Þegar amma var ung

Sú var tíðin að það þótti heyra til tíðanda ef að dægurlag með öðrum en íslenskum eða enskum taxta náði teljandi vinsældum meðal þjóðarinnar. Ríkisútvarpið sem var allsráðandi í þessum efnum langt fram á síðustu öld og átti því stærstan þátt í móta tónlistarsmekk þjóðarinnar á þeim tíma, réði því að sú tónlist sem leikin var í tónlistarþáttum eins og "Óskalög sjómana", "Óskalög sjúklinga" og "Við sem heima sitjum" voru hvað erlenda dægurtónlist snerti, endurómun af breska vinsældarlistanum. "Lög unga fólksins" fylgdi þessari sömu stefnu enda litu vinsældarlistarnir, sem þá voru komnir til sögunnar, flestir svipað út og þeir bandarísku og bresku. Vissulega voru þessir þættir pipraðir með tónlist frá framandi löndum og lög eins og hið kúbanska Guantanamera, hið hebreska  Hava Nagila og hið mexikanska La Bamba heyrðust af og til og voru sjálfsagt langlífari í íslenskum útvarpsþáttum en nokkrum öðrum.

Fyrsta lagið sem ég man eftir að spilað var látlaust í öllum óskalagaþáttum og hvorki var íslenskt eða enskt var  þýska lagið sem ýmist var kynnt undir heitinu "Der fröhliche Wanderer"  eða "Mein Vater war ein Wandersmann".

Þetta glaðlega "göngulag" sem allir héldu að væri gamalt þýskt þjóðlag, var reyndar samið af  Friedrich-Wilhelm nokkrum Möller skömmu eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk.  Það varð geysi-vinsælt víða um heim árin 1953-4 í flutningi barnkórs frá Schaumburg. Mörg barnanna í kórnum sem þekktur varð undir nafninu Obernkirchen kórinn og stjórnað var af systur Fredrichs, Edith Möller, voru munaðarleysingjar sem misst höfðu foreldra sína í stríðinu.

Sjálfsagt hefði lagið aldrei orðið jafn vinsælt og raun ber vitni, ef BBC hefði ekki útvarpað úrslitunum í alþjólegu Llangollen kórkeppninni árið 1953 þar sem Obernkirchen kórinn vann keppnina með glans með flutningi sínum á þessu glaðhlakkalegu lagi.

Árið 1954 sat það í margar vikur í efstu sætum vinsældalista viða um heim t.d. á þeim breska, í ekki færri en 29 vikur.

Texti lagsins er eftir Edith, en hann hefur verið þýddur á fjölda tungumála og  á ensku heitir lagið "The Happy Wanderer". Obernkirchen kórinn kom til Íslands árið 1968 og flutti m.a. lagið sem þýtt var á íslensku sem "Káti vegfarandinn" á vel sóttum tónleikum í Þjóleikhúsinu.

Næst var það trúlega ítalskan sem ég fékk að kynnast í söng á öldum ljósvakans i lagi sem síðan hefur verið hljóðritað og gefið út af meira en 100 mismunandi flytjendum.  Lagið heitir "Nel blu dipinto di blu" en allir þekkja það undir heitinu Volare.

Ítalska tónskáldið Domenico Modugno samdi lagið og einnig ljóðið ásamt Franco Migliacci. Það var fyrst flutt af Domenico og Johnny Dorelli á tónlistarhátíð í  Sanremo 1958 og sama ár var það valið til að vera framlag Ítalíu til Júróvisjón keppninnar.- 

En þrátt fyrir að  Domenico og Franco fengju að flytja lagið tvisvar í keppninni, vegna truflana á útsendingu í fyrstu atrennu, nægði það ekki til að koma laginu hærra en í þriðja sæti. - Lagið flaug samt inn á vinsældarlistanna víða um heim og hlaut síðan verðlaunin "besta lag ársins" á fyrstu Grammy verðlaunahátíðinni sem haldin var 1958 í Bandaríkjunum.

 

Árið 1963 þegar að Bítlarnir klifruðu upp alla vinsældarlista á ofurhraða fengu þeir samkeppni úr óvæntri átt. Belgísk nunna sem þekkt varð undir nafninu Sœur Sourire (Systur bros) hafði þá samið og hljóðritað lagið Dominique, sem varð svo vinsælt að það rauk upp í fyrsta sæti vinsældarlista bæði vestan hafs og austan. Fram til þessa dags, er það eina belgíska lagið sem náð hefur fyrsta sæti á vinsældarlistum í Bandaríkjunum. Lagið varð svo vinsælt að Jeanine Deckers, en svo hét þessi syngjandi nunna réttu nafni, fór í hljómleikaferð um Bandaríkin og var auk þess boðið að koma fram í skemmtiþætti  Ed Sullivan.

Deckers, sem sjálf fékk aldrei krónu borgaða fyrir lagið, heldur lét ágóðann renna til klaustursins, gafst upp á klausturslifnaðinum árið 1967.  Í framhaldi af því reyndi hún árangurslítið fyrir sér með tónlistarflutningi undir nafninu Luc Dominique þar sem henni var meinað að nota nafnið Sœur Sourire, sem var sagt eign útgefanda hennar, þ.e. Philips samsteypunnar.

Seint á áttunda ártugnum reyndu belgísk skattayfirvöld að innheimta af Deckers fúlgur fjár sem þau vildu meina að hún skuldaði í skatta af tekjunum af Dominique. - Deckers hafði þá þegar fallið í ónáð kaþólsku kirkjunnar vegna opinbers stuðnings síns við notkun "pillunnar" og vegna samkynhneigðar sinnar. Árið 1985 frömdu hún og sambýliskona hennar til margra ára, Annie Pécher, sjálfsvíg og sögðu í bréfi sem þær skildu eftir sig, fjárhagserfiðleika ástæðurnar.

Upp úr 1966 átti franska kynbomban Birgitte Bardott í ástarsambandi við sjarmörinn og tónlistarmanninn Serge Gainbourg. Hún bað hann að semja fyrir sig fegursta ástaróð sem hann gæti upphugsað og þá sömu nótt samdi hann lag sem átti eftir að kenna allri heimsbyggðinni að segja "Ég elska þig" á franska tungu, eða; Je t'aime.

Fyrst hljóðritaði hann lagið með stunum Bardott og sjálfs sín en sú útgáfa lagsins kom ekki út fyrr en árið 1986. Það var hins vegar ástkona hans, ofurskutlan Jane Birkin sem söng og andvarpaði ásamt Serge sjálfum á útgáfunni sem fór eins og eldur í senu um heiminn árið 1967. Í þeim löndum sem ekki bönnuðu flutninginn fór lagið gjarnan í fyrsta sæti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óli minn

Skemmtileg blogggrein. Hvað með hið japanska ... nú man ég ekki hvað það heitir ... Sayonara eða eitthvað ... en minnir að það sé eina lagið á erlendri tungu sem komist hefur í efsta sæti bandaríska listans. Það var líka geysivinsælt hér á landi.

Óli minn, 21.8.2011 kl. 14:52

2 Smámynd: Óli minn

Og líka "mamma" með ítalska undrabarninu sem Óttar endurvakti hér á landi fyrir nokkrum árum.

Óli minn, 21.8.2011 kl. 14:57

3 identicon

það má óbeint lesa í pistli þínum, að bandarísku og bresku listarnir væru slæmir.  En sannleikurinn er sá, að tónlistin tók stökkbreitingum á þessum tíma, og vegna þess frelsis sem almenningur hlaut við lok síðari heimstyrjaldar.  það er einmitt fyrir tilstilli þessa, að þessi lög sem þú nefnir komust yfir höfuð á blað.

Í dag er þetta ekki eins létt Svanur, nú vinna bæði hljómlista útgáfufyrirtæki og kvikmyndafyrirtæki að því hörðum höndum, að ná einokun á markaðinum.  Og fyrir tilstylli þessarar einokunar, eru bæði kvikmyndir og hljómlist í dag á hraðri niðurleið.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 18:24

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir það Óli minn.

Bjarne: Nei, ég er ekkert að abbast upp á vinsældarlistana, hvorki fyrr eða síðar. En það er rétt hjá þér að fákeppnin ræður för í þessum bransa og það kemur ótvírætt og ávalt niður á fjölbreytni og þar með gæðum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.8.2011 kl. 19:38

5 Smámynd: Davíð Kristjánsson

Óli minn: Japanska lagið hét:

Sukyaki: http://www.youtube.com/watch?v=RtXQ31F1A-k

Heintje - Mama: http://www.youtube.com/watch?v=6Ng204Z6bs4

Hélt sjálfur mikið upp á lagið: Mei Vater is an Appenzeller með Franzl Lang
http://www.youtube.com/watch?v=dHE2ckvvv6o

Davíð Kristjánsson, 21.8.2011 kl. 22:47

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þakka Davíð þessa góðu viðbót.

Maður fær barkabólgu á því einu að hlusta á snillinginn Franzl Lang.

Svanur Gísli Þorkelsson, 22.8.2011 kl. 00:31

7 Smámynd: Óli minn

Takk Davíð. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé þetta sungið af orginal flytjandanum. Gaman að því. Þessi Franzl er ótrúlegur jóðlari.

Óli minn, 22.8.2011 kl. 20:06

8 Smámynd: Óli minn

Ég var að tala um þann japanska. Hafði aldrei séð hann áður, bara heyrt lagið.

Óli minn, 22.8.2011 kl. 20:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband