Email að handan

Ég vissi að ég var að deyja. Ég vissi að ef ég lokaði augunum mundi ég aldrei opna þau aftur, aldrei. Ég mundi svífa inn í svefninn og einhvern tíman þegar allt væri eins og það átti að vera, mundi ég hætta að anda, hjarta mitt hætta að slá og heilastöðvarnar hætta að senda rafboð á milli sín. Það mundi slokkna á mér eins og þegar ég slökkti á útvarpinu.  

Ég hafði ekki fyrr leitt hugann sérstaklega að hugtakinu “aldrei.” Hvernig gat “aldrei” verið mögulegt. Ef þú hafðir óendanlega tíma og óendanlega möguleika, hvernig gat þá aldrei verið til? Fyrr eða seinna hlaut það sem “aldrei” átti að gerast að gerast. Bara spurning um tíma. 

En kannski var ég að rugla. Kannski hugsaði ég ekki lengur skýrt. - Í þrjár vikur hafði þróttlítill likami minn eins og af gömlum vana, haldið áfram að há fyrirfram tapað stríð. Dauðastríð. Ef til vill var það deyfingin sem ég fékk úr flöskunni sem hékk yfir höfði mínu sem fyrirmunaði mér skýra hugsun. Deyfingin sem ég vissi að mundi drepa mig áður en eitrið í blóðinu gerði það.  Ég renndi augunum yfir andlit fólksins sem sat í móðunni hringinn í kring um mig. Ég mundi ekki nöfn þeirra en vissi að þau voru börnin mín, komin til að kveðja. Einhver hélt um hönd mína og einhver strauk mér um vangann. Ég brosti. Æðruleysið var mér mikilvægt. Ef þau sæju að ég dæi með bros á vör mundi fráfall mitt verða þeim léttbærara. Ég kvaddi þau eitt af örðu í huganum og lokaði svo augunum. Ég var ekki hræddur. Ég fann hvernig síðustu skuggarnir liðu yfir augnlok mín, þungur andardráttur og snökt fólksins hvarf. Allt varð hljótt.    Mig dreymdi að ég væri heima í stofu, sæti í stól og horfði út um gluggann. Úti á blettinum fyrir aftan húsið voru börn að hoppa í parís. Það var sumar og börnin voru léttklædd. Sóleyjar og fíflar bærðust í golunni og húsflugur suðuðu í glugganum. Fyrir  framan húsið heyrði ég götuhljóðin og í eldhúsinu ómaði útvarpið. Andlát og jarðarfarir, heyrði ég þuluna segja.  Við það leystist draumurinn upp og ég vakna. Allt í kring um mig er fólkið mitt, allir sem ég þekkti og hafði eitt lífinu í námunda við. Ég veit að þetta er ekki móttökunefnd, heldur viðvarandi ástand. Frá hverjum og einum streymir gleði og kærleiki. Ég er umvafinn blíðu þeirra og ástríki. Vitund mín er sterkari og nákvæmari en nokkru sinni áður. það er enginn tími. Þar sem enginn tími er getur “aldrei” gerst eða öllu heldur “alltaf” var.  

Umhverfið er óstöðugt. Allt er á iði, eins og í móðu. Aðeins návist þeirra sem ég elsakði er tær. Skynjun mín er í samræmi við vitund mína, skýr hið innra um það sem ég er, hið ytra eins og hjá nýfæddu barni. 

Ég sé án sjónar, skynja án hugsunar, finn án tilfinninga.

Það var eins og ég hafi hingað til verið í kviksyndi með poka yfir höfðinu. 

Ég er frjáls, óbundinn af stað og stund. Ég finn fyrir takmörkunum, löngunum sem ekki var hægt að uppfulla,  þorsta sem ekki var hægt að svala, tómarúm sem ég þrái að fylla.

Heimurinn sem ég var hluti af, er horfinn.  Ég fylltist lotningu. Sköpunarverkið; heimur inn í heimi, alheimur inn í alheimi, allt meistaraleg sjónhverfing sem á sér ekkert upphaf og engan endi. Samt er hann sköpun, hugmynd í vitund Guðs sem er viðhaldið af  honum.

Guð, það er svo sannarlega til Guð.

Ég sjálfur er sál umlukt andanum. Sál mín er lífsaflið og andi minn líkami hennar, eins og útfrymi í kring um kjarnann.  Ég er neisti guðlegs anda sem tendraðist og öðlaðist sjálfstæða tilveru vegna ástar Guðs. Ég er sjálfstæður leyndardómur eins og Guð sem ekki er mögulegt að þekkja til fulls.  

Ást Guðs, þessi allt umlykjandi andardráttur sem gerir allt að einhverju. Ég þrái ekkert meir en að endurgjalda þessa ást og um leið skynja ég yfirþyrmandi getuleysi mitt til þess. Ég fyrirverð sjálfan mig fyrir  öll tækifærin sem ég lét fara forgörðum þegar ég átti enn möguleika á því að gera vilja Guðs af eigin hvötum og sýna honum ást mína í verki.  Nú var það of seint. Efnislegi heimurinn er leg sálarinnar.  Þar  beitti ég eigin vilja og sinnti í engu vilja Guðs.  Nú ólgar í mér löngun sem hvergi fær útrás. Ég þrái að endurgjalda ást Guðs, þrái að þjóna honum, en mig skortir tjáningarmáttinn. Ég er eins og ófægður spegill. Nú, þegar ljósið skín allsstaðar, gat ég ekki endurspeglað það.  

Í einni hendingu rann jarðneskt líf mitt upp fyrir mér. Hvert smáatriði er greypt í vitund mína, hvert augnablik þess er sem eilífð.

Hvílík blekking. Hvílík augljós blekking. Ég var minn eigin Guð. Ég var  hirðulaus líkt og alvaldur konungur í eigin ríki sem ekki þarf að svara fyrir gjörðir sínar. Ég lét eins og ég væri fullkominn og þyrfti ekki að ávaxta þá sjóði sem Guð hafði falið mér að ávaxta, mína eigin sál. Já, eins og væri Guð. Logar eftirsjárinnar gagntaka mig. Trú mín; fullvissan um tilgang handan blekkingarinnar, afstaða mín til hins óþekkta og óþekkjanlega sem stýrði gjörðum mínum og hugsununum er óskýr og andi hennar vanmáttugur. 

Ég sé að allt var hluti af blekkingunni og ég hluti af blekkingu meðbræðra minna.

Í útjaðri menningarinnar loga vitar Guðs, himneskar forskapaðar sálir sem lýsa upp sjóndeildarhringinn. Rétt eins og Guð faldi sig bak við Stóra hvelli, fela þeir sig í mannlegu gervi. Án gervisins verður ekki reynt á getu okkar til að þekkja þá, elska þá. Orð þeirra eru úthöf Guðs sem fáir fást til að sökkva sér í. Allavega ekki ég. Þeir varða veginn fyrir jarðarbúa í átt að guðlegri siðmenningu, í átt til Guðs. Stöku sinnum  gjóaði ég augunum af algjörri forvitni í áttina til þeirra, en hélt svo áfram kappróðrinum. Ég var um borð í flugmóðurskipi með eldsneytislausri vél og réri með árum ímyndanna minna og langana. 

Nú lýsa sálir boðberanna mér eins og sólir í hádegisstað og ég finn hvernig ylur þeirra veitir mér líf og ég veit að án þeirra væri ég kaldur sem hel.  Allt er þetta augljóst, yfirþyrmandi, sáraukafullt og einfalt. Ég kaus að synda í pollinum og hafði að engu lindina sem stóð mér til boða. Ég beindi þránni sem var mér ásköpuð til að elska og þekkja Guð að því að þekkja efnið og elska það.  Skynvit mín eru í algjöru samræmi við eigindir mínar. Ég finn anganina af þolgæðinu, heyri hörpuhljóma réttlætisins, finn bragðið af helguninni.  Ástin er ylur og þekkingin vatn. Samtímis eru allir þessir eiginleikar eins og litir sem greinist í ljósbroti kristals; mismunandi birting sama ljóssins, ástarinnar. 

Ég lofa Guð en finnst lofgjörð mín aumkunarverð. Ég get ekki annað því ég skynja að allt er ekkert í samanburði við hann. Jafnvel samanburðurinn sjálfur er hjákátlegur.  Hér í ríki Guðs verða einu framfarirnar vegna miskunnar Hans og fyrir milligöngu heilagra sálna. Ég vex fyrir atbeina þeirra og tek þátt í að dreifa ilminum af bænum þeirra yfir sköpunina.  

Bænin er andleg orka leyst úr læðingi sköpunarinnar, orka sem býr í nöfnum Guðs, orði hans og ígrundun þess. Þessari andlegu orku er umbreytt og beint í farvegi opinna huga og hreinna hjarta hvar sem þau finnast. Hún fær  útrás í vísindum og listum hins jarðneska heims. 

 

Og hvar er ég staddur?

Óravíddir heima Guðs teygja úr sér fyrir framan mig en ég er fótalaus.

Fegurð Guðs geislar allstaðar en ég er sjónlaus. Ilmurinn af nærveru Guðs gegnsýrir allt en ég hef ekkert þef eða bragðskyn. Aldrei hafði ég fallið í duftið af einskærri lotningu fyrir Guði. Í mesta lagi hafði ég beygt mig niður á gráturnar til þess að gera eins og aðrir og meira að segja fundist það hálf tilgerðarlegt. Nú veit ég hvað ég er. Nú veit ég hvers vegna. Ég veit að ég hefði getað svo gert svo miklu betur. Ég veit að sá tími er liðinn.

Ég hef ekki lengur frjálsan vilja.

Ófeigur Ófeigsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Yndislegt. Magnað. Ógnvekjandi. Og Uppvekjandi. Ótrúlega erum við örugglega takmörkuð í okkar jarðnesku sálarkimum, hégómafullu líkamsmyndum og andlega vannærð. Eigrandi um í völundarhúsi efnislegra allsnægta, tímasettra dagskráratriða, á harðahlaupum eftir tálsýnum í tómleika andleysis. Ávöxtur lífs okkar sem sýnilegur er öðrum samferðarmönnum er einskis virði þegar að enda þessa heims kemur. Að ganga veg Guðs í jarðneska lífinu gegnum múra efnis, móti straumi mannanna og þvert á tímaafmarkanir er ekki mögulegt án þess að gefa upp eigin vilja fyrir Guðs vilja - og horfa á hann alltaf - alla daga. Góð hugleiðing og hvatning í helgarlokin. Takk.

Guðbjörg Pétursdóttir (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 22:57

2 identicon

yndisleg lesning

bella (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 18:10

3 identicon

Ögrandi og algerlega frábær lesning. Minnir mann á hversu lítið við þurfum að gera til að lifa í Guði sem er hin eina rétta leið.

Takk fyrir þetta. Ella

Elin Reynisdottir (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 23:25

4 identicon

Búin að vera að fylgjast með þér. Þú skrifar fult af athyglisverðu efni, hefur athyglisverðar hugmyndir sem þú greinilega vilt koma á framfæri, en hirðir ekki um að svara fólki sem kommentar á skrifin þín. ER þetta SOLO leikur? Hélt að bogg væri um samskipti. Þú ert kanski bara að troða hugmyndum ofan í fólk með goðu eða illu ... eða hvað? Og vilt ekki leyfa neina umræður um málin. Case Closed?

Guðbjörg Pétursdóttir (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 20:46

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

fyrir utan það sem þú hefur skrifað núna, hefur mér ekki sýnst vera ástæða til að svara sérstaklega. En ég vil þó nota tækifærið og þakka þeim sem hafa tjáð sig hér um þennan pistil. Bloggið er svo misjafnt Guðbjörg. sumir leyfa ekki einu sinni að það séu gerðar athugasemdir við færslur þeirra. Aðrir eru beinlínis að sækjast eftir því að þeim sé svarað. Mín skrif eru ætluð til þess að koma frá mér einhverju sem ég hef verið að hugsa um eða rekist á á förnum vegi nets og bóka. Þín orðsending fannst mér vera hugleiðing í sjálfu sér og stendur fyrir sínu án sérstaks svars. Þakka þér innlitin og færsluna.

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 9.12.2007 kl. 06:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband