Eiga sprangið og íslenska glíman heima á heimsminjaskrá?

3188686950_58d6b0eaffÞegar ég vann sem leiðsögumaður í Vestmannaeyjum, fór ég með ófáa hópa af skólakrökkum víðs vegar af landinu í útsýnisferðir um Heimaey. Einn af viðkomustöðum okkar var undantekningarlaust Sprangan undir Skiphellum þar sem ungt eyjafólk lærir að klifra í klettum og sveifla sér í kaðli.

Á tungumáli "innfæddra" kallast þetta "sprang“.  Misháar syllur eru í bjarginu, allt frá „almenningi“ og upp í „gras" eða "tó".  

Margir úr hópunum spreyttu sig á að klifra upp í lægstu sylluna og spranga út frá henni sem tókst misjafnlega, enda sprang ekki auðveld íþrótt.

Einn hópur sem ég man eftir bar þó af öllum öðrum hvað leikni í kaðlinum varðaði. Þegar ég spurði hvers vegna þau virtust kunna svona vel til verka, svöruðu þau að flest þeirra væru frá Rifi og Sandi á Snæfellsnesi og skammt þar frá væru Gufuskálar.

Að Gufuskálum væri mikið og hátt mastur og utan í því hefðu þau oft sveiflað sér á reipi. Ég kannaðist vitskuld við Loren C mastrið á Gufuskálum sem lengi var sagt hæsta mannvirki á Íslandi og er það kannski enn. 

esja-_glimaMér datt þetta í hug þegar ég las fréttina sem ég tengi hér við, því trúlega hafa krakkarnir frá Snæfellsnesi snúið sér á alla kanta á reipinu eins og indíánarnir gerðu forðum suður í Mexíkó og sýnt er á meðfylgjandi myndskeiði.

Annað sem einnig kom upp í hugann er hvort ekki sé ástæða til að koma Sprangi inn á þessa ágætu heimsminjaskrá fyrir þjóðhætti sem eru í hættu að leggjast af og gleymast.

Ég veit ekki hvað það eru margir sem kunna þá list svo vel sé, en flestir eiga þeir eflaust heima í Vestmannaeyjum.

Auðvitað má segja að viss tegund af sprangi lifi góðu lífi meðal þeirra milljóna í heiminum sem stunda fjallaklifur. En búnaður til klifurs hefur mikið breyst frá því sem var og miðað við það eitt er varla hægt að segja að um sömu íþrótt sé að ræða.

Þá mætti einnig huga að í þessu sambandi hinni íslensku glímu. Ég veit að enn eru íþróttafélög sem leggja stund á glímuna, en tilfinning mín segir mér að þeim fari fækkandi.


mbl.is Guðadans á heimsminjaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Svanur , það er gaman að lesa þennan pistil þinn um sprönguna í Eyjum, þetta er það sem menn  minnast hvað oftast á eftir veru sína í Eyjum. Það er mismunadi hvað peyjarnir í Eyjum voru og eru flínkir að spranga. Flestir byrja á barnasteini siðan er það almenningur sem í raun allir geta sprangað frá ef þeir kunna á annað borð að spranga, síðan kemur stigvél, þá sylla, og síðan gras. (Yngri menn tala um einn stað enn sem er milli syllu og gras og kallaður er Hebbatá) Þá var steinn sem byrendur gátu lent á og meitt sig sá steinn var fyrir miðri spröngu og hét Djöflasteinn, mér skilst að hann hafi verið tekinn fyrir nokkrum áru. Þeir alhörðustu í spranginu sprönguðu af bjargbrúninni sunnan meginn en þeir voru örfáir í mínu ungdæmi, eg man aðeins eftir tveimur strákum sem þorðu að spranga þaðan.

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 15.10.2009 kl. 21:30

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Sigmar. Þetta var aldeilis mikil og góð viðbót. Mig vantaði alveg öll nöfnin á sprnagstaðina sem þú ert með á hreinu. Þakka þér kærlega.

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.10.2009 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband