tjarnir eða ár og vildu fara að klappa þeim eða fara á bak. Þetta var vissulega hættulegt og geta annálar þess að þó nokkur slys hafi hlotist sökum drukknunar barna rétt við heimabæ sinn. Helstu einkenni nykursins eiga að vera þau að hann er talinn grænslímugur eða gráleitur, með hófana snúandi aftur og faxið sömuleiðis. Hann dregur menn eða börn ofan í vatnið sem hann lifir í og drekkir þannig viðkomandi.
Í Enskri útgáfu Biblíunnar sé ég að þeir notast við upphaflega orðið Behemoth eða Behemot. Ekkert slíkt dýr er til né hafa varðveitst einhverjar aðrar lýsingar á því svo vitað sé.
Í raun á lýsing skepnunnar í Jobsbók ekkert skylt við Nykur en er miklu nær lýsingu á forsögulegu dýri eins og Þórseðlu eða Apatosaurus. Víst er að risaeðlurnar voru löngu útdauðar þegar Jobsbók var rituð en að sögurnar um stóru dýrin hafi lifað með manninum og ratað inn í Jobsbók þanning, er alltaf möguleiki.
Kynþáttafordómar í Biblíunni
Það kemur kannski ekki á óvart, miðað við hversu skammt við erum sjálf komin á leið til fullkomins jafnréttis og fordómaleysis að finna setningar í Biblíunni sem túlka má sem örgustu kynþáttafordóma. Tilgangurinn með að benda á þetta er að sýna hvernig gamlir trúartextar hafa tekið á sig lit og áferð menningarheimsins sem þeir eru sprottinir úr.
Í Gamla testamentinu, Jeramía 13:23 segir svo;
Getur blámaður breytt hörundslit sínum eða pardusdýrið flekkjum sínum? Ef svo væri munduð þér og megna að breyta vel, þér sem vanist hafið að gjöra illt.
Það sem hér er þýtt "blámaður" er væntanlega á frummálinu Cushite eða Eþíópíumaður.
Eitthvað virðist fólki GT hafa upp á Eþíópíumenn að klaga því jafnvel Móses sem giftist konu frá Eþíópíu varð fyrir barðinu á þessum fordómum. Í fjórðu Mósebók 12:1 segir svo;
1Mirjam og Aron mæltu í gegn Móse vegna blálensku konunnar, er hann hafði gengið að eiga, því að hann hafði gengið að eiga blálenska konu. 2Og þau sögðu: "Hefir Drottinn aðeins talað við Móse? Hefir hann ekki talað við okkur líka?" Og Drottinn heyrði það. 3En maðurinn Móse var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.
Þá eru einnig dæmi um það í Nýja Testamentinu hversu fordómar gagnvart öðrum þjóðum voru tíðir. Í Títusarbréfi 1:12 er að finna eftirfarandi upplýsandi tilvitnun.
Því að margir eru þverbrotnir og fara með hégómamál og leiða í villu, allra helst eru það þeir sem halda fram umskurn, 11og verður að þagga niður í þeim. Það eru mennirnir, sem kollvarpa heilum heimilum, er þeir kenna það, sem eigi á að kenna, fyrir svívirðilegs gróða sakir.
12Einhver af þeim, eigin spámaður þeirra, hefur svo að orði komist: "Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar."
13Þessi vitnisburður er sannur. Fyrir þá sök skalt þú vanda harðlega um við þá, til þess að þeir verði heilbrigðir í trúnni, 14og gefi sig ekki að gyðingaævintýrum og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum.
15Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska. 16Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.
Að lokum þetta svona til gamans og alls óskylt fordómum af neinu tagi
Í Postulasögunni 9:10 &11 er sagt frá þessu;
11Drottinn sagði við hann: "Far þegar í stræti það, sem kallað er Hið beina,og í húsi Júdasar skaltu spyrja eftir manni frá Tarsus, er heitir Sál. Hann er að biðja. 12Og hann hefur í sýn séð mann, Ananías að nafni, koma inn og leggja hendur yfir sig, til þess að hann fái aftur sjón."
Enn í dag er gata í borginni Damaskus í Sýrlandi sem heitir "beina stræti" eða Hið beina.
Trúmál og siðferði | Breytt 24.6.2008 kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
21.6.2008 | 02:32
Frí-hlaup
Á uppvaxtarárunum í Keflavík var það vinsæl dægradvöl mín og félaga minna að klífa stillansa og lesa sig upp steypuvíra utan á hálfbyggðum byggingum sem meira en nóg var af á þeim tíma. Þá var stokkið ofan af húsþökum, riðlast á girðingum og sveiflað sér á snúrustaurum og handriðum. Þá sóttumst við eftir að komast í veiðafærageymslur, verksmiðjuloft og jafnvel báta sem stóðu á búkkum niður í gamla slippnum. Einhvernvegin lagðist þessi árátta samt af að mestu um leið og við lukum barnaskólanum.
Nú sé ég að hálf fullorðnir menn víðsvegar um heiminn hafa tekið þessa bæja og borga iðju okkar smádrengjanna og gert að alþjóðlegri íþróttagrein. Hún kallast á alþjóðamálinu Free running. Haldin eru mót í helstu heimsborgunum og keppt í klifri og glæfra stökkum um metorð og titla. Íþróttin varð fræg þegar að nokkrir iðkendur hennar voru notaðir í James Bond mynd fyrir nokkrum árum en síðan hefur hópur þeirra vaxið jafnt og þétt. Ég veit ekki til að frí-hlaup sé stundað á Íslandi en ef svo er væri gaman að heyra af því.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 02:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)