Barnfóstran frá Íslandi og Tolkien-fjölskyldan

Fyrir nærri 70 árum steig Arndís Þorbjarnardóttir, læknisdóttir frá
Bíldudal, af skipsfjöl í Edinborg og fór ein með lest suður til
Oxford. Þar á brautarstöðinni tók á móti henni rithöfundurinn og
fræðimaðurinn kunni, J.R.R. Tolkien og heilsaði henni á íslensku.

Arndís var komin í vist til Tolkien-hjónanna til að gæta fjögurra

barna þeirra, jafnframt því sem Tolkien gældi við að fá æfingu í að
tala íslensku með því að hafa íslenska barnfóstru á heimilinu. Í
viðtali við Lindu Ásdísardóttur lýsir Arndís vist sinni hjá
Tolkien-hjónunum.


FLEST höfum við lesið "Hobbitinn" og jafnvel "Hringadróttinssögu" og

öll höfum við heyrt eitthvað um föður þessara ævintýra, rithöfundinn
heimsþekkta J.R.R. Tolkien. En við erum færri sem vitum að fyrrverandi

fóstra barna hans býr á Selfossi. Þegar ég frétti þetta gat ég vart

beðið eftir að fá að hitta hana og heyra sögu hennar. Arndís er hógvær
kona og ekki mikið fyrir að gorta af sjálfri sér en hún lét tilleiðast

að hitta mig þegar hún heyrði ákafa minn. Svo einn gráan rigningardag

sit ég í hlýlegu eldhúsi hennar og fæ að spyrja hana spjörunum úr.

Hún er læknisdóttir frá Bíldudal, fædd 1910. Í þá daga var ekki hægt
að aka þaðan til Reykjavíkur og eina menntaða fólkið var læknirinn,
presturinn og barnakennarinn. Þegar Arndís, kölluð Adda, fór til
höfuðborgarinnar með einum af "Fossunum"; þá 15 ára gömul, var hún
viku á leiðinni með öllum viðkomum. Hún útskrifaðist úr Kvennaskóla
Reykjavíkur 17 ára gömul og kenndi unglingum á Bíldudal í tvo vetur.

Síðan lá leiðin út í hinn stóra heim.


Það var svo í upphafi ársins 1930 að Adda steig af skipsfjöl í
Edinborg og fór ein með lest til Oxford þar sem fjögur börn
Tolkien-hjónanna biðu hennar. Tolkien náði í Öddu á brautarstöðina og
heilsaði henni á íslensku.

Nú er Arndís komin hátt á níræðisaldur. Hún og Marteinn, maðurinn

hennar, eiga tvö börn og eitt barnabarn. Með ánægju rifjar hún upp

dvöl sína á heimili Tolkiens og fágað viðmót hennar minnti á þann
virðuleika sem hefur einkennt England um aldir.

­ ­ ­

Hvernig kom það til að þú fórst að passa börn Tolkiens?


"Á undan mér voru búnar að vera tvær stúlkur; Áslaug og svo Rúna úr

Flensborg. Áslaug var bekkjarsystir mín í Kvennaskólanum og hún var nú
eitt og hálft ár hjá þeim. Þetta nálgaðist það sem kallast "au-pair"

en þó ekki. Við höfðum engin frí, vorum bara sem einn úr fjölskyldunni

eins og einn krakkinn. Ég var með krökkunum alltaf. Það voru fjórir

krakkar og það yngsta á öðru ári.

Prófessorinn var afskaplega þægilegur maður, ljúflingur, hann elskaði

náttúruna, tré og gróður. Sem dæmi um það, þá var steinsteyptur

tennisvöllur á túninu við húsið, sem þau voru nýbúin að kaupa, og hann
byrjaði á að rífa hann og setja gras í staðinn. Þau hjónin voru

gamaldags varðandi nýjungar. Til dæmis fannst þeim alveg fáránlegt að

fólkið sem keypti gamla húsið þeirra byrjaði á að setja miðstöð í það.
Þau voru bæði sammála um þetta. Frúin hafði afskaplega gaman af blómum

og hafði stórt beð frá húsinu yfir miðjan garðinn með öllum mögulegum

plöntum. Og hún var enn um vorið að fara yfir í gamla húsið, sem þau

höfðu selt veturinn á undan, til að taka heilu plönturnar. Mér fannst

þetta voðalega skrítið." Adda dokar við. "Tilfellið er að svona betri

stéttin er fyrir að elska blóm og gróður og að skrifa sendibréf. Þær

skrifuðu þessi lifandis ósköp . . ." Arndís var búin að draga upp
gamla myndaalbúmið sitt með myndum frá Oxford og á milli blaðsíðnanna

eru lítil heimatilbúin jólakort frá sonum Tolkiens. Hún sýnir mynd af
stæðilegu húsi sem fjölskyldan var þá nýflutt inn í. Gamla húsið

þeirra var næsta hús við.


"Elsti strákurinn, Jhonny, sem var orðinn 14 ára, þurfti að fá sitt
eigið herbergi. Þarna var "nurseríið" sem var leikstofa krakkanna og

eiginlega dagstofa þar sem maður hélt til bara. Svo var borðstofa þar
sem allir sátu til borðs í einu. Þarna var ágætt húshald og regla á
öllu en frúin hafði erfiða lund, henni lynti ekki við fólk og hélst

illa á því." Og þarna þyngist rómurinn í Öddu örlítið en hún heldur
áfram. "Vinnukona kom á morgnana og sá um þrifin. Ég var alltaf úti á
morgnana og kom aldrei nálægt eldhúsinu, frúin hefur nú eitthvað séð

um það, en hún baðaði litlu stelpuna á morgnana og klæddi og svo tók
ég við."


En hvers vegna vildu þau endilega íslenskar stúlkur?

"Tolkien var nú norrænufræðingur og talaði íslensku dálítið og
meiningin var að nota þessar íslensku stúlkur til að tala við um leið

og þær væru að læra enskuna. En ég fann það fljótt að það varð

afskaplega lítið úr því að við töluðum íslensku saman. Frúin varð
afbrýðisöm ef við töluðum eitthvað sem hún skildi ekki. Hún var ekkert

vond við mig eða svoleiðis en varð aldrei vinkona. Hún tók mig alltaf
sem unglinginn sem þurfti að passa.


Hún kenndi mér ýmislegt. Vinnukonan pússaði alltaf koparþröskuld og
þreif vel útihurðina, en sú hljópst úr vistinni og var stúlkulaust í

hálfan mánuð og það var farið að verða skítugt. Ég sá þetta og fór að
þvo þröskuldinn. Þá kom frúin, Edith, og sagði: "Adda, þetta mátt þú
ekki gera. Þú mátt ekki láta fólk sjá að þú, sem ert með okkur, sért
að vinna verkin sem vinnukonan gerir."


Það var óskapleg stéttarskipting og ekki síst í Oxford, en á þeim árum
var þetta svona háaðall. Prófessorarnir voru eins og þjóðflokkur út af
fyrir sig.

Það komu mjög fáir gestir til Tolkien-hjónanna. Einu sinni komu hjón

sem höfðu verið vinafólk þeirra og flutt svo til Indlands og voru nú
að flytja heim aftur. Þau drukku bara með okkur í dagstofunni. Þessi

hjón höfðu þau ekki séð í mörg ár og það var bara ein kaka og

rúgbrauðssamlokur!" Það má heyra á Öddu að þetta fannst henni eilítið

hneykslanlegt enda voru fimm smákökusortir með kaffinu hjá henni.


Var Tolkien þá ekki gefinn fyrir félagslíf?

"Jú, ég hugsa að hann hafi verið það, en gamla barnfóstran hennar mrs.

Tolkien, mrs. Gro, afskaplega elskuleg manneskja, sagði mér að það

hefði verið voðalega mikil andstaða gegn sambandi þeirra hjóna og
verið reynt að stía þeim sundur en ekki tekist. Þau eiginlega struku
til að gifta sig og byrja að búa. Edith þótti ekki hæfa honum, hún
hafði engin efni og hann hafði engin efni. Hann var fátækur en
kaþólikkar hjálpuðu honum í skóla. Mrs. Tolkien var ekki
háskólagengin, en hafði alist upp í Birmingham eins og hann. Þau voru
svo ung . . . En þau hafa alltaf staðið saman þótt þau ættu ekki allt
sameiginlegt. Miss Gro sagði mér að Edith fengi alltaf mígrenikast
þegar háskólahátíð átti að vera, þetta hefur verið taugakerfið
eitthvað ... og svona hélt þetta áfram. Það getur vel verið að hún

hafi ekki fundið sig innan um háskólafólkið. Hún var voðalega mikið
uppi á lofti á daginn, ég veit ekki hvað hún gerði, hvort hún lá
fyrir. Hún lærði á píanó og þótti mjög góð um það leyti sem hún

giftist. Hún var orðin organisti í kirkju. Það var lítil stássstofa í
húsinu sem aldrei var gengið um og þar var píanó en Edith snerti það
aldrei. Ekkert af krökkunum lærði á hljóðfæri.

Ef Tolkien kom heim kenndur svaf hann ekki í hjónaherberginu. Það var

þarna gestaherbergi sem hann svaf í. Hún lét ekki bjóða sér að hann
væri með vínlykt . . . svona var það. Tolkien var ósköp þægilegur,
ekkert voða mikið talandi, bara leið um. Hann kom heim í hádegismat,

alltaf, og hann stoppaði og fór inn í "stöddíið" þegar búið var að
borða. Þangað fékk hann eina bjórflösku og beinakex í háum stauk,
mjóum. Það var hlegið að því að ein stúlkan var beðin að fara með
bjórinn inn til prófessorsins og kexið, en hún tók "siffonier" sem er

notað til að sprauta sódavatni. Hún áttaði sig ekki á hvað bjór var.
Þeir sögðu mér þetta strákarnir." Það má heyra greinilega væntumþykju
þegar Adda talar um börnin.

"Ég sá um að baða þau á kvöldin og koma þeim í háttinn. Þeir nefnilega
spurðu mig svo mikið um Ísland, um tröll og forynjur. Og ég vissi nú
að prófessorinn hafði eyrun á þessu alltaf og heyrði hvað var talað

um. Hann var aldrei langt frá og hann tók nú ýmsar hugmyndir upp úr

íslenskum þjóðsögum og kunni það. Honum fannst öll náttúran vera
lifandi. Adda verður svolítið íbyggin á svipinn. Hann lifði í

hálfgerðum ævintýraheimi. "Hobbitinn" ...þetta er náttúrulega

ævintýraheimur. Mér finnst ennþá voðalega gaman að lesa "Hobbitinn".
Adda hlær við. "Já, að búa til þetta litla fólk sem er loðið á tánum
eins og rjúpur!!!

Prófessorinn var alltaf í tvídjakka og ljósgráum buxum en var gjarnan

í skrautlegu vesti. Svo þegar þessi gilli voru niðri í háskóla fór

hann í kjólföt. Hann langaði alltaf til Íslands en taldi sig ekki hafa
ráð á því og honum var aldrei boðið, það var ekki tíska þá."

Adda var ekki þarna nema hálft ár. Henni leiddist þegar leið á. Ég

spyr hvort erfitt skap frú Tolkien hafi ráðið einhverju þar um, en

Adda vill meina að fleira hafi komið til þótt það hafi vissulega ekki
hjálpað.

"Það bar meira og meira á að ég fékk aldrei að fara neitt. Ég kynntist

einni stúlku, Betty; sem var nemandi Tolkiens og hún vildi bjóða mér

eitt og annað, t.d. að koma niður í "collage" að hitta vinkonur sínar.
Einu sinni hentaði það að ég fékk að fara!! Betty og vinkona hennar

vildu bjóða mér að róa með sér á ánni, sem þótti voða sport og gaman,
en það hentaði frúnni aldrei. Ég fann aldrei ástæðu fyrir því að ég

fengi ekki að fara. Á sunnudögum var prófessorinn heima svo hún var

ekki ein með börnin og mér fannst þetta vera meinsemi að hún gæti ekki
þolað mér að komast í samband út á við. Og svo þegar ég fann að ég var

farin að hugsa á ensku þá vissi ég að ég var komin yfir þröskuldinn.

Enn í dag, ef ég hitti Englending og fer að tala þá hugsa ég á ensku.
Svo hef ég alltaf lesið á ensku góðar enskar skáldsögur. Nú er ég að
lesa sögu sem gerist í Oxford og það rifjast upp fyrir mér

götunöfnin." Adda segist ekki hamast við að sauma út og prjóna eins og

margar vinkonur hennar sem eru svo alveg að drepast í öxlunum á eftir.
"Ég bara les í staðinn og ekkert drasl, segir Adda glettnislega,
heldur góðar skáldsögur."

Adda nefnir að sonur sinn hafi kvartað stundum, því hún endaði alltaf

inni í bókabúðum á öllum ferðalögum úti í heimi.

"Svo var Alþingishátíðin þá um sumarið og öll fjölskylda mín ætlaði og

það svona ýtti undir að ég var búin að fá nóg eiginlega. En ég vildi

endilega sjá London áður en ég færi heim. Fyrst fannst frúnni að það

kæmi ekki til mála en ég fór mínu fram.


Ég bjó á hóteli í London og hitti íslenska stúlku, Gunnu, sem sýndi
mér margt. Hún hafði ekkert að gera og var öllu kunnug. Ég sá Hyde
Park og fleira. London var ósköp róleg borg og ekkert að óttast. Við

fórum eitt kvöld á "restaurasjón" og var setið við löng borð en ekkert

fyllirí eða svoleiðis; ósköp pent. Hún sagði við mig "sittu kyrr ég

þarf að skreppa frá" og hún var lengi í burtu. Ég veit ekkert hvað . .

. en hún tók einhvern þátt í kvöldselskapslífi því hún átti kvöldkápu

og svona sem fylgdi. En hún var sæt og góð við mig og ég sá og

kynntist meiru fyrir bragðið.

Fannst þér mikill munur á fólki á Íslandi og Englandi?


"Ekki svo mikill, þarna var að vísu mikið ríkidæmi. Þarna leigði
vellauðug kona frá Svíþjóð sem var með syni sína í skóla. Svona ríkt

fólk var allt í kring. En prófessorslaunin voru ekkert til að hrópa
húrra fyrir.

En eitt var einkennilegt með Edith. Hún sýndi mér klæðaskápinn sinn
uppi á lofti, sem var eftir endilöngum vegg og FULLUR af fötum og hún

sem aldrei fór neitt, í mesta lagi niður í bókasafnið. Og hún fór jú

með mig og eldri strákana stundum á "matinée", eftirmiðdags leikhús, .

. hún gerði það nú. Hún vildi ala mig upp, já, já, kenna mér.


Svona eins og í vinnukonuleysinu, var hringt dyrabjöllunni og ég fer
til dyra og þar er maður sem spyr eftir frúnni. Ég hafði vanist því að
láta fólk ekki standa úti á tröppum og býð honum innfyrir og svo kalla
ég á frúna. Þegar hún kom niður kemur í ljós að hann er að selja

þvottaklemmur. Eftir á segir hún við mig: "Þú mátt aldrei hleypa

ókunnugum inn, maður veit aldrei hvers konar fólk þetta er. Kannski er
það bara að kynna sér húsakynnin til að brjótast inn." Allt í lagi, ég
skal passa upp á það, hugsaði ég. Svo líður nokkuð langur tími þar til
einn dag fer ég til dyra. Þá standa þar tvær nunnur, og ég, minnug
þess sem áður gerðist, segist ná í mrs. Tolkien og loka dyrunum. Og
hún heilsaði afskaplega innilega og útskýrði fyrir þeim að ég væri

útlendingur. Afsakaði að þær væru látnar standa úti. Þetta voru nunnur

sem gengu á kaþólsk heimili að selja handavinnu. Ég hló nú með sjálfri
mér að svona rekst þetta allt á." Og Öddu er enn skemmt yfir þessu í
dag.

"Þegar ég var þarna voru Morris- bílaverksmiðjurnar búnar að reisa sér
framleiðslustað fyrir sunnan Oxford og það heyrðist hávaði upp

Northmoor Road þar sem við vorum. Þeim fannst þetta ómögulegt, það

væri verið að eyðileggja Oxford með svona nokkru. Já, þau voru
svolítið afturhaldssöm, t.d. voru bíó alveg afskrifuð en leikhús aftur
var gott."

Mér virðist sem þér hafi þótt vænt um stundirnar með börnunum?

"Já afskaplega. Stákarnir . . . John var elstur, 14 ára, og hann var

líkur pabba sínum, blærinn var hans. Sá næsti var Michael og hann var
svo laglegur, fallegur krakki, að mamma hans var stundum stoppuð úti á
götu; hann vakti athygli. "Og hann á að verða prestur," sagði mamma

hans. "Guð almáttugur," sagði ég "heldur þú að hann fái nokkurn frið?"

Christopher var yngstur og var alltaf þrætuepli þeirra hjóna. Hann var
svolítið vælinn, ekki skemmtilegur krakki. Hann vildi ekki borða þetta
og ekki svona . . . þú veist. Pabbi hans hélt upp á hann alla tíð og
vildi sinna honum og gerði sér grein fyrir að það þurfti að taka

öðruvísi á honum en þeim hinum. Seinna lifði svo Christopher á því að
gefa út verk föður síns eins og bók með jólabréfunum sem Tolkien gerði
handa börnum sínum. Þetta kom í lokuðu umslagi til þeirra á hverjum

jólum. Þegar ég er þarna er Tolkien að byrja að skrifa "Hobbitinn" og
er í raun og veru að semja söguna fyrir Christopher og las fyrir hann.
Hann hafði stórt bókaherbergi, "stöddíið", og þar samdi hann.

John varð prestur, sá elsti. Hann var sá sem mamma hans sagði við:
"John, Adda á ekki að baða þig." Hún stoppaði það. En þeir elskuðu það
alveg að ég sæti hjá þeim við baðkarið og segði þeim sögur og talaði

við þá bara. Ég hafði gaman af að vera með krökkunum. Við fórum

stundum niður að síki utan við bæinn og veiddum hornsíli.


Adda fékk alltaf fréttir af fjölskyldunni þótt það slitnaði upp úr
bréfaskriftum í stríðinu. Hún kom hins vegar aldrei aftur inn á
heimili Tolkien-hjónanna. Svo kemur hún heim mitt í kreppunni og
atvinnuleysinu og var svo heppin að fá vinnu hjá Fiskifélaginu sem var
þá að byrja með hagfræðiskýrslur um fiskveiðar og útflutning. Það
hjálpaði auðvitað að hafa enskukunnáttu og þarna vann hún í 18 ár.

"Ég fylgdi fiskinum upp úr sjónum. Hvernig hann var verkaður, hvað var

gert við hann, hvurt hann var seldur og svo til baka, hvað fékkst
fyrir hann o.s.frv. Þetta var voðalega spennandi. Fiskifélagið hafði

menn úti á landi í þorpunum og þeir söfnuðu aflatölunum. Ég hringdi
alltaf tvisvar í mánuði hringinn í kringum landið, fékk tölur hjá þeim
og vann svo úr því. Þá var ekki til . . . náttúrulega ekki tölva, en
ekki heldur rafmagnsritvél eða reiknivél þetta var allt handsnúið.

Síðustu árin var ég komin með eigin skrifstofu. Þessar upplýsingar
spiluðu svo mikla rullu þá að það var segin saga, að þegar þing kom

saman þá komu alltaf þingnefndir og vildu fá upplýsingar. Ég lenti oft

í að vélrita heilu formúlurnar fyrir þá." Svo flytur fjölskyldan til

Selfoss þegar Marteinn, eiginmaður Arndísar, fær vinnu á Suðurlandi

við að gera útekt hjá bændum. Vinnan átti að vera bara í fáein ár en

varð 25 ár. "Svæðið hans náði frá Núpsvötnum og vestur í Selvog, þetta
var náttúrulega brjálæði," segir Adda.


En ekki var hægt að sleppa Arndísi án þess að heyra eitthvað frá

Bíldudal þar sem hún ólst upp.

"Pabbi minn var héraðslæknir og það tilheyrðu honum allar sveitirnar
út allan Arnarfjörðinn sunnanverðan. Þetta hafa verið svona 1.000

manns að hugsa um.

Pabbi stofnaði svo sparisjóð þarna, því það var þannig lag á að
kaupmaðurinn sem átti útgerðina rak líka verslanirnar... og fólkið var
eiginlega þrælar. Það fékk aldrei pening í hendurnar, bara úttekt. Já,
annars var þetta indæll maður, en svona var lagið á þessu. Pabbi hafði
nú einhver laun fyrir að reka sparisjóðinn, sem ég held að hafi verið

notuð til reksturs heimilisins, en föstu launin voru lögð fyrir þar
til börnin færu í nám. Foreldrar mínir, ekki síst pabbi, lögðu
afskaplega mikið upp úr því að við fengjum menntun. Yfirleitt hafði
fólk ekki lært neitt nema í barnaskólanum. Það var í rauninni alveg
sérstakt að við vorum sjö og fengum öll það nám sem við vildum. Við

fórum öll heiman að um fermingu til að komast í framhaldsnám.

Einu sinni kom maður sem ég þekkti frá Bíldudal upp í Fiskifélag og

bauð mér með sér niður í Sjálfstæðishús, sem var "restaurasjón" þá.

Hann hafði farið til Ameríku og var margmilljóner. Hann hafði heimsótt

bróður minn í Ameríku, sem er læknir, með heyrnarlausa dóttur sína. "Á
hverju hefur Maggi orðið svona ríkur?" spurði ég bróður minn seinna.
"Ég hef ekki hugmund um það," var svarið. "Ætli hann selji ekki bara
eiturlyf . . ." bætir Adda við og skellihlær.


"Maggi þessi sagði, að pabbi minn hefði sagt sér að drífa sig burt frá

Bíldudal og fara þar sem er skóli. Pabba fannst þetta engin framtíð
fyrir unga fólkið."

Adda kenndi tvo vetur í unglingaskólanum á Bíldudal sem var verið að

koma upp. "Ég kenndi meira að segja á orgel þótt ég hafi bara verið
búin að læra í einn vetur. Fólk var eins og svampar varðandi menntun,"
segir Adda.


Ýmislegt er Öddu minnisstæðara en annað úr barnæskunni.

"Þegar pabbi kemur sem læknir á Bíldudal er allt flæðandi í berklum.
Og svo árið 1920 deyr Björn bróðir úr berklum.

Þetta var voðalega harður vetur og mikill frostavetur árið áður.

Hafís; svo að maður gekk út á miðjan Arnarfjörð á ís. Það kom
gífurlegt snjóbrot úr gili þetta árið, það var í júnímánuði og mikil
fönn ennþá. Þá vorum við krakkarnir að leika okkur upp undir

fjallsrótum í snjóskafli. Heiman frá séð kvíslaðist vatnið eins og
rætur yfir skaflinn; okkur fannst þetta spennandi. Við áttum fótum
fjör að launa undan þessu flóði. En það varð nú ekki manntjón og ekki
alvarlegt, en ógurlegur aur. Þórður bróðir minn var þarna og missti
skóinn sinn á hlaupunum. Við urðum voðalega hrædd. Ég man að ég varð
hálftryllt bara. Ég æddi í gegnum húsið heima, inn um aðrar dyrnar og
út um hinar og áfram niður í plássið. Þar greip mig kona og bar mig.
Hún bjó hinum megin við ána, og tók mig yfir trébrú sem þá var og fór
með mig heim og lét mig róast." Adda staldrar örlítið við í frásögn
sinn og hugsar líklegast 78 ár aftur í tímann.


"Svo fæddist nýr Björn sem fór til Bandaríkjanna og varð læknir. Við

Marteinn höfum farið tvisvar og svo fór ég ein núna síðast fyrir 5­7

árum síðan þegar eldri sonur Björns var að gifta sig. Þau hjónin
hálfkviðu fyrir að hitta allt fólkið sem þau þekktu ekkert og vildu að

ég yrði fulltrúi ættarinnar í brúðkaupinu. Ég var afskaplega ánægð að
ég fór þessa ferð. Ég var þá 81 árs gömul, alveg frísk, nema hægri
löppin á mér. Ég hélt svo ræðu til heiðurs brúðhjónunum og bjargaði

þessu alveg, sagði bróðir minn."

Og það efast ég ekki um þar sem Arndís hefur útgeislun og reisn á við tvo.


Hún sagði mér sögur af fleiri ferðalögum lífs síns og gaf mér falleg
minningarbrot um nýútsprunginn laufskóg og rústir umvafðar rósum. Áður
en við kveðjumst sýnir hún mér garðinn og ekki er annað að sjá en að

hún, ekkert síður en prófessorsfrú í Oxford, leggi alúð og metnað við

tré og plöntur. Ég kveð hana þar sem hún stendur á útitröppunum. Ég er
orðin örlítið fróðari um sérstakan prófessor í Oxford og hef fengið að
kynnast greindri og skemmtilegri frú á Selfossi.

HÚS Tolkien-hjónanna við Northmoor Road.

J.R.R. Tolkien með litlu dóttur sína.


ÞESSA mynd tók prófessorinn af Öddu og Edith með börnunum úti í garði.

ARNDÍS í dag á heimili sínu á Selfossi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband