Reglur mannréttindaráðs teygja sig inn fyrir veggi kirkjunnar

Breiðagerðisskóli reynir að koma á móts við  reglur Mannréttindaráðs Reykjavíkur um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög.  Í fyrirhugaðri heimsókn skólabarna i  Bústaðarkirkju á aðventunni, hefur orðið samkomulag milli prestsins Pálma Matthíassonar og skólastjórans Guðbjargar Þórisdóttur um að ekki skuli farið með einu bænina sem Kristur kenndi fylgjendum sínum að biðja, faðirvorið.

Þeir liðir reglnanna sem við eiga í þessu tilfelli eru;


d) Heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma grunnskóla skulu eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir, samkvæmt gildandi lögum og aðalnámskrá. Þar sem ekki er sérstaklega getið um vettvangsheimsóknir leikskólabarna á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga sem lið í fræðslu um trú og lífsskoðanir í aðalnámskrá leikskóla er eðlilegt að miða fjölda slíkra heimsókna við það sem fram kemur í aðalnámskrá grunnskóla til að gæta samræmis milli skólastiga.

e) Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og
lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni.

Nú er það svo að liður í helgihaldi kristinna manna sem fer fram í kirkjum er að fara með faðirvorið. Þótt samverustundin sem fyrirhuguð er í kirkjunni, sé ekki guðþjónusta sem slík, verður hún að flokkast undir kristið helgidagahald. 

Tilgangur fararinnar er að viðhalda hluta gamalgróinni hefð í árstíðabundnu starfi skólans. En þar sem mikil óvissa ríkir um túlkun reglananna í þessu tilviki, ákváðu bæði sóknarprestur og skólastjórar að gera einhverskonar málamiðlun, "rugga ekki bátnum" og sleppa faðirvorinu í samverustundinni. Þarna eru reglur skólayfirvalda farnar að teygja sig inn í hefðbundið helgihald kirkjunnar innan hennar eigin veggja.

En hver er tilgangur heimsóknar í tilbeiðsluhús eða kirkju, ef að ekki má verða þar vitni að neinu sem byggingin er ætluð fyrir?

Nú mætti hugsa sér að Skóli mundi ákveða að heimsækja mosku á Ramadan og til að koma á móts við reglurnar á sama hátt, þá væri farið fram á við klerkinn í moskunni að engar bænir yrðu tónaðar á meðan að heimsókninni stæði.

Í fyrsta lagi ættu skólayfirvöld að athuga hvort það sé  hlutverk skólans að standa fyrir helgihaldi og samverustundum í samráði við trúfélög í húsakynnum þeirra, yfirleitt.

Í öðru lagi ættu trúfélög sem fallast á að taka á móti skólabörnum til að taka þátt í helgihaldi þeirra, ekki að þurfa að sníða helgihald sitt í samræmi við reglugerðir borgarinar fyrir skóla.


mbl.is Bannað að fara með faðirvorið á aðventu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það ber að rjúfa á allar tengingar á milli skóla á trúarhópa, allir málamyndagjörningar munu bara vera hallærislegir.

Foreldrar geta hæglega farið með börn sín í eitthvað galdrastúss utan skólatíma.

DoctorE (IP-tala skráð) 29.11.2011 kl. 15:45

2 Smámynd: Skeggi Skaftason

Nú mætti hugsa sér að Skóli mundi ákveða að heimsækja mosku á Ramadan

... og ættu þá börnin að spenna greipar og biðja til Allah?

Skeggi Skaftason, 29.11.2011 kl. 16:25

3 Smámynd: Guðmundur D. Haraldsson

Í fyrsta lagi ættu skólayfirvöld að athuga hvort það sé  hlutverk skólans að standa fyrir helgihaldi og samverustundum í samráði við trúfélög í húsakynnum þeirra, yfirleitt.

 Það virðist vera búið að spá í þetta, sbr. textann sem þú vitnar til:

 Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og
lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni.

 Afstaðan að baki reglunum virðist vera: Nemendur mega heimsækja kirkjur og aðrar trúarstofnanir, en aðeins í þeim tilgangi að læra um þær - ekki til að verða vitni að messum, eða taka þátt í öðrum trúarathöfnum.

Guðmundur D. Haraldsson, 29.11.2011 kl. 16:33

4 identicon

Vel mælt Svanur!

Þetta er náttúrulega bara fásinna og mæli ég með bloggi Þórhalls Heimissonar við þessa frétt: http://thorhallurh.blog.is/blog/thorhallurh/entry/1208040/

Algerlega kostulegar staðhæfingar og lýðsskrum!

Jón Ferdínand (IP-tala skráð) 29.11.2011 kl. 16:37

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Guðmundur: Já nokkuð til í því.

En það getur verið ansi lærdómsríkt að verða vitni að helgiathöfnum, ekki satt?

Spurningin er samt hvort hægt sé að koma með hóp af börnum í kirkju til að þau kynnist kristnu helgihaldi, sem er leyfilegt, en banna um leið hluta helgihaldsins. - Því má ekki leyfa prestinum að fara með faðirvorið og þau sem eru kristin geta þá tekið undir og þau sem ekki eru kristin geta hlustað á.

Svanur Gísli Þorkelsson, 29.11.2011 kl. 17:02

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Skeggi; múslímar sem biðja til Guðs (arabíska Allah) spenna venjulega ekki greipar þegar þeir biðja.

Svanur Gísli Þorkelsson, 29.11.2011 kl. 17:16

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Jón; Já, þetta er dálítið yfirdrifið hjá prestinum, finnst mér.

Svanur Gísli Þorkelsson, 29.11.2011 kl. 17:17

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Dre: Út á það ganga þessar reglur.

Svanur Gísli Þorkelsson, 29.11.2011 kl. 17:18

9 identicon

Einhvertíma las ég í æfisögu (man hreint ekki hverri) að nokkur ungmenni fóru á fund hjá Hjálpræðishernum til að narrast að samkomunni en þá fór svo að einn pilturinn í hópnum "frelsaðist" með det samme.  Mórallinn í þessari sögu er sá að láta börn "prófa" helgiathafnir getur verið svona eins og að láta þau prófa fíkniefni!          

Þetta eru nú samt hófsamar athugasemdir hjá þér Svanur og varla stórhættulegt að börn taki þátt í messuhaldi svona í eins og einni heimsókn í kirkjuna.  En sama hlítur að gilda ef t.d. skólinn ákvæði að fara í heimsókn í mosku.   

Ég skil reyndar ekki baun í múslimum á Íslandi sem vantar bænahús að kaupa ekki Perluna.   Þaðan væri hægt að kalla á hverjum morgni svo heyrðist út um allan bæ. Útlitið passar líka.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 29.11.2011 kl. 19:05

10 identicon

"e) Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og
lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni."

Þarna er tekið fram að nemendurnir megi svo sannarlega fylgjast með messum. Hinsvega er það að láta krakkana alla biðja faðirvorið komið yfir í það að þú ert að láta þau taka þátt í helgiathöfnunum (hér ,,samtal'' við Guð) sem gengur ekki.

Pétur (IP-tala skráð) 29.11.2011 kl. 19:41

11 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Svanur. Það er rangt hjá þér að það sé bannað að fara með faðirvorið meðan skólabörn eru í heimsókn í kirkjur samkvæmt reglum borgarinnar. Það er einungis bannað að skikka börnin eða hvetja til að taka þátt í bænahaldinu. Þau mega hins vegar gera það ef þau ákvaða það sjálf án þrýstings.

Bjarni Gunnlaugur. Múslimar á Íslandi hafa tilbeiðsluhús. Það er við Grensársveg. Þeim vantar hins vegar alvöru mosku.

Sigurður M Grétarsson, 29.11.2011 kl. 21:57

12 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sigurður M reit; "Það er rangt hjá þér að það sé bannað að fara með faðirvorið meðan skólabörn eru í heimsókn í kirkjur samkvæmt reglum borgarinnar."

Ég held þessu hvergi fram Sigurður.

Svanur Gísli Þorkelsson, 29.11.2011 kl. 22:37

13 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Pétur; Rétt hjá þér.

Bjarni; Í Kristni er slíkur skjótur umsnúningur kallað fá köllun.

Svanur Gísli Þorkelsson, 29.11.2011 kl. 23:04

14 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ímyndið ykkur ef samskonar ákvæði væri um íþróttaiðkun og trúarstarf í grunnskólum landsins:

Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla til íþróttafélaga að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í kappleikjum eða einstökum íþróttum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni um ágæti hollrar hreyfingar einstakra íþrótta. Nemendur mega aðeins horfa á, en ekki snerta bolta, badmintonsspaða, eða neitt annað áhald íþróttafélaganna.

Skiptar skoðanir eru um ágæti íþróttanna, margir telja þær vera uppsprettu meiðsla og áfengisfíknar og má því til stuðnings benda á áhangendur helstu knattspyrnuliða á Bretlandseyjum, sem eru fyrirferðarmiklir á öldurhúsum borgarinnar þegar sýnt er beint frá knattspyrnuleikjum. Ef börnin verða látin taka þátt í þessum stórhættulegu íþróttum gæti það verið túlkað sem móðgun við þá foreldra sem eru á móti íþróttum.

Hvernig myndi þetta leggjast í ykkur? En sjálfsagt fagna fasistarnir, hatursmenn kristinnar trúar. Ég vona að myrkraöflin og fulltrúar þeirra njóti tímabundins sigur síns, því hann verður einmitt það, tímabundinn.

Theódór Norðkvist, 29.11.2011 kl. 23:45

15 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Bréf Ragnars Þorsteinssonar sem hann sendi til skólastjórnenda í dag fylgir hér:

Á aðventunni hafa skapast margvíslegar hefðir í skólastarfi í Reykjavík. Vegna nýrra reglna Reykjavíkurborgar um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila við trúar- og lífsskoðunarfélög hafa vaknað ýmsar spurningar hjá skólastjórnendum um hvernig haga megi samstarfi skóla og kirkju í aðdraganda jólanna. Til að bregðast við þeirri óvissu vill skóla- og frístundasvið koma eftirfarandi á framfæri:

Samkvæmt ofangreindum reglum eru heimsóknir nemenda grunnskóla heimilar í kirkjur í skólatíma undir handleiðslu kennara. Heimilt er að leyfa nemendum að fylgjast með athöfnum og kynnast helgisiðum en ekki má gera kröfu um að nemendur taki þátt í bænum eða öðrum helgisiðum. Sama á við um börn á frístundaheimilum og í leikskólum borgarinnar. Í reglunum er sérstaklega tekið fram að sígildir söngvar, dansar, leikir og handíðir sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum og frídögum þjóðarinnar haldi sessi sínum í árstíðarbundnum skemmtunum og starfi frístundaheimila, leik- og grunnskóla og þar á meðal séu jólasálmar og helgileikir tengdir jólum. Skóla- og frístundasvið telur ekkert því til fyrirstöðu að helgileikir sem nemendur hafa fengið að setja upp í kirkjum í borginni verði áfram settir þar upp.

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.11.2011 kl. 00:26

16 identicon

Ertu heiladauður Theodor, það er ekki hægt að bera saman íþróttir og trú/trúboð.

Aðeins heiladauðir menn bera þetta tvennt saman.

DoctorE (IP-tala skráð) 30.11.2011 kl. 10:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband