Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Nóg komið

Ágætu lesendur.

Ég hef tekið þá ákvörðun að hætta að blogga hér á blog.is.

Ég þakka bloggvinum mínum skemmtilega samleið í þessi tvö ár sem ég hef verið að og þeim fjölda sem skrifað hafa athugasemdir við bloggið mitt.

Umhverfi og viðmót blog.is er að mínu viti afar gott og ekkert út á það að setja. Ég er hins vegar ósáttur við ýmsa aðra þróun mála á mbl.is sem ekki er nauðsynlegt að tíunda hér.

Bestu kveðjur,


Ofbeldi með orðum

Ofeldi orðaÞað er löngu viðurkennt að orð, hvort sem þau eru sögð eða skrifuð, geta flokkast undir virkt ofbeldi.

Viðvarandi obeldi í orðum er mjög skaðlegt og getur valdið alvarlegum truflunum á tilfinningalífi þeirra sem því er beint gegn, skaðað sjálfsmynd þeirra og haft áhrif á andlegt og líkamlegt heilsufar þeirra. 

Sífelldar skammir og svívirðingar teljast andlegt ofbeldi. Slíkt á sér ekki aðeins innan veggja heimilanna, heldur einnig á vinnustöðum og á opinberum vettvangi. Þá er algengt að því sé beint gegn hópum eða pólitískum andstæðingum.

Að baki þess að beita einhvern ofbeldi af þessu tagi liggur einatt mjög lágt sjálfsmat gerandans:

Honum finnst hann ekki nógu góður og líklegt er að honum finnist hann valda öðrum stöðugum vonbrigðum. Þess vegna sækist hann eftir að setja fórnarlömb sín í sömu stöðu og hann er sjálfur.

Þá hefur það sannast að vaxandi ofeldi í orðum, leiðir til líkamslegs ofbeldis.

Helstu einkenni ofbeldis með orðum eru m.a. þessi:

  • Skeytingarleysi, hæðni, vanvirðing, og stöðug gagnrýni á aðra.
  • Lymskulegt orðaval.
  • Að niðurlægja aðra með ásetningi. 
  • Að ásaka aðra ranglega til að stjórna umræðunni  
  • Láta öðrum finnast þeir minnimáttar og undirmáls.
  • Láta sem orsakir ofbeldisins sé hegðun annarra.
  • Reyna að einangra fórnalamb sitt frá stuðningi annarra.

Ástarbréf

loveletter-main_Full

"Ég þarfnast þín. Ég hugsa um þig, dag og nótt. Þú ert hér hjá mér þótt þú sért svo fjarri. Ég faðma sængina og óska mér að þú værir hér. Hvað ég vildi að ást mín væri án sektakenndar. Hvað ég vldi að þú værir sama sinnis og ég svo við gætum verið saman að eilífu."

Sú var tíðin að ástarbréf þóttu meðal mestu gersema sem fólk átti í fórum sínum. Ástarbréf voru oftast geymd í lokuðum hirslum sem enginn nema eignandinn hafði aðgang að og venjulega komust slík bréf ekki fyrir almenningssjónir fyrr en bæði ritari þeirra og vitakandi voru fallnir frá.

Sum þeirra urðu að ómetanlegum heimildum um viðkomandi og vörpuðu  nýju ljósi á þankagang og hjartalag þeirra. - Ritun ástarbréfa var talsverð list, enda þurftu elskendurnir að setjast niður í ró og næði, og vanda sig við að setja sínar innstu hugrenningar niður á pappírinn með sinni bestu rithönd.

Spurningin er hvort sú list sé að týnast á öld farsíma, sms skilaboða, emaila, twitter, og bloggs. Það er orðið ansi langt síðan að ég skrifaði einhverjum sendibréf sem póstlagt var upp á gamla mátann. Flest skrifleg samskipti mín við annað fólk er í gegnum emaila. Þegar ég sest niður við tölvuna hamra ég niður í flýti það sem ég held að komi meiningu minni eða erindi sem fljótast til skila. - Og jafnvel þótt ég færi eins að tölvunni og  bréfritarar í gamla daga nálguðust pappírsörkina með sinn blekpenna, finnst mér sendibréfið enn miklu rómantískari miðill. -

1245009572af7FIvHvað geyma margir emailana sína til lengri tíma, að ekki sé talað um SMS skilaboð eða Twitt. Þó að ég sé alveg viss um að að fólk er ekkert síður rómantískt en áður, er þessi þessi hárómantíska tegund tjáningar klárlega á undahaldi.

Eða á kannski ungt fólk framtíðarinnar eftir að koma opinminnt fram í eldhús með eldgamla fartölvu í höndunum segjandi;" Vá, mér tókst loks að kveikja á gömlu tölvunni hennar ömmu og opna þetta fornaldar póstforrit. Gettu hvað ég fann? Viltu heyra;

Ég þarfnast þín. Ég hugsa um þig, dag og nótt. Þú ert hér hjá mér þótt þú sért svo fjarri. Ég faðma sængina og óska mér að þú værir hér.

Hvað ég vildi að ást mín væri án sektakenndar. Hvað ég vildi að þú værir sama sinnis og ég svo við gætum verið saman að eilífu. Ég hlusta stöðugt á uppáhalds lagið þitt án þess að gera mér grein fyrir því, af því að þá finnst mér ég vera nær þér. Í hvert sinn sem ég sé þig þrái ég þig meira, ef það er mögulegt.

Hugur minn segir mér að hitta þig ekki aftur nema að ég þurfi aldrei að yfirgefa þig aftur, vegna þess hve sársaukafullt það er að kveðja þig. En hjarta mitt segir að ekkert fái stöðvað mig frá að njóta með þér hverrar mínútu sem ég mögulega get. Og í hvert sinn sem ég er nálægt þér, bíð ég eftir að samveran nái einhverjum hápunkti, en hún gerir það aldrei. Þráin til að vera hjá þér er viðvarandi, stöðug og fær mig til að vilja þrýsta þér að brjósti mínu svo þú getir hlustað á hjarta mitt hrópa nafn þitt og segja þér frá þeim hræðilegu dögum og skelfilegu nóttum sem ég er fjarri þér.

Augu mín vökna í hvert sinn sem ég horfi á þig og ég verð að neyða þau til þess að horfa á þig eins og vinur á að gera. Ég vona enn, árangurslaust, að sársaukin muni dofna eða hverfa með tímanum. En tíminn hefur svikið mig, því eftir því sem hann líður, þrái ég þig meira.

Hvert smáatriði í sambandi við þig er sem grafið á hjarta mitt, heillar mig, snarar mig. Þegar ég segi að þú sért undraverð, er það aum lýsing á áliti mínu á þér, því þú ert mér ráðgáta. Hvað á ég að kalla þig? Hvað kallar maður þann sem er manni allt og ekkert? Allt,  vegna þess ég elska þig, ekkert,  vegna þess að ég get aldrei látið í ljósi við þig það sem býr í brjósti mínu. Orðið "vinur" nægir mér ekki. Ég er ekki ánægður með þann titil. En hvað er ég þá?  Ég er löngu hættur að vera bara "vinur" þinn.

Ég hef oft pælt í hvað mundi gerast ef ég segði þér hvernig mér raunverulega líður. En við eru föst einhversstaðar á milli þess að vera vinir og einhvers meira,  vegna þess að ég er hræddur við að þú hafnir mér ef ég segi þér sannleikann. Aðeins ótti minn stendur í vegi fyrir mér. Því þótt ég fái ekki að elska þig á þann hátt sem ég hef lýst, vil ég samt ekki fórna vinskapnum. Ótti minn er að þú klippir á sambandið fyrir fullt og allt af því þér líður ekki eins. 

Í dag mun ég sitja hér og þú þarna og ég mun gæta þess að augu mín endurspegli ekki ástinni og sársaukanum sem beinist að þér. Og í kvöld mun ég fara í rúmið og dreyma sama drauminn og ætíð, þar sem við erum stödd út við hafið.  Þú ert í sjónum og ég stend á bryggjusporðinum. Ég er að hugsa um að stökkva út í til þín en er hræddur. Og þegar ég loks stekk er ég ósjálfbjarga í vatninu og það er undir þér komið hvort þú bjargar mér eða ekki. Og þegar ég byrja að sökkva finn ég arma þína lykjast um mig og toga mig upp og ég get andað á ný.

Og ég horfi í augu þín og sé hvað þau hafa falið frá mér allan þennan tíma. Síðan syndum við saman inn í sólsetrið.

Á morgun mun ég aftur sjá þig og þykjast elska þig eins og vinur, hræddur við að stökkva. Ef ég ákveð að stökkva, viltu þá grípa mig... ef ég ýti á... senda?

"Og frá hverjum er þetta?" spyr mamman.

"Hvurjum heldurru.... afa audda."

 


Heimsfræga konan á Heiðarveginum

BlaðadrengurFljótlega eftir að ég kom fyrst til Keflavíkur (1962) , byrjaði ég að bera út Moggann. Gísli Guðmundsson afi minn vann hjá Skafta í efnalauginni á Hafnargötunni og hann var einmitt umboðsmaður Morgunblaðsins. Þar með átti ég hauk í horni sem hjálpaði mér að fá starfið.  Það fylgdi djobbinu að rukka fyrir áskriftina og þess vegna kynntist ég flestum "viðskiptavinum" mínum lauslega, þótt fæstir þeirra væru á ferli laust fyrir klukkan sjö á morgnanna þegar ég skaust upp að húsdyrunum til að troða blaðinu inn um bréfalúguna eða festa það milli stafs og hurðahúnsins.

Í litlu ljósgrænu húsi við Heiðarveginn sem tilheyrði því hverfi sem ég bar út í, bjó kona sem er mér afar minnisstæð. Hún kom mér fyrir sjónir sem glæsileg miðaldra kona, með rautt og mikið hár. Hún hafði þann sið að taka alltaf á móti mér við útdyrnar, gjarnan í skrautlegum náttkjól en ávalt með andlitsfarða og varalit. Oft bauð hún mér upp á mjólkurglas og kexköku sem ég sporðrenndi venjulega fyrir framan hana á dyrapallinum, áður en ég hljóp svo aftur af stað. Satt að segja vissi ég ekki hvað ég átti að halda um hana því lyktin heima hjá henni var líka miklu betri en ég átti að venjast í öðrum húsum.

ThumbnailMariaMarkanEinhverju sinni var móðir mín að fara yfir rukkunarheftið og rak þá augun í nafn þessarar konu. Henni þótti greinilega talsvert til hennar koma því hún fræddi mig á því að hún væri "heimsfræg" fyrir söng sinn. Sérstaklega tíundaði hún að þessari konu hefði einni allra Íslendinga verið boðið að syngja við Metropolitanóperuna í New York. Ég man að mér þótti þetta nokkuð merkilegt og var talvert upp með mér um tíma fyrir að bera út moggann til frægustu söngkonu Íslands, frú Maríu Markan. 

Eitt sinn þegar ég fór að rukka hana að kvöldlagi kom til dyranna stálpaður unglingur með rauðan lubba. Hann náði í mömmu sína og samskipti okkar urðu ekki meiri. Þarna mun hafa verið á ferð sonur Maríu, sá sem síðar varð einhver besti og þekktasti trymbill Íslendinga, Pétur Östlund.

Pétur segir einmitt þetta um dvöl sína í Keflavík;

353485Það var árið 1957. Ég var 14 ára,  bjó í Keflavík og gekk í skóla uppá velli (innsk.: "völlurinn" er fyrrum herstöðin á Keflavíkurflugvelli). Ég hafði ekkert að gera og var að þvælast í svokölluðum "Service Club" og sá auglýsingu um ókeypis trommukennslu og skráði mig í það. Fyrsti kennarinn minn hét Gene Stone. Hjá honum fékk ég kjuðapar og æfingaplatta og þá var ekki aftur snúið. Atvinnumannaferill minn hófst um 16 ára aldur og ég hef starfað við trommuleik og trommukennslu allar götur síðan. 

Mér er ekki kunnugt um hversu mikinn þátt María átti  í mótun tónlistarlífsins í Keflavík á þessum árum,  fyrir utan að vera móðir Péturs sem verður að teljast þó nokkuð. Pétur spilaði með keflvískum hljómsveitum eins og Hljómum og Óðmönnum við góðan orðstír. En eitthvað hefur hún lagt sig eftir að kenna og leiðbeina keflvískum ungmennum því á heimasíðu hins frábæra dægurlaga söngvara Einars Júlíussonar sem frægur varð fyrir söng sinn með hljómsveitinni Pónik, fann ég þessa frásögn;

imageÞegar  rokkæðið skall á Íslandi var Einar Júlíusson þegar orðinn barnastjarna í Keflavík. Hann fæddist þar, yngstur systkina sinna, 24. ágúst 1944 og var farinn að syngja opinberlega áður en hann fór í barnaskóla. Svo skemmtilega vildi til að í sama bekk og hann var annar upprennandi tónlistarmaður; Þórir Baldursson.

Á unglingsárunum bauðst Einari óvænt söngnám hjá  Maríu Markan sem á þessum árum bjó í Keflavík. Einar hafði það fyrir sið þegar illa lá á honum að setjast í róluna á róluvellinum, þar rólaði hann sér og söng hástöfum, nágrönnum leiksvæðisins til dægurstyttingar sem öllu jafna fannst gaman að heyra þessa björtu og hljómfögru söngrödd. María Markan átti einhverju sinni leið hjá og bauð hún Einari að koma til sín í tíma án endurgjalds. Einar var hins vegar of feiminn til að þiggja boðið og sagði síðar frá því að þar hefði hann farið illa að ráði sínu.

Um merkiskonuna Maríu er ekki margt að finna á netinu en endurminningar hennar voru gefnar út af Setberg árið 1965 og ritaðar af Sigríði Thorlacíus. Eftirfarandi æviágrip eru tekin úr Tónlistarsögu Reykjavíkur.

María Markan er fædd í Ólafsvík 25. júní 1905. Hún er systir Einars og Sigurðar Markan söngvara og Elísabetar, sem einnig er kunn söngkona. María Markan lærði að syngja hjá Ellen Schmücker í Berlín frá 1928 og nær óslitið til 1935. Hún hélt fyrstu sjálfstæðu tónleika sína í Berlín 16. febrúar 1935 með undirleik prófessors Michaels Raucheisen, sem er frægur píanóleikari og mjög eftirsóttur undirleikari. Hún vann þá mikinn sigur. Hún var ráðin að Schilleróperunni í Hamborg 1935, og söng þar frá því um haustið til næsta vors, en þá rann samningurinn út. Fór hún Þá aftur til Berlínar og hélt áfram í tímum hjá sínum gamla kennara, Madame Ellen Schmücker. Síðan var hún ráðin að óperunni í Zittau, skammt frá Dresden, og var það árssamningur. Forráðamenn óperunnar vildu endurnýja samningin annað ár til viðbótar, en því boði hafnaði María, og fór hún þá aftur til Berlínar vorið 1937. Valt nú á ýmsu hjá henni eins og gerist og gengur í lífi listamanna, sem ekki hafa unnið fullnaðarsigur, og varð henni ljóst, og reyndar sagt það af sjálfum forstjóra Berlínaróperunnar, að það eitt myndi hamla því, að hún kæmist í fremstu röð söngvara í þýskalandi, að hún væri útlendingur.

champselyseesfigaro1En brátt fór að vænkast hagurinn. Hún söng á norrænni viku í Kaupmannahöfn 1938 og ennfremur greifafrúna í „Brúðkaupi Figarós“ eftir Mozart í konunglega leikhúsinu þar í borg. Fritz Busch, hljómsveitarstjórinn heimsfrægi, hafði fengið augastað á söngkonunni og réð hana til að syngja þetta hlutverk í Glyndbourne-óperunni í Englandi, en þessu óperuhúsi stjórnaði hann. Þetta var mestur heiður, sem Maríu Markan hafði hlotnast fram að þessu, því valið er úr beztu söngvurum álfunnar í hvert sinn til að syngja þar. María tók við þessu hlutverki af Aulikki Rautavara, beztu söngkonu Finnlands, sem minnst verður á hér á eftir. Glyndbourne-óperan starfar á sumrin, og til skams tíma voru þar eingöngu fluttar óperur eftir Mozart, en ekki eftir önnur tónskáld.

Er heimstyrjöldin var skollin á, breyttist viðhorfið, og fór María þá til Ástralíu, skv. samningi við Ástralíuútvarpið, og söng þar í útvarp og í konsertsölum í ýmsum borgum. Henni var hvarvetna mjög vel tekið og framlengdi útvarpið samninginn við hana. Dvaldi hún ár í landinu.

opera_romaSíðan lagði hún leið sína til Kanada, hélt sjálfstæða tónleika í Winnipeg og víðar, og síðan til New York. Þar var hún ráðin við Metropolitanóperuna 1941-1942. Þangað eru sjaldan ráðnir aðrir listamenn en þeir, sem hlotið hafa heimsfrægð.

Í Reykjavík hefur María Markan margoft sungið, allt frá því að hún var enn við söngnám í Berlín - hún söng þá hér heima í sumarleyfum, t.d. árin 1930, 1933 og 1938. Ennfremur söng hún hér um haustið 1946 og sumarið 1949. Undirleikarinn er Fritz Weisshappel, sem var kvæntur systurdóttur hennar. Loks söng hún hér í Þjóðleikhúsinu um veturinn 1957 í óperunni „Töfraflautunni“ eftir Mozart. Í óperunni koma fram þrjár þernur, sem syngja saman terzetta. María söng þá hlutverk fyrstu þernunnar.

María Markan hefur háa sópranrödd, sem er í senn mikil og glæsileg. Raddsviðið er sérstaklega mikið og dýpstu tónarnir svo fagrir, að mörg alt-söngkonan mætti öfunda hana af þeim. Hér á landi á hún vinsældir sínar mest að þakka söng sínum í ljóðrænum lögum, ekki sízt íslenzkum, sem hún syngur mjög fallega. En hún er meiri sem óperusöngkona. Hin mikla rödd hennar fær fyrst notið sín til fulls í óperuaríum. Dr. Páll Ísólfsson sagði í Morgunblaðinu eftir söng hennar sumarið 1949: „Mesta söngkona Íslands fram að þessu.“

María Markan var gift George Östlund og var búsett í Bandaríkjunum 1940-1955. Þau hjónin fluttust heim til Íslands vorið 1955. Hún missti mann sinn í árslok 1961.


Hvernig þú færð aðra til að líka við þig

South%20ParkAllir vilja að örðum líki vel við sig. Hundruð þykkra doðranta hafa verið skrifaðar um efnið en yfirleitt eru þær svo flóknar að fólk gleymir þeim jafnóðum. Þess vegna ákvað ég að taka saman í eins stuttu máli og hægt er, þá þætti sem reynslan hefur sýnt að gerir fólk vinsælla en nokkuð annað. Ef þú tileinkar þér þessar einföldu ráðleggingar mun fólki líka við þig. Prófaðu bara í næsta skipti sem þú hittir einhvern. Ég ábyrgist að þetta virkar.                                   Ef ekki færðu peningana þína aftur:)

Til að fólki líki við þig skaltu:

1. Sýna öðru fólki einlægan áhuga.

2. Brosa

3. Muna eftir hvað fólk heitir.

4. Spyrja spurninga....og þegja svo

5. Spyrja um það sem aðrir hafa áhuga á

6. Slá fólki einlæga gullhamra


Of hrædd til að ferðast saman í sömu flugvél -

090602-flight-main-12e07f87-6448-4ade-9a41-cf51495a3f7bSögur þeirra farþega sem hurfu í Atlantshafið með flugi Air France AF 447 og aðstandenda þeirra eru byrjaðar að flæða um fjölmiðlana og netið. Ein þeirra segir frá hinni sænsku Schnabl fjölskyldu.

Christine 34 ára og eiginmaður hennar höfðu búið í Rio de Janeiro í tíu ár, en upprunalega voru þau frá Svíþjóð. þau áttu tvö börn, Philip fimm ára og þriggja ára dóttur.

Þau ákváðu að heimsækja Svíþjóð saman en vegna þess að bæði voru hrædd við að lenda í flugslysi ákváðu þau að skipta fjölskyldunni upp og taka sitt hvora vélina til Parísar og aka þaðan til Svíþjóðar.  

Herra Schnabl  ásamt dótturinni tók vél sem fór á undan og þau lentu  heilu á höldnu í París nokkrum tímum seinna. Hann spurðist fyrir um vélina sem Christine kona hans og sonur hans Philip höfðu tekið og fór í loftið tveimur tímum á eftir hans vél.

Honum var þá sagt að hennar væri saknað. 


Harmleikurinn við Beachy Head

Breskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um þá hörmulegu atburði sem áttu sér stað s.l. sunnudag við Beachy Head hamra í austur Sussex. forsaga þeirra er í stuttu máli þessi;

Kazumi, Neil og SamKazumi og Neil Puttick eignuðust son fyrir fimm árum. Þau nefndu hann Sam. Aðeins sextán mánaða lenti hann í bílslysi og hlaut af því miklar mænuskemmdir. Sam lamaðist frá höfði og niður. Móðir hans Kazumi sem var hjúkrunarkona að mennt helgaði sig algjörlega umönnun Sams litla og sérstakur sjóður var stofnaður til styrktar honum. Með aðstoð sjóðpeninganna var keyptur sérútbúnaður fyrir Sam. Í janúar er haft eftir föður hans í viðtali þar sem hann þakkaði öllum sem að höfðu komið. "Ég er faðir sem aðeins langar til að sjá son sinn vaxa úr grasi hamingjusaman og heilbrigðan. Þið hafið gefið fjölskyldu okkar tækiæri til að sjá son okkar alast upp, þrátt fyrir slysið, og verða að þeirri persónu sem hann alltaf hefði orðið að."

Fyrir viku síðan veiktist Sam og læknar greindu hann með alvarlega heilahimnubólgu. Foreldrum hans var sagt að batahorfur væru afar litlar. Þau ákváðu að fara með Sam heim þar sem hann dó s.l. föstudag.

Á sunnudagskvöl fann strandgæslan lík Kazumi, Neils og Sams fyrir neðan klettana við ströndina við Beachy Head. Bifreið þeirra hjóna fannst í stæði skammt frá þessum alræmda sjálfvígastað, um 150 km. frá heimili þeirra. Niðurbrotin og yfirbuguð af sorg höfðu hjónin komið líki Sams fyrir í bakpoka ásamt uppáhalds leikföngunum hans og stokkið með hann á milli sín fram af 150 metra háum sjávarklettunum.

 

Hér að neðan er stutt myndband sem sýnir foreldra Sams þjálfa hann.


"Its a little piece of Iceland in my yard"

Svanir og garður 005Fyrir framan hverja íbúð í húsaröðinni þar sem ég bý í borginni Bath á Englandi, eru smá blettir sem íbúunum eru ætlaðir til afnota. Bletturinn fyrir framan íbúðina mína er sá eini sem er ósleginn. Ástæðan er sú að aðeins á þessum litla bletti má sjá blóm sem minna mig á Ísland. Fíflar, biðukollur, sóleyjar og baldursbrár. Ekki að heimþrá kvelji mig neitt sérstaklega, en mér finnst samt gott að geta litið út um gluggann og séð eitthvað afar kunnuglegt. Ég hef tekið eftir því að þessi blóm er hvergi að finna í öðrum húsgörðum hér í kring. En í garðinum mínum dafna þau vel. Jafnvel á túninu sem liggur niður að ánni Avon hinumegin við götuna, sjást þau hvergi. 

Nágrannar mínir halda auðvitað að ég sé bara svona latur að ég nenni ekki að slá blettinn. En þeir sem hafa haft orð á þessu við mig hafa fengið þessa skýringu. "Its a little piece of Iceland in my yard".

Svanir og garður 001Annars hef ég verð dálítið miður mín undafarna daga. Álftaparið sem ég bloggaði um fyrir stuttu lenti greinilega í einhverjum hremmingum með varpið. Fyrir nokkrum dögum kom ég að hreiðrinu og sá að það var autt. Tvö egg lágu út í vatninu, enginn skurn eða neitt í hreiðrinu og hvorugt þeirra hjóna sjáanlegt á ánni.

Maður nokkur sem sá að ég var að skyggnast um eftir þeim, stoppaði mig og sagði að það væri haldið að varpinu hefði verið spillt af einhverjum pörupiltum. Ég tók þessa skýringu trúanlega og syrgði í hljóði mennska ónáttúru.

Í dag gekk ég upp með á og viti menn. Í grennd við hreiðrið sá ég hvar hjónin komu siglandi og ekki var betur séð en að á baki karlsins sætu tveir örsmáir dúnboltar. Hvað sem gerðist tókst frúnni greinilega að klekja út tveimur eggjum, og það var alla vega nóg til að ég tæki gleði mína á ný.


Geymdu barnið sitt í frosti í nær 11 ár

Shani Moran SimmondsÞessi litla stúlka heitir Shani Moran Simmonds. Hún var getin árið 1996 en fæddist ekki fyrr en árið 2006. Líffræðilega er hægt að segja að hún sé bæði 14 ára og þriggja ára. Hún er talið elsta "frostbarnið"  (frostie) í heiminum.

Foreldrar hennar heita Debbie og Colin og búa í Bretlandi. Þau reyndu árangurslaust að eignast barn á árunum 1995-6. Læknarnir sem þau leituðu til komust að því að báðir eggjaleiðarar Debbie voru stíflaðir.

Læknunum tókst samt að taka úr Debbie talvert af eggfrumum og frjóvga þau með sæði Colins. En þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að fá fóstrin til að lifa eftir að þeim hafði verið komið fyrir í Debbie.Að lokum gáfust þau upp og eftir það sættust þau á að þeim yrði ekki barna auðið.

Í 11 ár greiddu þau samt 150 pund á ári fyrir frostgeymslu á þeim fóstrum sem eftir voru án þess þó að hafa nokkra von um að þau mundu nokkru sinni verða að börnum.

Í Bretlandi er löglegt að geyma fóstur í allt að 10 ár og aðeins lengur ef læknar telja einhverja von um að mögulegt sé að koma þeim á legg. Þegar að þeim hjónum var tilkynnt um að árin 10 væru úti og fyrir dyrum stæði að eyða fóstrunum ákváðu þau að reyna einu sinni enn. Tækninni hefur fleytt fram á þessum tíma og ný lyf til að örva vöxt fóstra komið fram.

Colin og Debbie Moran SimmondsTveimur fóstrum var komið fyrir í Debbie og í þetta sinn hafnaði líkami hennar bara öðru fóstrinu. Debbie varð ófrísk og ól heilbrigða og fallega dóttir eftir eðlilega meðgöngu.

Saga Debbie og Colins er vitaskuld miklu flóknari og lengri en hér verður við komið að segja frá, en þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þessa óvenjulegu frásögn geta nálgast hana á enskri tungu hér. 


Verðandi feður fitna á meðgöngutíma makans

scottbaioAð jafnaði bætir verðandi faðir á sig 6.35 kg. á meðan að meðgöngu makans stendur. Þetta kemur fram í nýlegri skoðanakönnun sem gerð var í Bretlandi fyrir markaðsfyrirtækið Onepoll. 

1000 af 5000 karlmönnum sem tóku þátt í könnuninni sögðu að matarskammtarnir hefðu einfaldlega stækkað og 41% þeirra sögðu að meiri snarlfæðu væri að finna í húsinu.

Þá kom í ljós að 25% karla borðuðu meiri mat til að mökum þeirra liði betur með að þyngjast.

Uppáhald  óléttu snarl feðra er m.a. pizza, súkkulaði, kartöfluflögur og bjór.

 

Meðalþunginn sem feður auka við sig sest aðallega um mittið og mittismálið eykst um tvær tommur. Fjórðungur viðurkenndi að hafa fjárfest í sérstökum þungunarfatnaði.

Fimmtungur kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir þyngdaraukningunni fyrr en fötin sem þeir klæddust hættu að passa.

42% sögðust sækja veitingastaði og krár meira með maka sínum á meðgöngunni en áður, til þess eins að gera mest úr þeim tíma sem þau höfðu til að vera saman ein þangað til að barnið fæddist.

En aðeins þriðjungur karlanna tók þátt í grenningarprógrammi makans eftir fæðinguna.  

ff1Ekki konum að kenna

Verðandi mæður þyngjast að meðaltali um 16 kg. á meðgöngunni. Það er ekkert óeðlilegt þótt þær neyti feitari fæðu og borði snarl oftar en áður.

Á meðgöngunni eru konur einnig hvattar til að neyta sem nemur 300 hitaeiningum meira á dag en ella. Það er ekki nema von að karlmenn freistist til að taka þátt þegar eldhússkáparnir fyllast allt í einu að snakki og snarlmat.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband