Krissy Wood - Smá eftirmáli við skúbbið

Í gær brá ég mér af bæ og heimsótti hjón sem ég þekki lítillega og búa í nærliggjandi smábæ. (Bradford on Avon) Þar voru samankomnir á heimili hjónanna nokkrir af vinum þeirra sem ég hafði aldrei hitt áður.  

Þegar líða tók á kvöldið kom að tali við við maður sem kynnti sig sem Tom. Kvaðst Tom þessi hafa starfað mikið með þekktum hljómsveitum hér í Bretlandi, aðallega sem sviðsmaður og m.a. tekið þátt í að setja saman hið fræga svið sem Pink Floyd notaði í hljómleikaferð sinni The Wall. Mér varð á að minnast á að ég hefði hitt fyrir tilviljun Ronnie Wood á dögunum og við það viðraðist Tom allur upp og sagðist hafa þekkt vel fyrri konu Ronnies, Kryssy Wood sem lést 2005 langt um aldur fram. Hann lét gamminn geysa langt fram eftir kvöldi og hafði frá mörgu að segja.

Þegar hann loks kvaddi og fór, kom húsfreyjan til mín og sagðist hafa heyrt ávæning af samræðum okkar. Hún sagði jafnframt að Tom þessi hefði verið grunaður um að vera sá sem "skaffaði" Krissy Wood valíum töflurnar sem drógu hana til dauða eftir að hún hafði tekið þær inn í ómældu magni. - Þetta varð til þess að ég fór að leita mér frekari upplýsinga um Krissy og það sem ég komst að er svo furðulegt og lærdómsríkt að ég má til með að deila því með ykkur.

woods

Fyrirsætan Krissy Wood var heimsfræg hljómsveitafylgja (groupía) og eiginkona Ronnie Wood gítarleikara Rolling Stone, dó í skugga fremur villtrar fortíðar sinnar. Hún er ekki eina konan sem skilin hefur verið eftir drukknandi í kjölfari hljómsveitarinnar. 

Eins og allir fágætir fuglar, missa  rokkstelpur líka að lokum fjaðrir sínar. Og þegar það gerist, fylgir allt annað á eftir, auður,orðstýr, vinir, og sjálfsvirðingin. - Þannig var með Krissy Wood.
Hún var ein af þessum alvöru hljómsveitafylgjum og meðal ástsveina hennar voru tveir Bítlar, gítarleikari Led Zeppelin og svo giftist hún Stónsara. En þegar hún dó aðeins 57 ára að aldri vegna oftöku á Valíum töflum, var hún fátæk og slitin kona. Konan sem átt hafði vingott við Eric Clapton, Georg Harrison, John Lennon,og Jimmy Page og gift Ronnie Wood, þurfti að sjá fyrir sér með að selja persónulega minjagripi sína og vinna í matvöruverslun.
Því miður fyrir Krissy sem margir telja hina upprunalegu grúpíu (og þá sem flesta fræga menn ku hafa sængað hjá) - höfðu aðstæður hennar versnað til muna frá þeim tímum er hún flaug til Portúgal eða  New York eftir því sem vindurinn blés og víman sagði til um. Hún fékk rétt 200 pund á viku í lífeyri frá Ronnie sem sagðist ekki hafa efni á meira vegna slæmra fjárfestinga sinna. 
Kannski eru 200 pund ekkert til að frýsa við, en samt langur vegur frá því sem hún átti að venjast þegar hún var gift meðlim ríkustu rokkhljómsveitar allra tíma. Skömmu fyrir dauða sinn var hún að reyna að selja íbúðina sem hún bjó í í Richmond og flytja til Jesse sonar síns sem hún átti með Ronnie. Hún hugleiddi einnig að selja Gibson gítarinn fræga sem Ronnie samdi mörg af frægustu lögum sínum á allt frá því að hann spilaði með Samall Faces (seinna Faces).

Krissy byrjaði á toppnum; hún sagðist hafa tapað meydóminum á sófa mömmu sinnar í Ealing með Eric Clapton. Þá hét hún Krissy Findley og kom úr strangtrúaðri Rómversk-kaþólskri fjölskyldu, gekk í skóla sem heitir Gregg Grammar og þótti gaman að dansa og hlusta á hljómsveitir.  
Hún var aðeins 16 ára þegar hún hitti Ronnie Wood árið 1964. Hún var grönn, ljóshærð og viðkvæm og ljósvakaleg fegurð hennar átti vel við anda tímanna sem í hönd fóru. Hún fékk fljótlega að reyna sig sem fyrirsæta og starfaði við það á meðan Ronnie spilaði með Small Faces. Þau giftu sig árið 1971.
woods1

Munmælasagan segir að hún hafi verið ábyrg fyrir því að Ronnie fór að spila með Stones. Kvöld eitt kom hún heim úr klúbbi í London með Keith Richard í eftirdragi. Hún kynnti hann fyrir Ronnie og þeir byrjuðu að semja saman. 1974 fóru Stones í hljómleikaferð og þá tóku þeir Ronnie með sér.
Einnig er sagt að innblásturinn við samningu lagana  Mystifies Me og Breathe On Me, eftir Ronnie, hafi komið frá Krissy.
Eftir að Ronnie hóf að leika með Stones urðu hlutirnir flóknari og fengu á sig meiri losarabrag á milli þeirra hjóna. Peningarnir streymdu inn og þau keyptu sér höll í Richmond og þau höfðu greiðan aðgang að háaðli rokksins. Þau höfðu einnig meiri tíma til að láta sér leiðast og sækja skemmtanir hvar sem þær var að finna. 

Ári 1975 var Krissy ákærð í Kingston Crown Court fyrir að neyta kókaíns. Eftir það hélt hún með  George Harrison til villu hans í Portúgal.

Ronnie virtist afar ánægður með það, sem ekki ber að undrast, því hann var á leiðinni til  Barbados eyja með konu Harrisons, fyrirsætunni Patti Boyd. (Hún skildi seinna við Harrison og giftist Clapton.) Krissy og Harrison urðu elskendur og þegar þau komu til baka frá Portúgal tóku þau á móti mökum sínum á heimili Harrisons í Friar Park í Oxfordskýri.

Hvernig þeim fundi reiddi af fer ekki sögum af hér, en fljótlega eftir þann fund hélt Krissy til Los Angeles og hóf þar samband við  John Lennon, sem þá var giftur Yoko Ono. Það var Krissy sem var með  Lennon þegar að plötuframleiðandi einn miðaði á hann byssu sinni. Lennon kastaði sér yfir Krissy til að vernda hana. Hvorugt meiddist. Í annað skipti voru þau bæði borin út úr partýi hjá Díönu Ross eftir að ólyfjan hafði verið blandað í drykki þeirra.
Sambandið við Lennon varði ekki lengi. Lennon hafði þann ósið að kalla hana Patti og ruglaði henni greinilega saman við eiginkonu Harrison. Krissy fór frá Los Angeles til að hitta Ronnie í New York. Þar hitti hún líka Jimmy Page og saman flugu þau öll þrú til Bretlands. Þar heimsóttu Wood hjónin oft Page á heimili hans í Sussex.
Eftir eina drykkjulotuna, hneig Krisy niður á gólfið. Samkvæmt henni rumskaði hún við sér við að einhver vafði hana örmum. Hún hélt að það væri Ronnie en komst svo að því að það var Page. Kærasta Page, Charlotte kom að þeim og næsta dag yfirgaf hún Page. Krissy og Page bjuggu saman í ár eftir það.
Eftir þetta framhjáhlaup með Page, tóku hún og Ronnie aftur upp þráðinn og hún varð ólétt. Sonur þeirra Jessi fæddist árið 1977. Þá hafði Ronnie þegar hitt Jo Howard sem varð síðari kona hans. Krissy nefnir hana í skilnaðaráli sínu 1978 sem orsök skilnaðarins.
Krissy lét Ronnie eftir höllina gegn óformlegri tryggingu um "að hann mundi alltaf sjá um hana". Hann greiddi henni meðlag með Jessi sem seinna var skorið við nögl vegna "óheppni" Ronnies í fjármálum.
Jesse Woods
"Hann lofaði að hann mundi alltaf sjá um mig. Nú hefur hann brotið það loforð" sagði Krissy eftir að hún hafi verið stöðvuð við sjálfsvígstilraun eitt skiptið.
Hún hafði ekki unnið síðan hún vann við fyrirsætustörfin og síðustu vikurnar fyrir andlát sitt var hún afar fjárþurfi, svo að hún reyndi að fá starf við afgreiðslu í matvörubúð. En síðustu daga fyrir dauða sinn sagði hún vinum sínum að hún og Ronnie hefðu komist að samkomulagi og koma ætti upp sjóði fyrir Jesse og hún gæti lifað af rentunum. 
 Daginn fyrir andlát sitt hringdi hún í vin sinn og sagði að allt væri í lagi en 24 tímum seinna lá hún andvana á sófa hans. 150 manns sóttu útför hennar sem gerð var frá Mortlake Crematorium og Ronnie, sem var viðstaddur með  Jo, var sagður yfirbugaður af sorg.  

Saga Krissy eftir að hún skildi við  Ronnie er dæmigerð fyrir örlög margra grúpía sjötta áratugarins. Jo Jo Laine sem missti meydóminn með Jimi Hendrix og átti elskhuga á borð við Rod Stewart og Jim Morrison, giftist síðan Denny Laine, gítarleikara  the Moody Blues og síðan Wings, varð alkóhóli og heróíni að bráð. Hún var loks lokuð inni á þunglyndislyfjum eftir að hún komst að því að Denny hafði sofið hjá bestu vinkonu hennar. Þá mætti  nefna  Marianne Faithfull, Marsha Hunt, Mandy Smith, Anitu Pallenberg sem dæmi um konur sem steinarnir frægu rúlluðu yfir og skildu eftir misjafnlega á sig komnar um aldur og ævi.
En hei, þetta er rock and roll.
Stuðst er m.a. við heimildir úr grein eftir Önnu Púkas

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Skelfilega sorgleg saga og þær ábyggilega margar til viðbótar konurnar sem hlutu svipuð örlög.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.7.2008 kl. 21:19

2 Smámynd: Lilja Kjerúlf

úff þetta er svakalegt

Lilja Kjerúlf, 19.7.2008 kl. 21:26

3 Smámynd: Lilja Kjerúlf

Ég ætla líka að hrósa þér fyrir hve flott þú raðar upp bloggvinunum

snilld

Lilja Kjerúlf, 19.7.2008 kl. 21:28

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þetta er saga um gamla "vini", sem maður þekkti augsýnilega ekki neitt.  Fróðleg og ekki síður sorgleg lesning.

Sigrún Jónsdóttir, 19.7.2008 kl. 21:32

5 identicon

Svona var Rokkið! Er það svo enn?

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 21:39

6 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Dapurlegt líf sem þessi kona hefur átt í bland við góða skemmtun.  - Samt hef ég lesið einhversstaðar, þar sem haft var eftir frægri grouppíu að það sé betra að vera frægur að endemum en að vera óþekktur. -

Annars voru þessar stúlkur (konur) sem þú telur upp,  sjálfar á kafi í tónlistinni, er það ekki? - Og urðu sumar heimsfægar fyrir tónlistina  s.s. einsog Marianne Faithfull. -

Og það hefur sjálfsagt hjálpað þeim við að koma sér á framfæri, að nafn þeirra var þekkt fyrir, vegna kunningskapar við fræga menn.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.7.2008 kl. 21:46

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Satt Lilja Guðrún; þessar síðastnefndu voru tónlistarkonur og fyrirsætur, leikarar og ég veit ekki hvað, en eiga það jafnframt sameiginlegt að hafa verið með einhverjum Rollinganna.

Já, svona var rokkið Guðbjörgen þetta hefur breyst svolítið. Það eru  miklu færri súperstörnur í því en var. Svo eru þekktu rokkstelpurnar núna með eigin frama á hreinu, eins og Kate Moss t.d.

Sigrún; Akkúrat það sem mér datt líka hug, vá maður þekkir þetta fólk ekki neitt þrátt fyrir að hafa gleypt allt um það á sínum tíma.

Erlingur; Já og eflaust fleiri.

Lilja K; Takk fyrir það, þú ert nú sú fyrsta sem hefur orð á þessu.

Jenný; Fullt alveg örugglega, man meira að segja eftir nokkrum íslenskum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 19.7.2008 kl. 22:38

8 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég myndi strax stökkva á Stones..............no matter what

Hólmdís Hjartardóttir, 19.7.2008 kl. 23:05

9 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Svakaleg saga. Væntanlega aldrei vænlegt að stóla á að aðrir ''sjái um mann''.

Jóna Á. Gísladóttir, 20.7.2008 kl. 00:27

10 identicon

Göfug grein, en ég hef hitt Ronnie nokkrum sinnum, sem og konu hans.  Hún er nokkuð þreytandi, all snobbuð, sem Ronnie er ekki. Rangt að dæma, en í hans sporum hefði ég skilið við hana á stundinni, en þó ekki að kynna örlagavaldinn sem unga rússneska stúlku. Bý í London. Gunnar Ægis

Gunnar Aegisson (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 03:00

11 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ótrúleg saga og sorgleg örlög hjá mörgum...

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 20.7.2008 kl. 03:03

12 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Alt for Damerne. Ert ekki í röngum bransa karl minn?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 20.7.2008 kl. 07:28

13 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hólmdís; Nákvæmlega eins og Krissy hugsaði held ég...:)

Jóna Á; Alla vega ekki þegar fjaðrirnar taka að falla.

Gunnar Ægis: Held að sú rússneska sé að kreista út sínar 15 mínútur.

Hrafnhildur;  Að lifa fyrir líðandi stund er að gera ráð fyrir að morgundagurinn komi ekki.

Vilhjálmur: Lengi grunað einmitt það :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 20.7.2008 kl. 07:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband